Vandræði við Vífilsfell vegna lokanna
9.5.2012 | 00:56
Vel er gert fyrir þá sem vilja ganga á Þverfellshorn í Esju. Þar eru stór bílastæði og göngustígnum hefur dálítið verið viðhaldið, sérstaklega neðst. Þannig er það ekki alls staðar á höfuðborgarsvæðinu. Allir sem vilja ganga á Hengil vita hversu erfitt er að komast að Sleggjubeinaskarði þar sem margir vilja hefja gönguna, Orkuveitan tefur ferðalanga þar.
Vífilsfell er eitt af stórkostlegustu fjöllum sem ég þekki og kynnst hef ég þeim mörgum. Oftast var farið að norðausturhorni fjallsins og til þess var ekið veginn inn í Jósefsdal og lagt á litlu moldarbílastæði rétt við hornið. Vegurinn er nú orðinn ónýtur nema fyrir fjórhjóladrifsbíla og í þokkabót stendur á skilti við æfingasvæði mótorhjólamanna við Bolöldu vegurinn inn í Jósefsdal sé lokaður vegna bleytu. Stundum er það rétt, stundum ekki, veltur á tíðarfari. Gönguleiðina á fjallið hef ég merkt inn á ljósmyndina hér fyrir neðan.
Um daginn gat ég ekið inn í malarnámuna norðan við Vífilsfell og komist að norðausturuppgöngunni, raunar aðeins vestan við hefðbundinn stað, en komst inn á gönguleiðina eftir nokkurra mínútna göngu. Þessari leið hefur nú verið loka með stóreflis björgum og keðjum.
Oft fer ég aðra leið á fjallið og ek þá veginn inn í Bláfjöll og beygi síðan inn að gamalli malarnámu, legg þar bílnum og geng rétt rúman kílómetra að fjallinu, upp gil og síðan á tindinn.
Báðar þessar leiðir eru skemmtilegar og fínar og til nánari skýringar er meðfylgjandi kort.
Hér fyrir neðan er ljósmynd sem er tekin frá gönguleiðinni í fjallinu og horft niður á láglendið. Rauða óslitna línan hægra megin á myndinni merkir veginn inn í Jósefsdal og að bílastæðinu - sem var við uppgönguna. Vegurinn er ófær venjulegum bílum eins og áður sagði. Punktalínan sýnir gönguleiðina, annars vegar frá þessu gamla bílastæði og hins vegar frá malarnáminu norðan við fjallið. Báðar eru lokaðar eins og ég nefndi.
Hins vegar skil ég ekki hvers vegna ekki er álíka gott bílastæði gert við Vífilsfell og er við Esjurætur. Hvers vegna finnur enginn hjá sér hvöt til að laga göngustíginn upp norðausturhornið, upp á hásléttuna. Vífilsfell er í lögsagnarumdæmi Kópavogs og því liggur beinast við að hin ágæta bæjarstjórn þar samþykki nú að láta laga veginn að fjallinu, búa til gott bílastæði og gera eitthvað fyrir gönguleiðina.
Þriðja myndin er af malarnáminu norðan við fjallið en það er nú lokað öllum almenningi. Ferhyrningurinn er settur þar sem hægt að gera mjög gott bílastæði, raunar miklu betra en það sem er nær Jósefsdal.
Fjórða myndin er tekin í áðurnefndu gili sunnan við Vífilsfell, en þar er prýðileg uppganga, að vísu dálítið brött, en engu að síður auðveld.
Núna, meðan snjór er í gilinu, er gangan miklu léttari, en þegar hann hefur tekið upp koma í ljós klettar og krókaleiðir þarna sem tefja dálítið för.
Munum eftir að tvísmella á myndirnar til að stækka þær.
Svo þarf að taka á utanvegaakstri mótorhjólamanna á þessum slóðum, kem að því síðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.