Lögmönnum þykir nóg komið
9.5.2012 | 09:20
Einn hæstaréttardómara ku vera skyldur Davíð Oddsyni, fyrrum forsætisráðherra, og illar tungur herma að hann hafi fengið starfið vegna frændseminnar. Maðurinn, Ólafur Börkur Þorvaldsson, er engu að síður sagður dugandi dómari, með mikla reynslu úr héraði og svona fræðilega séð hefur aldrei nokkur lögmaður sett neitt út á dóma hans eða framgöngu.
Illu tungurnar eru hins vegar samar við sig og halda áfram að gera lítið úr manninum. Mætir lögmenn hafa mótmælt þessu og lýst yfir því að nóg sé komið, gagnrýnendur skyldu líta á gjörðir mannsins ekki ættartengsl.
Sú umfjöllun tekur seint enda og birtist fyrir skömmu niðrandi umfjöllun um hæfni Ólafs Barkar í glansritinu Mannlífi. Umfjöllun þessi er óréttmæt og byggist ekki á málefnalegum forsendum. Álitsgjafarnir finna ekkert að störfum Ólafs Barkar, enda hefur Ólafur Börkur sinnt starfi sínu vel í Hæstarétti.
Hæfni Ólafs Barkar verður ekki dregin í efa. Hann hefur lagt sig fram í störfum sínum og unnið verk sín af stakri prýði. Um það eru allir sem til þekkja sammála. Þeir sem telja sig eiga sökótt við frænda hans ættu að láta við það að sitja að beina spjótum sínum að honum. Það er löngu kominn tími til að þeir láti af lítilmannlegum árásum á Ólaf Börk og starfsheiður hans.
Svona fallega rita nokkrir lögmenn í grein í Morgunblaðinu í morgun. Það verður þó að segjast sem er að kalsinn sem Ólafur eða aðrir finna lítillega fyrir í þjófélaginu í hans garð er ósköp eðlilegur. Minnipokamenn ráðast aldrei málefnalega á einn eða neinn, eru ekki vel að sér, ekki upplýstir eða áhugasamir um staðreyndir mála. Þess vegna verða menn eins og Ólafur að brynja sig fyrir hnútukasti eða einfaldlega leiða það hjá sér.
Þó það skipti ekki máli, get ég ekki orða bundist um orðalag í greininni: Þeir sem telja sig eiga sökótt við frænda hans ættu að láta við það að sitja að beina spjótum sínum að honum. Ferlega er þetta nú mikið hnoð svo ekki sé meira sagt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.