Tifandi tímasprengjan ...
13.6.2012 | 09:30
Er nema von að Gunnar hafi ekki fagnað þegar elsta dóttirin tilkynnti að hún ætlaði að byggja upp eigið fyrirtæki strax að loknu prófi í rafmagnsverkfræði? Í huga Gunnars er slíkt fjárhagslegt glapræði. Hann benti dóttur sinni á að öll skynsamleg rök stæðu til þess að fá góða vinnu hjá hinu opinbera. Fá þokkaleg laun og lífeyrisréttindi með ábyrgð launagreiðenda.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar sláandi grein í Morgunblaðið í morgun. Í henni segir hann dæmisögu af tveimur mönnum sem ólíkt hafast að.
Annar byggir upp fyrirtæki og á í sögulok með eiginkonu sinni eignir upp á 200 milljónir króna. Fyrir vikið þurfa þau að greiða árlega 1,5 milljónir króna í auðlegðarskatt og vegna þess hafa lífeyrisréttindi hans verið skert.
Gunnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi hreinlega ekki efni á því að njóta ævistarfsins á komandi árum, enda treystir hann því ekki að auðlegðarskatturinn sé tímabundinn, eins og lofað hefur verið, eða að fjármagnstekjuskatturinn lækki og miðist við raunávöxtun fjármuna.
Ekki nema von að maðurinn hafi fengið áfall þegar dóttirin tilkynnti að hún ætlaði að fara út í eigin rekstur.
Hinn starfar hjá ríkinu og á eignir í sögulok upp á 100 milljónir króna og 200 milljóna króna lífeyrisréttindir, sem auðvitað eru undanþegin auðlegðarskatti og hann þarf ekki að sætta sig við skert lífeyrisréttindi enda eru þau á ábyrgð ríkissjóðs. Hann getur því sest í helgan stein um sextugt.
Niðurstaða Óla Björns Kárasonar er því þessi:
Ekki reyna að standa á eigin fótum. Slíkt sýnir lítil hyggindi. Veljið fremur öryggið hjá Stóra-Bróður.
Þessu til viðbótar má nefna lífeyisskuldbindar ríkissjóðs sem eru 400 milljarðar og eftir 2020 verður hann að greiða tugi milljarða á ári til að standa við skuldbindingar sínar. Þetta segir Óli Björn réttilega að sé tifandi tímasprengja. Og ekkert er gert í málinu ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.