Skiptimynt fyrir stjórnarsetu
12.6.2012 | 09:01
Ég sat á þingi fyrir sjávarútvegsbyggðirnar á Norð-Austurlandi og síðar á Austfjörðum frá 1971 til 2007, fyrst sem varaþingmaður en síðan kjörinn þingmaður. Allan þennan tíma lagði ég upp úr því að heimsækja byggðarlögin og hlusta á það sem þar var sagt um atvinnuhorfur og afkomu fyrirtækjanna á staðnum. Og það virtist mér Steingrímur J. Sigfússon gera líka. En nú er ég orðinn gamall og það eru breyttir tímar. Afkoma sjávarútvegsins er orðin að skiptimynt til að sitja út kjörtímabilið og Steingrímur J. Sigfússon hefur keypt sér eyrnaskjól. Jóhanna Sigurðardóttir þurfti ekki að gera það, hún hefur alltaf átt þau. Og þeir sem búa í sjávarútvegsbyggðunum á Norður- og Austurlandi eiga sér engan þingmann í stjórnarliðinu, sem á þá hlustar. Þá er aðeins að finna í röðum stjórnarandstæðinga, í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
Svo skrifar sá mæti maður Halldór Blöndal, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Gagnrýni hans virðist hógvær en á milli línanna er hörð gagnrýni á starfshætti ríkisstjórnarinnar sem hlustar ekki á byggðarlögin, skiptir sér ekki af atvinnuhorfum, lítur ekki til afkomu fyrirtækjanna og formenn stjórnarflokkanna líta undan og gæta þess að svara ekki gagnrýni. Og sjávarútvegurinn er orðinn svo ómerkilegur að hennar mati að hann er aðeins skiptimynt til að ná því að sitja út kjörtímabilið.
Halldór Blöndal fer engu að síður með staðlausa stafi þegar hann segist gamall. Hann er ekki hótinu eldri en þegar hann sat á þingi, skiptir engu þó árin færast yfir. Skynsemi og rökvísi er ekki bundin aldur, þó mikil reynsla sé gulls ígildi. Hollt er að hlusta á þann mann sem nú er kominn á hliðarlínuna og tjáir sig um samtímann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.