Halloka Skakklöpp

Ég hef áður skrifað um úrskurði mannanafnanefndar ríkisins og held því nú áfram. Rifja upp að úti í bæ sitja nokkrir glaðir, miðaldra karlar, hverra nöfn ég held hér leyndum, og hafa það fyrir stafni að semja nöfn sem þeir svo senda þessari nafnamannanafnanafnamannanefndnefnd ríkisins til umsagnar - og hafa gaman af.

Rætt hefur verið um kvenmannsnafnið Laugalind, endurtek Laugalind. Það þykir einstaklega vel saman sett og hentar vel fyrir foreldra sem eru dálítið rómantískir, sérstaklega móðirin sem ræður væntanlega för en karlinn dregur sig til hlés og samþykkir allt sem hún segir. Laugalind, t.d. Magnúsdóttir virðist vera létt í munni og uppfylla öll skilyrði móðurmálsins.

Þá kemur að karlmannsnafninu Raunsannur, endurtek Raunsannur. Nafnið er undurfagurt og í senn karlmannlegt og eðlilegt sem mikil þörf virðist vera á í dag. Raunsannur, t.d. Magnússon virðist ganga ákaflega vel og uppfyllir skilyrði móðurmálsins. Samsetning tveggja eða fleiri nafna kemur hér sterkt út. Til dæmis Raunsannur Örn Magnússon eða Raunsannur Kálfur Mannsson (hið síðarnefnda kann að valda misskilningi eins og skopsagan sannar, en hún er um fund um álfa í félagsheimilinu. Fyrirlesari byrjaði á því að spyrja hvort einhver í sveitinni hefði verið með álfum. Enginn rétti upp hönd en svo læddist upp ein lengst úti í horni. Já, hrópaði fyrirlesarinn æstur. Hér er einn og þú, þú góði, þú hefur væntanlega verið með álfum. Erþaki? Ha, sagði þá sá sem átti höndina. Álfum, nei ... heyrðist þú segja kálfum ...).

Skaklöpp þykir ekki gott kvenmannsnafn þar sem það gæti haft í för með sér einelti fyrir þann sem ber það. Að öðru leyti ætti það að ganga enda móðurmálslega fagurt. Nafnið er samansett út sögninni að skaka og klöpp (hverjum datt í hug að það væri lýsingarorðið skakkur og löpp ...?).

Loks er ekki úr vegi að geta nýnefnisins Hallloki, samansett úr tveimur nöfnum, Halli og Loki. Þetta gengur svo ákaflega vel saman að unun er á að hlusta. Kosturinn við nafnið er að það gengur listilega vel sem kvenmannsnafn og er þá Hallloka. Maður sér hreinlega fyrir sér að Halloka Skaklöpp Raunsannsdóttir reyna sig í badminton við Evrópumeistara kvenna og auðvitað fer hún ... á kostum.

 


mbl.is Mega heita Dante og Rorí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þessi mannanafnanefnd er algjör brandari og alveg út úr kú.  Það ætti að leggja hana niður sem fyrst.  Ef foreldrar eru svo forhertir að ætla að láta börnin sín heita einhverjum ónefnum, þá ætti einfaldlega að koma til prestins að tala um fyrir þeim.  Þetta nær ekki nokkurri átt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.7.2012 kl. 13:07

2 Smámynd: Elísabet Jean Skúladóttir

Ég heiti Elísabet Jean Skúladóttir og ég stofnaði þetta blogg í raun eingöngu til þess að geta bloggað um þessa frétt.

Ástæða þess að ég ætla mér að blogga um fréttina er sú að ég er ein af þeim átta kvenmönnum sem heita nafninu Jean sem mannanafnanefnd var að hafna.

Amma mín er frá Englandi en hefur búið á Íslandi frá árinu 1946 og hún heitir Jean Magnússon.

Frá því að ég var lítil stúlka hefur mig alltaf dreymt um að skíra dóttur mína Jean í höfuðið á ömmu minni og í febrúar rættist sá draumur því ég eignaðis litla dóttur og skírði hana falleg íslensku nafni Emilía og bætti að sjálfsögðu Jean sem millinafni. Ég sótti ekki um leyfir fyrir nafninu áður en hún var skírð vegna þess að mér hreinlega datt það ekki í hug þar sem ég heiti þessu nafni og amma mín líka.

Svo kom símtalið! Þjóðskrá hringdi í mig og tilkynnti mér það að ekki væri hægt að skrá hana í kerfið því það væri ekki leyfi fyrir nafninu Jean.

Okkur fannst þetta hræðilegar fréttir þar sem við vorum búin að skíra hana og amma Jean var viðstödd skírnina og hún ljómaði þegar nafnið var nefnt en núna þarf ég að segja henni að nafna hennar muni aldrei verða nafna hennar. Þetta finnst mér svo ósanngjarnt. Ég gekk með þetta barn, fæddi það og klæði en þrátt fyrir allt það þá má ég ekki ráða hvað marnið MITT á að heita.

Ef skoðuð eru nöfn sem mannanafnanefnd hefur samþykkt þá má sjá að mörg hver þeirra eru hrikaleg, ég ætla ekki að taka dæmi því ég vil ekki særa aðra en ef mannanafnanefnd er sett það vald í hendi að ákveða nöfn annara manna barna þá ættu þeir að skammast sín fyrir mörg þeirra nafna sem þau samþykkja því þar er ekki verið að hugsa um velferð barnsins. Barnið þarf að bera nafn sitt alla ævi og við vitum öll hversu mörg börn verða fyrir aðkasti í lífinu af völdum annarra vegna ýmissa atriða og fáránlegt nafn er að sjálfsögðu eitt af þeim atriðum.

Ég má ekki skíra dóttur mína Emilíu Jean vegna þess að þjóðarstolt okkar leyfir það ekki því það er ekki hægt að fallbeygja nafnið. Ég hlýt þá að fá leyfi fyrir nafninu Sundlaug þar sem það beygist á sama máta og Sigurlaug, Svanlaug, Þórlaug og Snjólaug. En væri það sanngjarnt barnsins míns vegna?

Ég tek undir með henni Ásthildi Cesil að það eigi að leggja þessa nefnd niður. Ég vil ekki að geðþáttaákvörðun nokkra einstaklinga stjórni því hvað ég nefni barnið MITT.

Með von um stuðning

Elísabet Jean og Daði Steinn.

Elísabet Jean Skúladóttir, 13.7.2012 kl. 15:27

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elísabet, þú hunsar bara þessa niðurstöðu.  Barnabarnið mitt í Noregi var skírð á Íslandi og fékk nafnið Evíta Cesil, nafnið var ekki samþykkt af mannanafnanefnd, en hún heitir samt Evíta Cesil.  Annað barnabarn sem er búsett í Austurríki var líka skírð hér heima daginn áður en Evíta Cesil, hún var skírð Ásthildur Cesil,  og það var ekkert rætt um það  meir.  Nú erum við þrjár Cesiljarnar og ég heiti eftir afa mínum sem hét Hjalti Cesil.  Ég var lengi í stríði við Hagstofuna með nafnið mitt þó ég hefði undirskrift foreldra minna um að nafnið ætti að vera Cesil, þá vildi apparatið ritað það Secil.... segi og skrifa.  Þeir hengu í því að Cesil væri karlmannsnafn, en það má benda á önnur nöfn eins og Blær sem er bæði karlmannsnafn og kvenmanns.  Við bara unum þessu ekki, og skulum ná sigri.  Fyrst og fremst er minn sigur fólgin í því að fá nafnið mitt rétt skráð, sem tókst, annað er að fá þessa ömurlegu mannanafnanefnd lagði niður.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.7.2012 kl. 15:38

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Tek undir það sem Elísabet Jean Skúladóttir segir; hún hlýtur að mega skíra barnið sitt nefni sem tengist henni svona sterkt. Skárra væri það nú. Hvers virði væri Ásthildur ef hún héti ekki líka Cesil ...? Hins vegar hef ég skilning á því sem mannannanafnannanefndanna á ætlað að gera, sem er að koma í veg fyrir nöfn eins og Halloka Skakklöpp eða Ahmed Kahlua Viskí Ragnarsdóttir eða Smávinir Fagrir Herssveinsson eða jafnvel Fagurlimuð Hind Óskarsdóttir ... Hins vegar er það pólitísk stefna mín að hver og einn verði að hugsa fyrir sjálfan sig, mannannanafnannanefnd ríkisins getur ekki komið í stað skynsemi viðkomandi og þá verðum við bara að sætta okkur við það að einhver skíri barnið sitt óhefðbundnu nafni sem hneykslar. Elísabet Jean og Ásthildur Cesil geta borið höfuð sitt hátt, ekki aðeins vegna nafna þeirra heldur líka mannkosta vegna. Stattu þig Elísabet Jean, þú átt að berjast endalaust eftir viðurkenningu Þjóðskrár. Ekki gefa eftir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 13.7.2012 kl. 16:55

5 Smámynd: Elísabet Jean Skúladóttir

Þakka ykkur fyrir Ásthildur og Sigurður. En Ásthildur! Hvernig fenguð þið nafnið skráð hjá þjóðskrá? Mér var tilkynnt að hún yrði ekki skráð Jean þar sem nafnið væri ekki samþykkt.

Elísabet Jean Skúladóttir, 13.7.2012 kl. 19:16

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Evíta er sennilega ekki ennþá skráð í þjóðskrá, en Ásthildur Cesil er komin inn.  Hef ekki skoðað þetta með Evítu Cesil því hún býr í Noregi.  En ég þarf eiginlega að kanna þetta nánar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.7.2012 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband