Er hægt að sakfella mann fyrir "eitthvað"
16.3.2012 | 15:15
Það er að sjálfsögðu annað form á meðferð þessara mála heldur en í hefðbundnum sakamálum.Sigríður segir ekki hafa verið ástæðu til skýrslutöku eða sjálfsagðrar rannsóknar þegar búið var að ákveða ákæru með þingsályktun. Sigríður segir að sem saksóknari hafi hún verið bundin við ályktun þingsins um það hvað mátti ákæra fyrir.
Ofangreint er endursögn blaðamanna Morgunblaðsins á seinni ræðu saksóknara í Landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde.
Sem sagt, meirihluti Alþingis taldi sig bundinn af því að þegar væri búið að vísa málinu til saksóknara og þess vegna mætti hvorki breyta né hætta við málsóknina. Saksóknari telur sig bundna við ályktun þingsins.
Afsakið, hvers konar hringavitleysa er þetta? Vísar þarna hvor á annan.
Auðvitað hlýtur það að vera ámælisvert ef saksóknari afsakar sig með þessu hætti í ræðu fyrir Landsdómi en hefur samt reynt að troða málavöxtum í það form sem henni var skammtað.
Krafan á Geir er að hann hefði átt að grípa til einhverra aðgerða til að draga úr tjónshættu, draga úr stærð bankanna, segir Sigríður.
Vandinn er hins vegar sá að enginn, hvorki saksóknarinn né aðrir, vitað hverjar þessar einhverjar aðgerðir hafi átt að vera.
Er hægt að sakfella mann fyrir eitthvað? Auðvitað ekki og þess vegna mun Landsdómur sýkna Geir af öllum ákærum.
Yfirlýsing Geirs H. Haarde | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:35 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Siggi.
Um síðustu helgi var ég í 115 manna fimmtugsafmælisveislu hér í Svíþjóð. Ég hafði varla við að svara fyrirspurnum fólks um þetta mál með "forsetann" [sic] sem var fyrir landsdómi eða Ríkisrétti eins og það heitir hér og hafði ekki verið notaður í 120 ár þar til hann var lagður niður árið 1974.
Fólki þótti þetta stórmerkilegt og sagðist sumt ekki átta sig á hvað væri ákært fyrir. Ég reyndi að útskýra það á hlutlausan hátt hvernig ferlið hefði verið með rannsóknarnefndina sem skilaði skýrslu sem síðan hefði verið metin af þingnefnd sem tilgreindi þá aðila sem væri rétt að ákæra og hvernig atkvæðagreiðslan hefði farið fram í þinginu og hvernig þingið væri samansett af tveimur flokkum þar af öðrum hvers meðlimir hefðu verið fríaðir.
Það var litið á mig vorkunnaraugum og sumir sögðu hreint út að það væri merkilegt hvernig þetta gæti átt sér stað að einn aðili væri hengdur út fyrir mjög matskennd ásökunarefni.
Það var greinilegt að þetta hefur vakið mikla athygli og margir höfðu kynnt sér málið. Af athugasemdum fólks þarna mátti ráða að fréttaflutningur hér hafi verið ansi gagnrýninn á ákæruna en ég hafði ekki sjálfur fylgst með því.
Björn Geir Leifsson, 16.3.2012 kl. 16:05
Takk fyrir innilitið, Bjössi. „Hengdur út fyrir mjög matskennd ásökunarefni.“ Merkileg ... og raunar mjög mikið til í þessu.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.3.2012 kl. 16:13
Sigurður. Það sem saksóknari fer fram á, var óframkvæmanlegt, ólöglegt og óréttlátt. Handahófskenndur "af því bara" og "eitthvað" úrskurður.
Saksóknari sá ekki ástæðu til að rannsaka fjármálaeftirlitið og seðlabankann, sem brugðust sinni lögboðnu skyldu! Afsakanirnar voru á þann veg, að fyrrverandi saksóknari hefði ekki gert það!
Þessi vinnubrögð saksóknara ofbjóða minni réttlætiskennd, og minna mjög á hvernig Guðmundar og Geirfinnsmálið var afgreitt! Hver var saksóknari þá?
Væri ekki rétt að rifja það upp, vegna þess hve þessi tvö mál eru afgreidd með sama óréttláta hættinum. Þ.e. dæma bara einhvern til að "friða" almenning, og halda spillingunni svo bara áfram!
Þetta mál er svo sannarlega ekki búið, því það á eftir að taka höfuðpaurana. Almenningur getur ekki róast fyrr en það verður gert, því annars heldur vitleysan áfram að versna. Eftir hverjar kosningar verður nýkosnu fólki stillt upp við vegg, af þessum höfuðpaurum og glæpamönnum í eftirlitsstofnunum, sem enn ganga lausir og eru vel tengdir erlendum fjárglæfra-svikatoppum.
Engin Eva Joly getur hjálpað samfélaginu á Íslandi, ef við reynum ekki sjálf að siðvæðast og standa saman um að verja raunverulegt réttlæti fyrir alla, sama hver á í hlut, og þótt ólík séum. Lýðræðið og réttlætið er stritsins og tímans vert, sem fer í að verja það.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.3.2012 kl. 16:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.