Flett ofan af Fimm-bókunum

Slæmt er að fá það á tilfinninguna að hafa verið svikinn í æsku. Einn af uppáhaldsrithöfundunum mínum í kringum átta ára aldurinn og næstu árin var Enid Blyton.

Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu, segir frá því í pistli á miðopnu Morgunblaðsins „að sjötíu ár eru nú liðin frá því að Blyton sendi frá sér fyrstu söguna um systkinin Júlla, Önnu og Jonna og ævintýri þeirra með frænku sinni Georgínu, sem vill láta kalla sig Georg, og Tomma hundinum hennar“.

Þetta eru sem sagt svokallaðar Fimm-bækur sem nutu gríðarlegra vinsælda hér á landi í íslenskri þýðingu Kristmundar Bjarnasonar. Þau fimm lentu í hverri bók í æsandi ævintýrum en jafnan fór allt vel að lokum þótt stundum hafi sko ískyggilega tæpt staðið.

Svo kemur Árni Matthíasson með eftirfarandi í pistli sínum, að vísu innan sviga, og þá var mér eiginlega öllum lokið:

(Það segir sitt um sögurnar að krakkarnir í Fimm-bókunum eru alltaf jafn gamlir, en ef maður telur skólafríin þá eru þau öll komin á þrítugsaldurinn þegar komið er að tuttugustu og annarri bókinni, Fimm hittast á ný)

Aldrei gerði ég mér grein fyrir þessu en las hverja bók margsinnis og naut spennunnar, hnyttinna tilsvara, óttaðist glæpamennina og hló að páfagauknum Kíki og tilsvörum hans. Þessi fimm fannst mér alltaf á mínum aldri.

En nú hefur Árni eyðilagt þessar bernskuminningar fyrir mér og næst á dagskránni er líklega að leita að sálfræðingi sem komið getur í veg fyrir að þessar upplýsingar hafi skaðleg áhrif á mína miðaldra sál. Ég trúði öllu sem skrifað stóð í þessum bókum en nú kemur í ljós að ég var svikinn ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband