Arfavitlaus frétt um GPS tæki hjá Ríkisútvarpinu

Hægt er að greina hraðamyndavélar í staðsetningartækjum sem seld eru í bíla. Sérfræðingur hjá Umferðarstofu vonar að sú tækni verði ekki misnotuð og fólk noti eigin dómgreind við aksturinn.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins kemur manni oft á óvart. Ofangreint er úr fréttum laugardagsins 11. ágúst og er ferlega vitlaus. Raunar svo heimsk að varla er hlægjandi að vitleysunni.

Útilokað er hægt að greina hraðamyndavélar í staðsetningatækjum. Það er einfaldlega rangt að GPS tæki greini hvar verið er að mæla hraða bíla. Slík tækni er ekki til eftir því sem best er vitað. Hins vegar má setja alls kyns staðsetningar inn í þessi tæki og til þess eru þau.

Tækin greina ekki vegi heldur eru landakort inni í tækjunum. Merkja má vegamót, beygjur og annað sem umferð viðkemur. Um leið er hægt að láta tækið gefa viðvörun er komið er að þeim stöðum sem fyrirfram hafa verið merkt.

Göngumenn nota GPS staðsetningartæki mikið og svo góð eru þau bestu að hægt er að ganga með þeim rétta leið í niðadimmri þoku eða um nótt og komast auðveldlega á áfangastað. Þar af leiðandi eru þau mikið öryggisatriði. Komi eitthvað fyrir getur ökumaður á sama hátt látið vita nákvæmlega hvar hann er staddur. Staðsetninguna greinir GPS tækið. Það er í raun eini galdurinn.

Engin takmörk eru fyrir því hvað merkja má í staðsetningatækin og þar með má telja staði þar sem komið hefur verið upp föstum hraðamyndavélum. Ef þessar staðsetningar fylgja ekki tækinu getur eigandi þess komið þeim sjálfur fyrir.

Og svo sveia menn og fussa yfir þessari tækni í útlistun fréttastofu Ríkisútvarpsins. Hvað skyldu þessi sömu segja ef næsta frétt sömu fréttastofu myndi hljóða á þessa leið:

Hægt er að greina vínbúðir, vínveitingahús og bari um allt land með staðsetningatækjum sem  seld eru í bíla. Sérfræðingar SÁA vonar að tæknin verði ekki misnotuð og fólk noti eigin dómgreind á ferðum sínum.

Auðvitað er þetta jafnvitlaus frétt og sú í upphafi. GPS staðsetningatæki greina ekki neitt, þau eru heimsk og segja bara það sem ætlast er til að þau segi.

Þá kemur stóra spurningin, var fréttamaðurinn sem samdi þessa frétt að segja það sem hann átti að segja eða gleymdi hann skynseminni heima þennan vinnudaginn? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Sigurður,

"Útilokað er hægt að greina hraðamyndavélar í staðsetningatækjum. Það er einfaldlega rangt að GPS tæki greini hvar verið er að mæla hraða bíla. Slík tækni er ekki til eftir því sem best er vitað." 

Þetta er rangt hjá þér, það eru til GPS tæki með skynjurum fyrir bæði radar og leysi hraðamæla lögreglu.  Hér er t.d. eitt:  https://www.escortradar.com/iq/?gclid=CIT2-tu74LECFWVvQgodZSsADg&ef_id=QaNPLHlhCSoAAE-S:20120811205911:s

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 11.8.2012 kl. 21:02

2 Smámynd: Gylfi Gylfason

Ég hef nú selt svona dót og sel enn og sé ekki þína ástæðu til pirrings yfir fréttinni sem ég hlustaði líka á. Þú ert bara að verða erfiðari en Eiður Guðnason sýnist mér :) en fréttamönnum gengur misvel að útskýra tæknmál á nokkrum sek.

Það er reyndar langt síðan þessi tækni varð almannaeign en margir radarvarar bjóða uppá GPS tags.

http://cgi.ebay.com/ws/eBayISAPI.dll?ViewItem&item=180862201290

Þessi tengist t.d alþjólegum gagnagrunni og í hann má setja íslensku hraðamyndavélarnar.

Gylfi Gylfason, 11.8.2012 kl. 21:10

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það skondna við þetta er að enn sem komið er eru hraðamyndavélarnar það fáar að fyrir þá sem aka helstu leiðir er auðvelt að muna, hvar þær eru.

Nú er bara að sjá hvort "sérfræðingur Umferðarstofu" vonist til þess að enginn misnoti það hvernig heilinn getur "greint hraðamyndavélar" með því að sjá þær og geta ekki gleymt þeirri sýn.

Ómar Ragnarsson, 12.8.2012 kl. 16:48

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Veit ekki hvort er verra, að hafa rangt fyrir sér eða vera líkt við Eið Guðnason ;-). Kannski er það þó skárra að fá leiðréttingar frá tveimur málefnalegum sómamönnum eins og Arnóri og Gylfa. Bestu þakkir báðir.

Svo er það hitt, þetta með heilann í manni. Alveg óútreikninglegt tæki sem á það til að nota og misnota upplýsingar hvað sem hver segir. Jafnvel man hann, eins og Ómar segir, eftir því hvar staurar með hraðaksturmyndavélum eru og getur varast þá. Radarvarinn minn ver mig ekki gegn þeim en hins vegar lætur hann mig vita þegar lögreglan er að mæla hraðann. Nota ekki GPS tæki í akstri, rada eiginlega flest.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.8.2012 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband