Krakað í sjávarútveginn með skóflu
7.3.2012 | 09:10
Auðvitað má breyta íslenskum sjávarútvegi en það verður að gerast rólega. Það verður þó ekki gert með skóflu enda er atvinnulífið ekki moldarköggull. Þetta var gert hér fyrir hrun, fyrirtæki keypt, skuldsett og seld aftur á óheyrilegu verði, bankalán til kaupanna fylgdi jafnan. Þessi fyrirtæki áttu sér enga viðreisnar von í höndum nýrra eigenda, hversu mikill sem vilji þeirra var.
Ragnar Árnason, hagfræðingur, ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Hann bendir á að samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs kunni að verða lakar haldi íslensk sjórnvöld áfram að veikja hann.
Við þær aðstæður er einungis tímaspursmál hvenær hinir erlendu samkeppnisaðilar ná að hrekja íslenska framleiðendur út af bestu mörkuðunum með undirboðum og öflugri markaðssetningu. Þá mun þróun liðinna ára snúast við. Í stað þess að þjóðin fái stöðugt hærra verð fyrir sjávarafurðirnar mun verðið fara lækkandi og okkar útflytjendur smám saman hrekjast út í lökustu markaðshornin. Framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslu mun minnka að sama skapi. Okkur mun einfaldlega verða minna úr auðlindum sjávarins. Þjóðin í heild mun tapa.
Þessi orð Ragnars eru athyglisverð. Menn verða að hugas dæmið til enda, taka með í það sölu- og markaðsmál atvinnugreinarinnar. Hún þrífst á þeim og það er ekkert sem segir að sú staða sem sjávarútvegurinn er í dag á erlendum mörkuðum muni halda sér. Það er einmitt skoðun Ragnars sem segir í niðurlagi greinarinnar:
Sagan kennir okkur að búi stjórnvöld innlendum atvinnuvegum lakari samkeppnisskilyrði en atvinnuvegir annarra þjóða njóta er þess skammt að bíða að þessir atvinnuvegir lúti í lægra haldi í hinni alþjóðlegu samkeppni, dragist saman og visni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.