Villikattarþvottur og villigötur VG
29.5.2012 | 14:28
Björn Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er oft meinhæðinn. Í dagbókarpistli á heimasiðu sinni í gær segir hann:
Í valdatíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur tvisvar verið boðað til leiðtogafunda NATO. Jóhanna hefur sótt þá báða með stuðningi stjórnarflokkanna. Á hinum fyrri var samþykkt ný varnarstefna fyrir NATO. Á hinum síðari var ákveðið að virkja eldflaugavarnarkerfi NATO sem verið hefur á döfinni í um 30 ár.
Skömmu áður en Jóhanna hélt til Chicago komu vinstri-grænir saman á einhverjum fundi og ályktuðu gegn aðild Íslands að NATO. Ályktunin var villikattarþvottur. Þeir eiga hins vegar fjóra ráðherra í ríkisstjórn Íslands og formann utanríkismálanefndar alþingis. Hann lætur eins og hann ætli að kalla Jóhönnu á teppið eftir NATO fundi. Það er álíka mikið í nösunum á honum eins og hann segist andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Andstaða vinstri-grænna við NATO-aðildina er einfaldlega hlægileg þegar litið er til þess sem þeir hafa samþykkt sem stjórnarflokkur. [...]
Allt gerist þetta meira eða minna í kyrrþey af því að stjórnarflokkunum og spunaliðum þeirra innan og utan stjórnarráðsins finnst óþægilegt að rætt sé um málið. Þeir vilja hafa það á sama gráa svæðinu og ESB-viðræðurnar og geta hagað málflutningi eins og þeim hentar hvað sem líður sannleikanum.
Þessi orð minntu mig á orð annars manns sem líka er fyrrum alþingismaður og ráðherra. Ragnar Arnalds heldur úti mjög snörpu bloggi gegn aðild Íslands að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB. Þar kemur eftirfarandi fram í dag:
... mjög mikið af fólki í þessum flokkum [VG og Samfylkingu] sem vill áframhaldandi samstarf. Unga fólkið okkar vill áframhaldandi samstarf og vinnur mjög vel saman á þingi og í sveitarstjórnum og víðar, sagði Steingrímur J. Sigfússon formaður VG m.a. í löngu og gagnmerku viðtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi Bylgjunnar nú á hvítasunnumorgni. Hann viðurkennir að ESB umsóknin hafi leikið flokkinn grátt, sé andstæð því sem hann sjálfur lýsti yfir fyrir kosningar en færir samt rök fyrir að halda henni til streitu.
Það leynir sér ekki í pistlunum á Vinstrivaktinni að höfundur er orðinn langþreyttur á þeim skemmdarverkum sem forysta VG hefur unnið á flokknum. Flokkurinn er rúinn öllu trausti og mikill kosningasigur er að glutrast niður í ekki neitt. Ragnar sér í lokin:
Vorið 2009 gekk VG bundið til kosninga með loforði um að vinna með Samfylkingunni þar sem flokkurinn lýsti því yfir að hann færi ekki í samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Engin sambærileg yfirlýsing barst frá mótaðilanum í trúlofun þessari, hinum meinta vinstri flokki Samfylkingu.
Afleiðingin var sú að eftir kosningar var Samfylkingin í þeirri óskastöðu að deila og drottna en samningsstaða VG var lakari þrátt fyrir gríðarlegan kosningasigur. Nú í aðdraganda kosninga 2013 endurtekur sagan sig. Formaður og varaformaður VG biðla til Samfylkingarinnar en hvar eru undirtektirnar? Enn sem komið er hefur enginn Samfylkingarmaður tekið undir. Það er samt ekki eins og orð VG um áframhaldandi samstarf hafi komið frá ómarktækum smámennum þess flokks. Hér eru á ferðinni formaður og varaformaður.
Getur verið að VG sé hér á villigötum og eigi eins og lengstum hefur þótt farsælast í pólitík að ganga óbundið til næstu kosninga?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.