ESB ætlar að beita Íslandi ofbeldi
4.7.2012 | 11:11
Mann rekur í rogastans við að lesa viðtal Morgunblaðsins við sjávarútvegsstjóra Evrópusambandins, Maria Damanaki. Í því koma fram alvarlegar hótanir sem vissulega geta haft áhrif verði af þeim. Meðal refsiákvæða sem sjávarútvegsstjórinn nefnir eru þessi í þýðingu Morgunblaðsins:
- Takmarkanir á magni innflutts fisks til Evrópusambandsins, þar með talið af stofnum sem snerta sameiginlega hagsmuni og tengdar tegundir.
- Ákvæðin veita svigrúm til frekari aðgerða reynist upphaflegu aðgerðirnar ekki árangursríkar.
- Takmörkun á notkun hafna í ESB fyrir skip sem sigla undir fána landsins eða svæðisins sem talið er stunda ofveiði.
- Takmörkun á notkun hafna í ESB fyrir skip sem flytja fisk og sjávarafurðir úr stofnum sameiginlegra hagsmuna og tengdra tegunda.
Allt þetta gerist vegna þess að makríllinn virðir ekki landhelgi ríkja, flakkar um hafið eins og honum þóknast. Útflutningsverðmæti hans er mikill fyrir þjóðina því aðeins þorskurinn skilar meiri verðmætum af einstökum fisktegundum.
Evrópusambandið hefur skammtað sér 90% af heildaraflanum en bauð Íslendingum 6,5% hlut. Íslendingar hafa ekki samþykkt það heldur áætlað sér hlut upp á um 17%.
Íslendingar eru sakaðir um óábyrgar veiðar en engu að síður hafa skoskar útgerðir verið staðnar að því að landa miklum makrílafla framhjá vikt. Veiðar Evrópusambandsins eru meiri en vísindamenn ráðleggja en þeir skella skollaeyrum við því. Sambandið telur sig þess umkomið að skammta Íslendingum afla í veiðum á þeim fiski sem dvelur langdvölum í íslenskri lögsögu.
Til að standa sig í stykkinu gagnvart ríkisstyrktum útgerðum meðal annars á Bretlandseyjum ætlar Evrópusambandið í krafti stærðar sinnar að skaða Ísland efnahagslega vegna veiða sinna. Eflaust verður ESB í lófa lagið að stöðva að hluta eða öllu leyti innflutning íslenskra sjávarafurða og valda okkur miklu tekjutapi. Það sýnir þó aðeins hvernig ESB starfar og hversu lítið við megum okkur gagnvart kommisaraveldinu, skiptir litlu hvort við stöndum innan eða utan sambandsins, aflsmunur á að ráða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.