Frábær bikarútslitaleikur
19.8.2012 | 15:24

Bikarúrslitaleikurinn í gær var frábær skemmtun. Langt er síðan ég hef skemmt mér eins vel á Laugardalsvellinum. Liðin voru frábær, fótboltinn var góður, leikgleðin mikil og áhorfendur í banastuði.
Mér fannst Stjörnumenn betri að mörgu leyti. Þeir eru snöggir, spila vel sín á milli, eru áræðnir og leika með hjartanu. KR-ingar eru allt öðru vísi leikmenn. Þeir spila yfirvegað, þreyta andstæðinginn, ráðast með skyndisóknum upp völlinn og eru stórhættulegir eftir því sem þeir nálgast markið.
Fyrsta markið var stórglæsilegt, boltanum stungið inn fyrir vörnina og Garðar Jóhannssonþurfti aðeins eina snertingu og boltinn lá í netinu. KR-ingar jöfnuðu á ævintýralegan hátt. KR-ingur gefur inn í teiginn en Stjörnumaður slæmir fæti fyrir boltann, markvörðurinn hikar eitt andartak og Gary Martin nær að skalla í mark. Klaufalegt hjá Stjörnumönnum.
Hetjan, Garðar Jóhannesson, misnotaði víti í lok hálfleiksins, skatu í slá. Auðvitað er hægt að segja að Stjörnumenn hefðu átt að vera með tvö mörk gegn engu í hálfleik en þannig er ekki fótboltinn. Hann er ekki unninn í skildagatíð og útilokað er að halda því fram að ein mistök geri út um leik. Menn gera ótal mistök í hverjum leik, sum eru smávægileg en draga dilk á eftir sér, önnur eru stór eins og misnotuð vítaspyrna. Leikurinn gengur út á að fækka litlu mistökunum. Þannig vinna menn leiki. Óhöpp eins og að skjóta í slánna gera ekki út um leiki.
Mér fannst lítið bera á Baldri Sigurðssyni í leiknum og hafði orð á því við félaga mína að hann væri nú bara týndur og ætti að skipta honum út af. Þá gerist það nokkru síðan að Baldur skorar mark, eiginlega upp úr þurru að manni fannst. Þannig gerast hlutirnir. Sá sem ekkert virðist standa sig er allt í einu lykilmaður og skorar markið sem öllu skiptir. Honum er auðvitað snarlega fyrirgefið. Þetta segir ekkert annað en að sigurinn fæst með vinnusemi. Baldur er alltaf að þó hann sé ekki alla tíð með boltann á tánum.
Hitt verður að viðurkennast að stuðningsmenn Stjörnunnar voru miklu frískari og hávaðasamari í leiknum. Hvöttu sína menn vel áfram og víst var að leikmenn tóku virkilega vel eftir því. Svo slakir vorum við KR-ingar að Magnús Már Lúðvíksson, kanntmaðurinn knái í KR, þurfti oftar en einu sinni að hvetja stuðningsmenn liðsins til að láta í sér heyra. Ég veit það fyrir víst að leikmenn styrkjast margfalt við góðan stuðning áhorfenda.
Get ekki látið hjá líða að birta meðfylgjandi mynd af þremur ánægðum KR-ingum. Vinstra megin er Hannes Þór Halldórsson, markmaður KR og landsliðisins, í miðjunni Kári Stein Benediktsson, markmaður í yngri flokkum KR og hægra megin er frændi Kára, Grétar Sigfinnur Sigurðarson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.