Jarðskjálftar í tveimur skriðjöklum á ólíkum tímum
15.5.2012 | 14:05
Kortið er frá Veðurstofu Íslands og sýnir jarðskjálfta í Mýrdalsjökli frá sjöunda til þrettánda maí. Þar er sáralítið að gerast eins og þeir vita sem fylgst hafa með.
Ég hef áður nefnt þessa jarðskjálfta sem eiga upptök sín í norðanverðum Tungnakvíslajökli. Á kortið hef ég dregið ramma utan um punktana á þeim slóiðum. Þar sem ég veit ekkert og kann varla neitt annað en að spyrja spurninga sem enginn svarar vil ég enn og aftur vekja athygli á þessu.
Þarna hafa verið viðvarandi skjálftar síðan menn föttuðu að líf gæti leyst í Kötlu og þá sérstaklega eftir að Eyjafjallajökull gaus. Ekki veit ég hvers konar skjálftar þetta eru, hvort þarna mælist eingöngu íshrun eða hvort tveggja, íshrun og hreyfingar undir ísnum.
Myndin sem hér fylgir með er tekin af Fimmvörðuhálsi og að upptökum Tungnakvíslajökuls, að vísu með miklu aðdrætti. Hana tók ég í september síðasta haust. Hann fellur þarna nokkuð bratt niður í Tungur og maður getur svo sem sagt sér að þegar hann skríður verði miklar hamfarir sem mælst geta á jarðskjálftamælum.
Þetta er svo sem eins og í aðdragandanum að gosinu í Eyjafjallajökli þegar miklir jarðskjálftar mældust í upptökum Steinsholtsjökuls. Þá vorum við margir leikmenn og kjánar í jarðfræði þess fullvissir að þar myndi gjósa. Auðvitað höfðum við rangt fyrir okkur.
Til gamans er hér jarðskjálftakort frá því 6. apríl 2010 og á því hafa punktarnir hlaðist upp við Steinsholtsjökuls. Stöðug aukning jarðskjálftavirkni og aðeins átta dagar í gos.
Allt hefur þetta einhver þýðingu sem gaman væri að fá túlkaða fyrir leikmenn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.