Varað við valdaframsali til ESB
7.7.2012 | 11:32
Hins vegar teldi ég eðlilegt að breyta stjórnarskránni þannig að hægt sé með ákvörðun Alþingis að deila fullveldisréttinum [með ESB] í tilvikum eins og þessum. Það leysir málið að hluta. Samt sem áður stöndum við frammi fyrir þeim ágöllum EES-aðildarinnar sem hér býr að baki. Mín lausn á vandanum er að ganga í ESB og verða þátttakandi í þessu ferli, og ekki bara þiggjandi. Aðrir verða svo að gera grein fyrir sinni lausn.
Þessi tilvitnun er úr niðurlagi fróðlegrar fréttaskýringar í Morgunblaðinu í morgun. Meðal annarra er rætt við Mörð Árnason, þingmann Samfylkingarinnar, sem mælir ofagreind orð. Þarna er verið að ræða lögmæti nýrrar reglugerðar vegna losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda.
Björg Thorarensen, lagaprófessor, og Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, telja reglugerðina feli í sér valdaframsal til ESB.
Í fréttaskýringunni segir:
Þótt ekki sé kveðið á um reglugerðina í frumvarpinu skapar samþykkt laganna umgjörð sem reglugerðin fellur að. Má hér nefna að í greinargerð umhverfisráðuneytisins segir að annað meginmarkmið loftslagslaganna sé að innleiða reglur um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda sem eru hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Hafi einhver verið í vafa um að Ísland standi í aðlögunarviðræðum er þetta einn ein staðfestingin en það sem er alvarlegast er að þetta framsal er ólöglegt samkvæmt stjórnarskrá og á það benda lagaprófessorarnir.
Gott og vel, þá hlýtur að vera næst á dagskránni að lagfæra þetta. Draga lögin og reglugerðina til baka.
En er það svona einfalt? Nei, Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur aðra skoðun. Hann ætlar að troða þjóðinni inn í ESB með góðu eða illu. Næst á dagskránni hjá honum er bara að breyta stjórnarskránni og leyfa þetta fullveldisafsal.
Það má þó hæla Merði fyrir hreinskilnina. Fáir aðrir stjórnarliðar hafa talað af slíkri léttúð um alvarlegt mál. Þó honum finnist valdaframsal þjóðarinnar léttvægt finnst mér og mörgum öðrum það gríðarlega alvarlegt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er löngu borleggjandi ætlun stjórnvalda, enda er það fyrst og fremst þess vegna sem trúverðugleiki og traust á stjórnvöldum er innan við 10% . Það alvarlegasta í þessu máli er að þeim er alveg sama, tilgangurinn helgar meðalið að þeirra dómi. Við skulum inn, hvort sem við viljum eða ekki, þau vita betur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.7.2012 kl. 13:12
Já, ég er sammála Ásthildi að það hefur alltaf legið fyrir að ætlunin var fullveldisafsal eða valdaframsal. Ekki allra í stjórnarflokkunum en allra í flokki Marðar og nokkrum í hinum flokkunum. Hitt var blekking og fölsun þeirra að ekki væri um valdaafsal að ræða.
Elle_, 7.7.2012 kl. 17:00
- - - nokkurra í hinum flokkunum.
Elle_, 7.7.2012 kl. 17:01
Líklega eru nú fáir ennþá svo glaseygir að þeir átti sig ekki á því að í gangi er aðlögunarferli.
Dálítið auðsætt að hverju stefnt er þegar síðast er tekið til við þá hluta samningsins sem varða fiskveiðar og landbúnað.
Þá blasir svo vel við að segja að of seint sé að ganga út þegar búið sé að lögfesta og fullnusta alla þætti samningsins aðra.
Og upp á þetta horfum við með opin augu en höfumst ekki að.
Árni Gunnarsson, 7.7.2012 kl. 21:06
Málið er grafalvarlegt. Hvar er nú samstaða þjóðarinnar sem skapaðist og vannst gagnvart Icesave. Þar var ´bara´ um peninga að ræða. En hér er verið að spila með sjálfstæði þjóðarinnar Lýðveldið Island, hvorki meira né minna.
Tek undir það sem Árni Gunnarsson segir;
´Og upp á þetta horfum við með opin augu en höfumst ekki að´.
Björn Emilsson, 8.7.2012 kl. 01:40
Ég tek undir það með ykkur, málið er grafalvarlegt og hefur í raun verið það frá upphafi. Það er ekki skrítið að almenningur taki ekki á, í þessu máli þegar verið er að mata okkur á innleiðingunni með teskeið, þ.e.a.s innleiða einn og einn kafla í einu,og stjórnarandstaðan a.m.k þeir þingmenn sem staðhæfa það við fólkið í landinu að þeir vilji halda þjóðinni fyrir utan ESB gera lítið annað en að samþykkja hvern kaflann á fætur öðrum,fólkið tekur minna eftir því en ef kaflarnir væru samþykktir allir í einu. Það hefur aldrei verið ætlunin að leyfa fólkinu í landinu að ráða hvort við gengjum þarna inn eða ekki. Ég yrði mjög feginn ef einhver væri nú svo góður að safna undirskriftum til forseta um þjóðaratkvæði vegna ESB.
Sandy, 8.7.2012 kl. 08:20
Afstaða samfylkingar hefur alla tíð legið fyrir. Þessi orð Marðar staðsest einungis það sem var vitað.
En út á hvað fjallar þessi samþykkt ESB um losunarheimildir?
Jú það á að SKATTLEGGJA þær. Þar með er það upp talið!
Slíkur skattur mun ekki vinna gegn mengun loftlagsins, einungis færast yfir á þá sem þurfa að nýta afurðir framleiðslufyrirtækjanna. Þessi skattur mun, eins og allir skattar, lenda á þeim sem síst skyldi.
Fyrir okkur Íslendinga munu stóriðjufyrirtækin og útgerðin lenda verst fyrir þessum skatti. Þær tvær greinar sem halda uppi landinu. Skatturinn mun gera þessum atvinnugreinum erfiðara fyrir, til viðbótar öðru því sem á þau er lagt.
Og þessa vitleysu samþykkir Alþingi til þess eins að fullnægja ESB, til þess eins að aðlaga Ísland að sambandinu. Þar breytir engu þó íslenska stjórnarskráin sé þverbrotin!
Að halda að þessi tilskipun, þessi skattur, sé lagður á vegna þess hversu umhugað pappírsdýrunum í Brussel er um umhverfið er fásinna. Hann er einungis lagður á til að afla frekara fé í sísvanga hít ESB!
Gunnar Heiðarsson, 8.7.2012 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.