Veldu þér dag ...

DSCN0142

Veldu þér dag en vandaðu valið. Hann verður að vera bjartur, helst síðdegissól eins og svo oft er í ágúst. Líttu yfir flóann. Það er góðs viti ef ekki eru ský yfir Snæfellsnesi. Þá eru meiri líkindi á að sólin setjist í heiði. Horfðu síðan í hina áttina. Líttu til Bláfjalla. Þar ber oftast mest á Vífilsfelli, fjallinu sem kennt er við þrælinn. Séu Bláfjöllin skýlaus og björt gríptu skóna og komdu þér af stað.

Gakktu á Vífilsfell. Ekki norðaustanmegin. Aktu þess í stað upp fyrir Sandskeið. Findu vegarslóða sem liggja í áttina að giljunum austan megin við fjallið. Þar er fyrirheitna landið. Þar get ég lofað þér undrum og stórmerkjum þegar kvöldsólin er sem björtust og varpar geislum sínum óhindrað yfir flóann, höfuðborgina, Heiðmörk og á Bláfjöll. Þau verða rauð.

DSCN0063DSC_0148

Leggðu bílnum, gakktu yfir heiðina og að gilinu. Veldu gilið hægra megin og fetaðu þína öruggu leið upp. Ekki flýta þér. Láttu ekki hugann ana með líkamann í gönur. Þetta tekur vissulega á, þú svitnar og þreytist en það er öllum holt.

Gakktu svo í áttina að efri hluta Vífilsfells og þá heyrirðu sögurnar sem meðfylgjandi myndir segja. Mundu samt að birtan skiptir máli, hún gæði landið lífi.

DSC_0156

Sjáðu til dæmis þessar myndir. Tvær efstu eru bjartar og fagrar en hinar hafa ekki sama töfra og ljóma þó vissulega sé landslagið eitt og hið sama, magnað og stórkostlegt.

Þannig gerast nú hlutirnir á landinu okkar. Og munum að oft þarf ekki að fara nema örskammt til að skoða það sem haldið getur manni hugföngnum tímunum saman.

Þannig er það með Vífilsfellið að suðvestanverðu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband