Myndir frá árinu 1980

800300Ég er svo heppinn að minningarnar eru ljóslifandi fyrir mér, bókstaflega. Allt frá því í barnæsku hef ég tekið myndir og sérstaklega eftir að ég fór að ferðast um landið.

Í nær öllum ferðum mínum hef ég haft þann vana að vera með myndavél og taka myndir. Ég er þess fullviss að ég myndi ekki eftir fjölmörgum atvikum og ferðum nema vegna þess að ég hef oftast haft með mér myndavél og tekið myndir.

Núna var ég að ljúka við að skanna tíu þúsundustu slides myndina mína. Ég byrjaði í vor og er varla hálfnaður. Smám saman eru þær mínar að hverfa úr hillunum og tómir bakkar hlaðast upp. Um leið eru allar komnar í tölvutækt form og backup til staðar.

Hér eru myndir af nokkrum eftirminnilegum atvikum frá árinu 1980.

Á efstu myndinni er ég að smyrja gönguskíði fyrir vin minn og félaga Hauk Þór Hauksson. Reyndi nokkrum sinnum að draga hann á skíði en það entist ekkert. 

800801-8

Hann varð aldrei nema slarkfær á gönguskíðum og hætti loks þessari vitleysu og snéri sér smám saman að því í frímtímum að sinna hrossum. Finnst mér það illa valið.

Næsta mynd tók vinkona mín á myndavélina mína. Þarna er ég á gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Í þá tíð fóru aungvir þá leið nema einhverjir stórfjallamenn, samt var hún stikuð, að minnsta kosti upp í Hrafntinnusker.

Ég man alltaf hversu myndir af landinu við Landmannalaugar heilluðu mig, og gera það raunar enn þann dag í dag. Svo stórkostleg er líparítið.

800912-27

Hekla gaus 17. ágúst á þessu ári. Ég man að ég reyndi að fá einhverja með mér austur til að skoða eldsumbrotin en það tókst ekki. Því fór ég einn að Selsundi, gekk þaðan upp og að fjallinu. 

Hvorki fyrr né síðar hef ég komið eins nálægt eldgosi, miklu nær en þessi mynd sýnir. Það gerði gæfumuninn að mjög hvasst var að sunnan og ég komst hæglega um eitthundrað metrum frá neðstu gígunum, en þar var heitt, maður lifandi. Þá var orðið rökkvað og ég lagðist niður, skorðaði myndavélina í greipum mínum og tók mynd. Þá fann ég hvernig jörðin ólgaði og skalf undir mér. Auðvitað fylltist ég skelfingu en stóð virðulega upp og forðaði mér.

800920-17

Beinahóll á Kili er einstakur staður. Þangað hef ég nokkrum sinnum komið. í fyrsta skipti var ég með Jónasi Inga Ketilssyni, félaga mínum, einn af þeim sem ég reyndi að kynna dásemd fjallaferða, en mistókst. Hann hvarf á líka í hestamennsku og hefur dvalið þar síðan í fnyk og leiðindum, held ég.

Við villtumst á Kili og náðum ekki áttum fyrr en við komum fyrst að Grettishelli norðan við Rjúpnafell og síðan að Beinahóli. Þá vissum við stefnuna að Hveravöllum og gátum fylgdum vörðuðu leiðinni.

Sem kunnugt er urðu tveir bræður frá Reynisstöðum í Skagafirði út við Beinahól í lok október 1780 og að auki þrír förunautar þeirra. Þeir fimmmenningar höfðu verið sendir til að kaupa fé á Suðurlandi og ráku það yfir Kjöl. Þeir fóru úr byggð þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð Sunnlendinga.

Hópurinn lentu í stórhríð og varð æfi þeirra þarna öll. Fjárhópurinn drapst og eru þarna enn bein 180 fjár en talsvert hefur þeim fækkað á undanförnum árum. Á myndinni sést í bein við brekkuræturnar.

801000-8

Fimmta myndin er tekin á Syðstusúlu í Botnsúlum. Þangað upp gengum við vinirnir Benedikt Hauksson og Reynir Einarsson í byrjun október 1980.

Þó hvorugur hafi lagt fyrir sig fjallamennsku hafa þeir ekki lent í því að eignast hross og er það vel. Stutt er síðan ég fór í mikla hrakningaferð með Reyni. Það var víst veturinn 2010 að við gengum á skíðum úr Skaftártungu í Strútsskála og aftur til baka. 

Þetta var í annað sinn að ég gekk á Syðstusúlu. Fyrra skiptið var held ég sama ár er við sömu félagar fórum á fjallið en lentum í þoku og þrátt fyrir að reyna að komast upp úr henni þraut land fyrr.

801000-18Síðasta myndin er tekin í gönguferð á Hengil í október 1980. Með í för voru meðal annarra mágur minn og systir, Lovísa.

Þetta er ein besta myndin sem ég á af Arnljóti heitnum Björnssyni, mági mínum, sem situr þarna í léttri áningu. Við fórum ekki í margar ferðir saman en nokkrar voru þær engu að síður. Hann var skemmtilegur ferðafélagi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband