Smálækir á hvolfi ... eða þannig
3.8.2012 | 10:52
Skjannahvítt hrímið meðfram læknum hefur líklegast myndast í næturfrosti á jöklinum, segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur, í þessari frétt á mbl.is. Og auðvitað hefur hann rétt fyrir sér.
Um leið mundi ég eftir svipuðu sem gerðist er við gengum nokkrir ungir piltar yfir Sprengisand í apríl 1981. Við vorum tveir Reykvíkingar og fjórir frá Akureyri, allt stórskemmtilegir félagar, sem böðluðust yfir hálendið, stundum í leiðinda veðri og mótvindi. Þó veðrið færi batnandi eftir því sem á gönguna leið höfðu náttúruöflin ekki sagt skilið við okkur.
Í mars hafði gosið í Heklu. Þegar við vorum komnir að Þórisvatni sáum við að mikil aska hafði fallið og var mjög erfitt að skíða. Raunar fór askan svo illa með sólann á gönguskíðunum mínum að ég þurfti að henda þeim þegar heim var komið.
Síðasta kafla göngunnar var bjart, sól á daginn og stjörnubjart að nóttu. Og auðvitað þýddi það næturfrost. Er sólin náði að lina frosttökin rann stundum vatn yfir snjóinn en kuldinn var nægur til að vatnið fraus hægt í rennsli sínu. Þá urðu til lækjarfarvegir með öfugum formerkjum eða á ég að segja að þeir hafi hreinlega verið á hvolfi ...
Hvítir lágu lækirnir ofan á öskuþöktum snjónum rétt eins og sjá má á efri myndinni. Að öllu jöfnu hefðu þeir átt að grafa sig ofan í snjóinn. Og formin voru fjölbreytt og skemmtileg, rétt eins og frosrósir á rúðu.
Sé neðri myndin stækkuð má sjá að einn félaga minna rennir sér á fullri ferð og ætlar að komast yfir hvíta lækjarsprænuna sem hann hyggur vera vel frosna en þá fór í verra. Skjannahvítt hrímið gaf eftir og hann sökk upp að hnjám ...
Lækur sprettur upp á miðjum Mýrdalsjökli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.