Fasismi til stuðnings lýðræðinu?
18.6.2012 | 09:42
Framkvæmdavaldið telur sig mega stjórna löggjafarvaldinu. Þó virðist sem að forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hafi aðrar skoðanir á því og telji þingið einfaldlega óháð ríkisstjórninni, stjórnarliðum til mikillar undrunar.
Vandinn er sá að ríkisstjórnin og margir stuðningsmenn hennar bera sáralitla virðingu fyrir þessari elstu stofnun þjóðarinnar. Halda því blákalt fram að hún sé einhvers konar afgreiðslustofnun fyrir meirihlutann. Um það þurfi ekki að ræða neitt frekar, hvorki að hálfi meirihluta né minnihluta. Þessu fólki er tíðrætt um málþóf og skemmdarverk á starfi ríkisstjórnarinnar. En er það svo?
Hvað gerir sá þingmaður sem er á móti tilteknum málum? Jú, hann greiðir atkvæði og leikar geta farið svo að hann verði í minnihluta. Þannig er það og það er hið lýðræðislega form á þinginu. Þar með er ekki öll sagan sögð. Mál hafa mismikla þýðingu fyrir þjóðfélagið og sum skipta lýðræðið stundum meira máli önnur. Afgreiðsla breytinga á stjórnarskrá er önnur en almennra frumvarpa. Sum frumvörp ber ríkisstjórn að leggja fram, t.d. frumvarp til fjárlaga.
Það segir síðan sjálft að þingmenn taka með misjöfnum hætti á þingmálum. Sannfæring manna skiptir hér miklu máli. Þegar réttlætiskennd þingsmanna er ofboðið hljóta þeir að standa upp og vilja ræða málin. Við því er ekkert að gera. Veiðileyfagjaldið er umdeilt og varla nema eðlilegt að menn vilji ræða það út í hörgul enda mun það hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar á atvinnulíf víðast hvar um landið, breytingar á útgerð og jafnvel gjaldþrot. Um leið verða miklar breytingar, tímabundið eða langvarandi atvinnuleysi á fjölmörgum stöðum meðan jafnvægi er að komast aftur á. Við þetta er ekki búandi og þess vegna er ástæða til að ræða veiðileyfagjaldið út í hörgul.
En svo sannfærðir eru stjórnarliðar um ágæti málsins að þeir telja sig ekki þurfa að ræða það jafnvel þó svo að þeir hafi ekki séð það fyrr en um sumarbyrjun. Mikið má vera hið barnslega traust þeirra gagnvart ríkisstjórninni. Og nú er svo komið að stjórnarliðar sem ekki nenna að vinna vinnuna sína lengur vilja skrúfa fyrir umræður um veiðileyfagjaldið á Alþingi af því að þær eru svo óþægilegar. Sumir hafa þegar komið sér í frí til útlanda og sett inn varamenn í sinn stað.
Svo mikill er Tungufossinn í rökfærslu sinni að nú telst fasismi vera til stuðnings lýðræðinu.
Vill ekki þingfundi í júlí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.