Hnúkurinn er ekki þrjár Esjur ...

DSCN5932

Ferðir á jökla eru ekki hættulegar sé leiðsögn góð og farið með gát. Mér sýnist að leiðsögumaðurinn hafi gert allt rétt. GPS tækið reyndist bilað og hann beið, líklega eftir að þoku eða snjókomu létti og hann sæi leiðina niður. Um síðir fann hann leiðina og allir komust klakklaust til baka.

Svona geta málin þróast, sem betur fer. Sá sem ætlar á fjöll, svo ekki sé talað um jökla, verður að gera sér grein fyrir því að aðstæður geta breyst. Öræfajökull getur verið erfiður og á Hvannadalshnúk er ekki hlaupið.

Flestir halda að gönguferð á Hnúkinn sé gríðarleg skemmtiferð í sól og blíðu, þannig eru alla vega margar frásögur af ferðum þangað. Sem betur fer.

DSCN6094

Ég hef oft farið á Öræfajökul og man eftir því að hafa tvisvar þurft að snúa við vegna veðurs. Í fyrra skiptið var komin snælduvitlaus hríð þegar við vorum komin upp í um 1200 m hæð, rétt nýkomin á jökul. Þá var eiginlega ekkert um annað að ræða en að snúa við.

Í lok maí 2006 fór ég fyrir vinum og kunningjum upp, rétt eins og leiðsögumaðurinn, sem frá er sagt í fréttinni. Frábært veður var þangað til við komum upp á sléttu. Þá fór að snjóa og samstundist týndist okkur Hnúkurinn.

Við vorum með GPS tæki og þar að auki var ég með áttavita og hæðarmæli. Tækin brugðust okkur, batteríin tæmdust, og þá var ekkert annað að gera en að snúa við. Þá vorum við komin líklega hálfa leið að Hnúknum og orðið dálítið hvasst.

DSCN6095

Ekki mátti seinna vera, förin okkar voru að hverfa í snjókomunni en við komust niður án nokkurra vandræða.

Viku síðar fór ég aftur upp. Þá voru hundruðir manna í fjallinu og frábært veður. Þá var eiginlega stórhættulegt að ganga á Hnúkinn. Þar var hver leiðangurinn á fætur öðrum, hver hópur bundinn saman, allir með ísexi í höndum og brodda á fótum en greinilegt var að margir kunnu ekkert á þessi stórhættulegu tæki. Skyndilega varð ég vitni að því að efsti maðurinn í einum hópnum datt og rann niður á næsta mann og svo koll á kolli. Allt gerðist þetta svo snögglega að engin gat beitt fyrir sig exi eða broddum eða þá að menn kunnu það ekki. einhverjir slepptu öxunum sem hefðu getað stórslasað fólk því þær eru festar við úlnliðinn. Broddarnir snéru niður og stefndu á næsta mann. Þarna hrundu niður tveir hópar, en sem betur fer meiddist enginn.

Þó gönguferðir á Hvannadalshnúk séu vinsælar þá ættu menn að hafa það hugfast að það er langt í frá að það sé eins og að fara þrisvar sinnum upp á Esju eins og vinsælt er að segja. Þá gleymist ótrygg veðráttan, sprungur, kafsnjór, skari og ekki síst breytingar á snjónum eftir því sem líður á daginn.

Efsta myndin er tekin úr seinni „hrakningarferðinni“ á Hnúkinn: þa eru menn í þoku og bundnir saman eins og vera ber. þegar þarna var komið sögu snérum við til baka.

DSCN6111

Næsta mynd er tekin viku síðar. Öngþveiti er í uppgöngunni á hnúkinn, að minnsta kosti þrír hópar eru að reyna að troða sér upp (eða niður).

Þriðja myndin er tekin í uppgöngunni sjálfri. Þrír göngumenn í brattri hlíðinni.

Fjórða myndin er tekin þegar ég var kominn niður, enn var fólk í hlíðinni ýmist á göngu upp eða niður.


mbl.is Sátu föst í þrjár klukkustundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband