Ríkisstjórnin lofar og lofar en ekkert breytist
19.3.2012 | 09:36
Birgir Ármannsson, alþingismaður, færir rök fyrir því að atvinnuástandið í landinu hafi ekkert breyst þrátt fyrir hina norrænu velferðarstjórn. Hann tekur saman fjölda þeirra sem eru með fulla atvinnu og segir þá hafa verið í þessum mánuðum:
- 160.700 í febrúar 2012
- 160.600 í febrúar 2011
- 163.700 í febrúar 2010
- 163.800 í febrúar 2009
Og Birgir segir þetta:
Frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum fyrir rúmum þremur árum hefur forsætisráðherra hvað eftir annað gefið yfirlýsingar um að atvinnumálin séu í forgangi og að aðgerðir stjórnarinnar muni skila þúsundum starfa á næstu misserum.
Hann telur síðan upp loforð Jóhönnu Sigurðardóttur sem eru þessi:
- Í mars og apríl 2009 talaði forsætisráðherra um að nýjar tillögur í atvinnumálum myndu skila 6.000 ársverkum á næstunni, þar af um 2.000 í tengslum við orkufrekan iðnað.
- Haustið 2010 var forsætisráðherra svolítið varkárari og talaði um 3.000-5.000 ný störf á næsta ári (2011).
- Í febrúar 2011 ræddi ráðherrann sérstaklega um uppbyggingu í orkuöflun og nýtingu og aðrar stórframkvæmdir, svo sem í samgöngumálum. Þá sagði hún: Þessi verkefni öll gætu skapað 2.200 til 2.300 ársverk fljótt og 500 til 600 varanleg störf við framtíðarrekstur.
- Við sama tækifæri sagði hún líka: Við verðum að skapa hér 10 til 15 þúsund ný störf á næstu árum.
Í ljósin þessara fullyrðinga vekur furðu að þeir sem eru með fulla atvinnu séu ekki um 10.000 fleiri, þ.e. tæplega allir þeir sem eru nú á atvinnuleysisskrá.
Niðurstaða hins hógværa og málefnalega þingsmann, Birgis Ármannssonar, er þessi:
Ljóst virðist að í þeim tilvikum sem ný störf hafa orðið til á þessum þremur árum hafa önnur tapast. Sú niðurstaða hlýtur að verða bæði ríkisstjórn og Alþingi umhugsunarefni á næstunni. Það er ekki nóg að tala um að fjölga beri störfum ef raunveruleg stefna stjórnvalda og lagasetning á Alþingi miðar í aðra átt. Það er til lítils að lofa atvinnuuppbyggingu en stórauka á á sama tíma álögur á atvinnulífið, hamla gegn fjárfestingu og reisa sífellt hærri þröskulda gagnvart öllum framkvæmdum í landinu. Stjórnarstefna af því tagi skilar ekki neinum árangri. Hún er ávísun á áframhaldandi stöðnun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.