Ríkisstjórn og fjármálafyrirtæki gegn Hæstarétti

Er ekki mikilvægara að Alþingi einhendi sér í að stöðva innheimtu ólögmætra lána, í stað þess að þrasa út í eitt um nöfn á ráðuneytum?

Þetta segir Eygól Harðardóttir, alþingismaður, í pistli á Eyjunni. Undir það taka flestir en ekki ríkisstjórnin eða þingmeirihluti hennar, VG, Samfylkingin og Hreyfingin. 

Fyrir rúmu ári dæmdi Hæstiréttur að gengistryggt húsnæðislán hjóna í Frjálsa fjárfestingarbankanum væri ólöglegt. Ári síðar, í febrúar á þessu ári, unnu sömu hjón annað mál fyrir Hæstarétti og var samkvæmt honum ólögmætt að reikna Seðlabankavexti á lánið aftur í tímann.

Munum að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið ærðust og misstu stjórn á rökhugsun sinni haustið 2010 eftir að Hæstiréttur hafði dæmt gengislánin ólögleg. Til að redda fjármálafyrirtækjunum ákváðu SÍ og FE að í stað ólöglegra gengistrygginga skyldu öll lán bera ákveðna vexti.

Þetta héldu stofnanirnar fram að væri gert vegna þess að Hæstirétti hefði láðst að segja til um hvað ætti að koma í stað gegnistrygginarinnar.

Hæstiréttur gleymdi hins vegar engu og ítrekaði, eins og áður sagði, á þessu ári að gengistrygging væri ólögleg og ekkert ætti að koma í stað hennar. Punktur.

Drómi nefnist félag sem tók yfir lán Spron og Frjálsa fjárfestingarbankans þegar þessi fyrirtæki fóru á hausinn. Ragnar Hall er lögmaður áðunefndra hjóna og hann hefur frá því að dómur gekk reynt að fá Dróma til að fara að lögum og dómi Hæstaréttar um gengislánin, en ekkert gengið.

Staðan er nú þannig að fjármálafyrirtæki landsins hafa ekkert gert og ganga þannig gegn dómi Hæstaréttar, koma sér hjá því að standa í skilum við lántaka. Sama hafði gerst með Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið. Þessar stofnanir gengu gegn dómi Hæstaréttar og sömdu sína eigin niðurstöðu á honum í hræðslubandalagi við fjármálafyrirtæki landsins. Og það var gert með fulltingi ríkisstjórnar Íslands, hinnar norrænu velferðarstjórnar.

Og á meðan heimilin í landinu eiga í gríðarlegum erfiðleikum leikur ríkisstjórnin sér að stjórnarskrármáli, nafnabreytingum á stjórnarráði, hrókerningum ráðherra, ESB umsókn og hótar atvinnulífinu ofursköttum.

Ég spyr, rétt eins og ég hef gert svo oft áður, er ekki kominn tími á þessa andsk... ríkisstjórn?

Og hvar er nú liðið sem áður barði í potta og pönnur þegar afleiðingin af verkum norrænnar velferðarríkisstjórnar er orðin meiri og alvarlegri en hrunið sjálft? 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband