Afrekalisti ríkisstjórnarinn er langur og merkilegur

Mikið má maður þakka ríkisstjórninn vel fyrir þann árangur sem hún hefur náð. Hann er stórfenglegur þegar litið er til þess að fyrir fjórum árum tæpum lentum við í efnahagshruni. Og hvað skyldi ríkisstjórnin hafa gert til að koma okkur út úr kreppu og óáran? Allt, allt - nema að losa okkur við njólana á umferðareyjum í Reykjavík, en þeir skipta svosum ekki máli enda bara urt á Merði.

Veðrið hefur leikið við landsmenn í meira en tvo mánuðu. Sól nær upp á hvern einasta dag en rigning í Evrópu. Og þetta gerist þrátt fyrir að Veðurstofan fái ekki eina einustu krónu aukalega á fjárlögum heldur byggir hún á hvatningu og gælum umhverfisráðherra sem enn er við störf þótt fáir sjái til hennar.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar leysti úr læðingi sköpunarkraft landsmanna og því varð vanilluísinn til en hann gerði Íslendingurinn Stefán Crosser.

Anný Mist sem sigraði á heimsleikunum í crossfit er lifandi dæmi um þann þrótt sem lifnað hefur í æsku landins í kjölfar ódrepandi hvatningar frú Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem hefur verið óþreytandi að hvetja landsmenn til afreka, rétt eins og Jón forseti Sigurðsson, frá Dýrafirði.

Aukið hefur verið við afla á Íslandsmiðum um heil þrjátíu þúsund tonn. Það mun þýða tíu milljarða króna aukalega í veltu landsins. Sjávarútvegsráðherra hefur, þó hljótt fari dags daglega, unnið sína heimavinnu og fóðrað þorskin á orðgnótt sinni.

Íslensk erfðagreining hefur fundið út staðsetningu á parkinsonveikinni í genum Íslendinga. Þetta hefði áreiðanlega ekki verið hægt nema fyrir heillandi hvatningu velferðaráðherrans sem hefur til að bera svo mikla útgeislun og persónutöfra að eitt orð, kannski tvö eða þrjú, hafa þær afleiðingar að fólk gleymir amstri dagsins og axlar sína haka og axir og ryður nýjan skóg. 

Hagvöxtur í efnahag landsins hefur risið í óþekktar hæðir og mælist nú 2,5% vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Efnahagsmálaráðherrann þurfti ekki annað en að ræða um aukin afköst og þá reis hagvaxtarkúrfan samstundis og vekur undrun allra hagspekinga, innlendra og erlendra, sem vilja svo gjarnan fá þennan töframann til að stjórnar efnahag ESB og Grikklans, helst í einum pakka.

Svo eru það hinar óstaðfestu fréttir. Heyrst hefur af fötluðum manni sem kastaði hækjum sínum eftir að hafa lesið viðtal við forsætisráðherra og gengur nú óstuddur. Kýr nokkur sem talin var geld varð fyrir svo miklum áhrifum af landbúnaðarráðherra að hún mjólkar nú skyri, jógúrt með jarðaberjabragði, AB mjólk og venjulegri mjólk í þúsundlítravís. Svo vel hefur innanríkisráðherra staðið við baki þjóðkirkjunar að hún kaus sér konu sem biskup sem aldrei hefur gerst áður. Spánarsnigillinn hefur ekki numið land hér á landi enda er landbúnaðarráðherra á móti honum.

Svona má lengi telja af afrekalista ríkisstjórnarinnar og vissulega er allt þetta þakkarvert.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahaha dásamleg lesning

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.7.2012 kl. 12:18

2 identicon

Góður!

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.7.2012 kl. 20:17

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

ok, sé kaldhæðnina

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 17.7.2012 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband