Frekar bláeygðir vinstri menn ...
11.8.2012 | 12:20
Man fólk eftir kröfu Sjálfstæðisflokksins um að efnt væri til þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn ríkisstjórnarmeirihlutans um aðild að Evrópusambandinu? Þetta var sumarið 2009 er vinstri meirihlutinn á Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um aðildina.
Og vinstri menn hlógu sig máttlausa fyrir þessari heimsku Sjálfstæðismanna að krefjast þjóðaratkvæðis um svona mál. Og ástæðan var sú að ríkisstjórnin ætlaði fyrst að kíkja í pakkann, gá hvað komi út úr viðræðunum. Og, sko, svo, verður þjóðaratkvæðagreiðsla um pakkann. Tóm della að hafa tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um sama málið. Ha, ha, ha, ha ...
Hvernig er nú staðan eftir þriggja ára aðlögunarviðræður að sambandinu? Jú, Samfylkingin laug því að okkur að um tvíhliða viðræður yrði að ræða og hægt væri að kíkja í einhvern pakka að þeim loknum. Þeim láðist að geta þess að þetta var umsókn um aðild og viðræðurnar hafa miðast og eiga að stefna að því að aðlaga íslenskt stjórnkerfi, reglur og lög að því sem gildir hjá ESB.
Vissu vinstri grænir þetta? Hafi þeir ekki vitað þetta eru þeir bláeygðari en vinstri mönnum sæmir. Og Vinstri grænir sögðu það hina mestu heimsku að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina. Í þokkabót hafa þeir rekið ráðherra, breytt stjórnkerfinu, samþykkt aðlögun og hent út óþægum samningamönnum sem voru eitthvað að bera á borð hagsmuni Íslands.
Styrmir Gunnarsson segir á Evrópuvaktinni í dag:
Það voru grundvallarmistök hjá núverandi ríkisstjórn að fallast ekki á kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu hér á Íslandi sumarið 2009 um aðildarumsóknina. Hefði sú atkvæðagreiðsla farið fram og verið samþykkt, sem ekki var óhugsandi á þeim tíma væri ríkisstjórnin í allt annarri stöðu nú.
Í þess stað er málið dautt og einungis eftir að ákveða hverng aðildarumsókninni verður lokið með formlegum hætti.
Allir vita pólitíska stöðu aðlögunarviðræðnanna. Þær eru dauðar vegna þess að ESB veit að þjóðin er á móti aðildinni, ríkisstjórnin heldur áfram viðræðunum vegna þess að hún kann ekki að játa sig sigraða. Veit sem er að geri hún það eru dagar hennar taldir.
Hefði verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB væri ríkisstjórnin í skárri málum, hvernig sem niðurstaðan hefði orðið.
Nú er hin pólitíska staða sú að íslenska ríkisstjórnin er talin veikburða og varhugavert að treysta henni, ráðherrar hennar hafa ítrekað verið staðnir að ósannindum eða í það minnsta farið með fleipur um afstöðu þjóðarinnar til aðildarinnar. Kommissararnir hjá ESB kunna að lesa og þeir eru með sendiherra hér á landi og þurfa ekki að styðja sig við upplýsingar frá ríkisstjórninni.
Niðurstaðan er því sú að ósk ríkisstjórnarinnar um aðild Íslands að ESB hefur stórlega skaðað orðstír landsins og hún verður henni að falli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.