Hvers vegna óx í Fremri-Emstruá?

950803-116

Búist er við gosi úr Mýrdalsjökli. Sumir segja hvað úr hverju, aðrir eru þolinmóðari og segja að fyrr eða síðar gjósi. Í fyrra varð eitthvert skot undir jöklinum, hlaup kom í Múlakvísl og brúnna tók af eins og frægt er orðið.

Jarðfræðingar segja að hugsanlega hafi kvika komið upp undir yfirborð, undir jöklinum, og hitinn hafi hraðbrætt jökulinn og þess vegna hafi flóðið komið.

Þá rifjaðist upp fyrir mér ferð sem ég fór 3. ágúst 1995 sem fararstjóri hjá Útivist. Við buðum upp á trússferð milli Landmannalauga og Bása, nokkuð sem ekki hafði verið gert áður

Þetta var stórskemmtileg ferð, þátttakendur um þrjátíu og sumir þeirra hefðu aldrei getað gengið þessa leið með allan farangur sem nauðsynlegur er.

Fyrstu tvo dagana var rigningarúði, þó ekkert meiri en gengur og gerist. Þó óx aðeins í ám. Til dæmis var svo mikið í Innri-Emstruá að hún flæddi framhjá brúnni þannig að það þurfti að vaða að henni. Eftir það var sól og blíða.

Þegar komið var að Fremri-Emstruá, þeirri sem göngubrúin er yfir, brá svo við að afskaplega mikið vatn var í henni og það var ekki skolbrúnt eða grátt heldur dökkgrátt.

Hið fyrsta sem okkur datt í hug var að nú væri eitthvað að gerast í Mýrdalsjökli og jafnvel væri von á gosi. 

950803-117

Mér datt í hug að vera gáfulegur og sótti plastflösku og tók sýni úr ánni, hálfan lítra af drullumalli. Gáfulegheitin rjátluðust svo af mér, ég týndi flöskunni og gleymdi myndunum ... tja, þangað til núna. Og þá vaknaði athygli mín að nýju. 

Fyrsta myndin er tekin við Markarfljótsgljúfur þar sem Fremri-Emstruá mætir Markarfljóti. Gríðarlegur litamunur er á þessum tveimur fljótum þó skýringin geti verið einföld. Emstruáin er styttri, rennur nokkra kílómetra frá jökli meðan hin, Markarfljót, er blönduð, kemur að nokkru leyti úr Tindfjallajökli. Innri-Emstruá er jökullituð og kemur meðal annars úr Kaldaklofsjökli og Torfajökli.

950803-124

Næsta mynd er tekin með aðdráttarlinsu og sýnir nánar litamuninn á þessum tveimur fljótum.  

Síðar þennan dag óðum við Þröngá nálægt Rjúpnafelli. Hún kemur sem kunnugt er úr Mýrdalsjökli og var þarna verulega lituð, rétt eins og Fremri-Emstruá.Þriðja myndin er tekin við Þröngá. Þar stekkur einn unglingurinn yfir eins og ekkert sé.

Þó Þröngá sé mórauð var liturinn þó alls ekki eins og á Fremri-Emstruá eins og raunar má sjá þegar myndirnar eru bornar saman. 

Skömmu síðar óðum við Krossá sem var eins og hún átti „vanda til“, skolgrá en ekki vatnsmikil.

Og hvað skyldi nú þessi frásögn af vexti í Fremri-Emstruá hafa kennt manni? Jú, í fljótum vex af og til. Stundum er ástæðan úrkoma eða sólbráð á jöklum. Þetta er eiginlega allt og sumt. Ég hef eiginlega ekki hugmynd um hvers vegna það óx í Fremri-Emstruá, finnst þó ólíklegt að ástæðan hafi verið úrkoma eða sólbráð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband