Tíglar á Mars og móberg í Vífilsfelli

Tiglar HaraldarHaraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, birtir á bloggi sínu í dag þessa mynd frá Mars. Þar má sjá hraun eða eitthvað annað alsett tíglum. Hann segir:

En það er fleira merkilegt á myndinni frá Mars. Eitt eru bólur á yfirborði, sem gætu verið gasbólur í hrauni, og hitt atriðið eru tíglarnir, sem einkenna allt yfirborðið. Þeir minna óneitanlega á það mynstur sem verður til á yfirborði vegns stuðlabergsmyndunar í hrauni. 

Um leið og ég sá þessa mynd datt mér auðvitað í hug móberg skammt sunnan við tind Vífilsfells. Þar virðist móbergið hafa sprungið í tígla eða ferhyrninga af einhverjum ástæðum.

Engar gasbólur eru eðlilega í því heldur þúsundir skessukatla, líklega frá þeim tíma er jökull lá yfir og vatn rann um og slípaði móbergið til.

Tiglar SS

Mér fannst sláandi líkindi með þessum marstíglum og Vífilfellstíglunum. Ástæðan er kannski sú að um helgina hef ég dálítið gengið um svæðið mér til heilsubótar og hressingar eins og sagt er. 

Takið eftir samræminu milli þessara tígla á efri myndinni og þeirra á neðri, sem þó líkjast meira púðum. Með þokkalegu ímyndunarafli gæti maður haldið að þetta væri af sama fyrirbrigðinu. 

Þriða myndin er af skessukötlunum. Þeir myndast þegar straumvatn rennur um klappir og lítill eða stór steinn festist og snýst í holu og stækkar hana smám saman og dýpkar. Svona skessukatlar eru út um allt á þessu svæði, rétt eins og móbergið væri úr tómum osti.

Tiglar HS

Það merkilegast er að skessukatlar verða yfirleitt til í nokkurn vegin láréttu bergi, ef ekki sést á lögun þeirra hvernig bergið hefur legið. 

Hérna eru hins vegar skessukatlarnir beint inn í berg sem getur verið lóðrétt. Kannski bendir það til þess að það hafi hreyfst verulega til síðan þeir mynduðust. Í það minnsta er lítið um rennandi vatn á þessum slóðum og því ekkert sem heldur áfram myndun þeirra.

Svo er ekki úr vegi fyrir lesendur að smella á myndirnar og stækka þær. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband