Örþjóðin þarf að halda vöku sinni
1.6.2012 | 10:00
Hefur þú efni á krónunni? spyr Jón Steindór Valdimarsson, formaður samtakanna sem berjast fyrir því að Ísland gangi í Evrópussambandið.
Hann ritar grein í Morgunblaðið í morgun og í heinni leikur hann á þá strengi tilfinninga sem Íslendingar eru eflaust viðkvæmastir fyrir um þessar mundir og það eru íbúðakaup og afborganir af lánum vegna þeirra. Hann fullyrðir að herkostnaðurinn vegna krónunnar kosti íslensk heimili 16 milljónum krónum meira en hafi lánið verið tekið í evrum.
Ég ætla ekki að deila við manninn um staðreyndir verðtryggingarinnar sem hafa farið illa með heimilin né heldur ætla ég að deila við hann um krónuna þó ég sé staðfastur stuðningsmaður hennar meðan kostnaðurinn við að taka upp Evruna er sá að þurfa að ganga inn í ESB. Hitt vil ég frekar ræða og það er sú vanmáttakennd sem birtist í málflutningi Já-manna vegna þess að við berjumst fyrir því að vera sjálfstæð þjóð.
Við erum örþjóð og eflaust undrast það margir og jafnvel finnst það broslegt að rúmlega þrjú hundruð þúsund manns skuli telja sig hólpna utan ESB. Staðreyndirnar tala þó sínu máli:
- Eigið land
- Eigið tungumál
- Lýðræðislega kosið þing
- Þingbundin ríkisstjórn
- Seðlabanki
- Sérstakur gjaldmiðill
- og fleira.
Séu rök já-sinna skoðuð er auðvitað tóm vitleysa að búa hér ein á þessu skeri, nota íslensku þegar við getum svo auðveldlega teki upp ensku eða frönsku, þingið gæti vissulega haldið áfram sem hverfisstjórn innan ESB, Seðlabankinn er óþarfur og gjaldmiðillinn líka.
Barátta forferðra okkar fyrir sjálfstæði, fyrir tungumálinu og réttinum yfir landi okkar var löng og ströng. Við skulum skoða vandlega hvert einasta skref, allt sem telja má afsal þeirri réttinda sem þjóðin hefur notið hingað til.
Gætum að því, að fámennið gerir okkur svo óskaplega erfitt fyrir og uppgjöf á einu sviði getur haft hrikalega afleiðingar á öðrum. Við þurfum að halda vöku okkar annars er sjálfstæðið tapað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.