Dauðar lóur á jöklinum við Goðahnúka
13.6.2012 | 14:14
Fyrir nákvæmlega tuttugu árum fórum við fjórir félagar á gönguskíðum yfir Vatnajökul frá Goðahnúkum í Öræfajökul.
Eitt af því minnisstæðasta úr ferðinni var er við vorum að ástæðulausu veðurtepptir í Goðanúkum, en þeir eru tindar austast á jöklinum. Eftir að hafa dvalið í tvær eða þrjár nætur í skála Jöklarannsóknarfélagsins þarna uppi komust við að því að veðrið var þar miklu verra en um tvö hundruð metrum neðar. Þá lögðum við af stað úr storminum á hnúkunum og niður á rokið á jöklinum, en það er nú önnur saga og alveg einstaklega skemmtileg eins og allar mínar ferðasögur - eða þannig.
Hitt er mér ekki síður minnisstætt er við gengum dagstund er birti til út á jökulinn og sáum tugi ef ekki hundruðir lóa sem höfðu í þokunni rekist á jökulinn og rotast. Þær hafa án efa ekki séð mun á þoku og jökli og því fór sem fór.
Lóurnar lágu þarna hálfdauðar margar hverjar, sumar klakabrynjaðar og blóðugar. Auðvitað fannst manni þetta hræðilegt en það var ekkert sem við gátum gert. Svo var það mörgum árum síðar er ég sagði einhverjum frá þessu. Sá hváði við og spurði hvers vegna við hefðum ekki étið lóurnar, steikt á pönnu. Skildi ekkert í heimsku okkar.
Þetta hafði okkur ekki hugkvæmst þó aðrar þjóðir leggi vorn háheilaga þjóðarfugl til munns.
Lóan er komin ..., dýrðin-dýrðin, dirrindí og allt þetta. Að hugsa sér að éta lóuna, það væri bara eins og að leggja sér Snata sér til munns eða Skjóna ...
Úps, ... gleymdi því sem snöggvast að við borðum hrossakjöt meðgóðri lyst. En lóan er friðhelg ... að minnst kosti hér á landi og þjóðarfugl.
Efsta myndin er af lóulíki (má ekki orða það svo?).
Sú næsta er af þremur félögum mínum en bak við þá er einhver ólöguleg hrúga. Inni í henni er skáli Jöklarannsóknarfélagsins.
Þriðja myndin er tekin þegar við erum að búa okkur til brottfarar. Þá er skafrenningur. Þarna sést inngangurinn inn í skálann. Tók okkur dágóð stund að finna hann og grafa okkur inn.
Fjórða myndin er tekin nokkru síðar, þá erum við komnir niður úr Goðahnúkum og út á jökulinn. Þar var dálítil gjóla en dásemdar veður og við stoppuðum til að fækka fötum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.