Hvenær eru fjallamenn tjóðraðir?

Alparnir

Í fjölmiðlum er áberandi að sumarfríin eru byrjuð og nýliðarnir teknir við. Þetta datt mér fyrst í hug er ég las frétt á visir.is um fjallgöngumennina sem létust er þeir hröpuðu í svissnesku ölpunum. Í fréttinni segir að þeir hafi verið „tjóðraðir saman“.

Er þetta orðalag ekki dálítið heimskulegt ef það á að lýsa því að menn hafi gengið hver á eftir öðrum og haft á milli sín langa línu til öryggis?

Og af hverju er ég að pirra mig út af þessu? Einu sinni var ég byrjandi í blaðamennsku og gerði örugglega fjöldann allan af málfarsvillum í þeim fréttum er ég skrifaði. Ég man þó eftir því að á Vísi í gamla daga voru allar fréttir lesnar yfir. Stundum var að verki Elías Snæland Jónsson, sem þá var ritstjórnarfulltrúi. Oft kallaði hann á mig inn til sín og leiðbeindi mér. Sérstaklega hef ég haldið í heiðri þá aðferð er hann og fleiri héldu að mér að byrja fréttir vel.

Tjóður DSCN6059

Fréttin á vísi.is er vond. Blaðamaðurinn þarf að lesa bækur, margar, margar. Þannig verður til orðaforði og skilningur á tungumálinu. Minnir að það hafi verið Matthías Johannesen sem sagði einhvern tímann að sá sem ætlaði sér að skrifa góðan texta þyrfti árlega að lesa Sturlungu.

Sturla Þórðarson hefði líkast til aldrei byrjað setningu á „þá“:

Þá er talið að mennirnir hafi verið tjóðraðir saman þegar slysið átti sér stað.

Svo geta lesendur skemmt sér við að fletta upp á sögninni „tjóðra“. Ég er þess fullviss að hún á síst af öllu við um öryggislínu milli fjallgöngumanna. Eða skyldu göngumennirnir á meðfylgjandi mynd vera „tjóðraðir“?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband