Stórkostleg fjallasýn af Tindstaðafjalli

Tindsta#B4D3EÁ annan í hvítasunnu gekk ég inn Blikdal og á tilkomumikið fjall sem ég hef eiginlega aldrei verið viss um hvað heitir. Blikdalsmegin heitir það Selfjall, en að norðan, Miðdalsmegin, heitir það Tindstaðafjall. Svo kemur fyrir örnefnið Dýjardalstindur. Hef gúgglað þessi nöfn og fleiri en ég rugla með þau. Hins vegar held ég að meðfylgjandi mynd sýni rétta staðsetningu Dýjardalstind en svo vantar rétta nafnið á fjallið. Hins vegar er síður en svo óþekkt að fjall heiti tveimur nöfnum.

DSC_0140 Lág Esja

Hér verður að taka það fram að fjallið er nær órjúfanlega tengt Esju eins og kunnugir vita. Góð og nokkuð vinsæl gönguleið er til dæmis hringinn í kringum Blikdal og er það komið niður Lág-Esju, um 9-10 klst. gangur.

Gönguleiðin er ágæt norðanmegin á fjallinu, þar eru brattar hlíðar, vel manngengar, en aungvir hamrar.

DSC_0149 D#B07C8

Á efstu myndinni sést leiðin sem ég fór. Hún er vissulega ekki hefðbundin en það leyfist vissulega í gönguferðum. Bratt var upp gilið sem ég fór, en flott útsýni og auðvitað best þegar upp var komið.

Setti inn til gamans myndina af höfuðborgarsvæðin sem greina má ofan við Lág-Esju, á fjallinu heita Smáþúfur.

Nú, ég freistast til þess að birta hér fleiri myndir. Veðrið var alveg stórkostlegt og einstaklega gaman að taka myndir.

Þriðja myndin er í vestur og sér yfir Hvalfjörð og til Akrafjalls. Raunar sást allt til Snæfellsjökls en hann rennur saman við hvíta birtuna á þessari mynd.

Hamrarnir eru stórkostlegir á þessum slóðum og þó græni sumarliturinn sé enn ekki kominn á landið er þó mikið vor í lofti og múkkinn leikur sér í björgunum og væntir sín.

DSC_0169, Með texta2

En þetta var nú ekki tilefni pistilsins heldur útsýnið til norðurs þegar upp var komið.

Tilefnið var þessi mynd, hið stórkostlega útsýni inn í landið. Ég hef bætt inn á myndina nokkrum örnefnum. Vonandi hef ég varið rétt með en lesendur leiðrétta mig bara ef svo er ekki.

Blikdalur

Þarna sjást stórkostleg fjöll og jöklar. Okið, Langjökull, Hvalfell, Botnsúlur, Skriðan og jafnvel sér til Kerlingafjalla ef mér skjátlast ekki.

Endorfínið er enn í æðum mínum og ég trúi því að fleiri hafi gaman af því og þá er tilganginum náð.

Ég byjaði pistilinn á örnefnum og spurði um rétt nafn á fjallinu. Tindstaðir er bær í Miðdal, norðan við fjallið. Dýjadalur hlýtur að vera dalurinn fyrir norðan fjallið, kannski fyrir ofan Kerlingagil.

Melseljadalur heitir þar nokkru fyrir neðan, held ég. Þar er komið tilvísun í Seljafjallið, en hvort hún dugar veit ég ekki.

Dalurinn milli Tindstaðafjall og Lág-Esju heitir Blikdalur en fleiri en ég hafa kallað hann Blikadal sem líklega er rangt.

Ráðlegt er að tvísmella á myndir til að stækka þær, þá er hægt að njóta þeirra betur. Sama á við um kortið en það tók ég ófrjálsri hendi frá ja.is en höfundarréttinn á Samsýn ehf., frábært fyrirtæki.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband