Trúir einhver þessum Gylfa fyrrverandi ráðherra?
26.2.2012 | 12:35
Fyrst er rétt að benda á það, sem oftast gleymist, að verðtrygging breytir engu um raunvirði skulda. Lánveitendur högnuðust því ekkert á verðbólguskotinu, sem varð í kjölfar hruns krónunnar 2008. Af sömu ástæðu töpuðu þeir, sem voru með verðtryggð lán, engu vegna verðbótanna. Þeirra skuldir stóðu í stað að raunvirði.
Þetta eru hinar ótrúlegu vangaveltur hagfræðingsins Gylfa Magnússonar, fyrrum viðskiptaráðherra í vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms, um skuldavanda heimilanna og birtist í grein í Fréttablaðinu laugardaginn 25. febrúar.
Um daginn ritaði kona nokkur í athugasemdakerfi Marinós G. Njálssonar hugsanir sínar vegna skuldastöðu sinnar. Hún hafði tekið tíu milljón króna íbúðarlán fyrir hrun, AÐEINS 10 milljónir, og eftir hrunið hefur hún ekki getað staðið í skilum með það og nú sér hún fram á að missa íbúðina sína á uppboði. Hún sagði öll sund lokuð fyrir sér, orðin atvinnulaus, og líklega ekkert framundan nema verða byrði á börnum sínum og barnabörnum.
Þessi saga er ekki einsdæmi, því miður. Þúsundir manna hafa lent í þessu sama. Samkvæmt könnunum eiga rúmlega 40% landsmanna í erfiðleikum með húsnæðislán sitt eða geta hreinlega ekki greitt af því. Já, líklega hafa skuldir þessa fólks staðið í stað, sko að raunvirði, eins og Gylfi orðar það.
Og nú biðst ég afsökunar á orðfæri mínu, en ég get ekki orða bundist. Þó ofangreint og miklu meira sé alkunna þá kemur prumphæsni eins og Gyfi Magnússon, og skilur ekkert í því hvers vegna fólk er með uppsteit. Sem betur fer er Gylfi hættur í ríkisstjórn. Þar getur hann ekki skemmt neitt framar með aðgerðarleysi sínu enda talar hann eins og sá sem er gjörsamlega úr tengslum við þjóðina, veit ekkert hvað er að gerast.
Og í þokkabót segir gerir hann lítið úr öllum hugmyndum um leiðréttingu á forsendubresti húsnæðislána sem hefur valdi mestu eignatilfærslu sögunnar hér á landi, frá almenningi til fjármálastofnanna. Og skuldirnar stóði í stað að raunvirði, segir maðurinn. Nei, þær stórjukust, Gylfi og eignir almennings hurfu meira og minna. Og þetta lét Gylfi gerast á þeim tíma er hann var viðskiptaráðherra. Enda var þetta aðeins verðbólguskot.
Loks heldur hann eftirfarandi fram, líklega er það konunni sem ég nefndi hér að framan til mikillar hugarhægðar:
Það, sem hins vegar er gerlegt, er að færa byrðar á milli þjóðfélagsþegna í gegnum skatta- og bótakerfið. Til þess þarf ekkert nema pólitískan vilja. Það hefur að nokkru marki þegar verið gert, með mikilli hækkun vaxtabóta, en, sem fyrr segir, má færa sterk sanngirnisrök fyrir því að ganga lengra.
Þetta er aldeilis mikil bót fyrir þá sem hafa ekki efni á að borga af húsnæðislánum sínum eða hafa misst þær svo ekki sé talað um þá sem eru atvinnulausir. Gylfi vill gera fólk sem átti eignir að þurfalingum ...
Af hagfræðilegri þekkingu minni legg ég til að fólk fái afslátt af sköttum sínum, líklega þeir sem enga skatta borga, segir Gylfi, bólginn af reynslu og fróðleik.
Trúir einhver þessu? Þessi kall komst inn í ríkisstjórn vegna digurbarkalegra ummæla í hruninu. Á vakt ónytjungsins og annarra vinstri manna var ekkert gert með hrikalegum afleiðingum fyrir fjölskyldulíf fjölmargra. Hann kunni ekkert að gera og nú talar hann um verðbólguskot, rétt eins og aðrir um hið svokallaða hrun.
Þegar svona er tungutakið hjá manni sem var í ríkisstjórn Jóhönnur og Steingríms, hvernig tala þá hjúin sjálf og hyski þeirra? Jú, þetta er allt Sjálfstæðisflokknum að kenna. Jafnvel aðgerðarleysi vinstri stjórnarinnar er sök Sjálfstæðisflokksins. Er ekki kominn tími til að þetta lið fari sömu leið og Gylfi; út úr stjórnarráðinu og Alþingi?
Hrunið og afleiðingar þess gerðu það að verkum að fólk tapaði eignum sínum, sumir öllum lífssparnaðinum. Sleppu tali um andlegt ástand fólks, vanlíðan, sundrungu fjölskyldna, þunglyndin og annað tilfinningalegs eðlis, snúum sjónum okkar að öðru.
Sú staða sem upp er komin veldur gríðarlegum uppsöfnuðum fjármunum í bönkum og lífeyrissjóðum þar sem ekkert er gert með fjármagnið. Væri skuldastaðan vegna íbúðalána leiðrétt að hluta eða öllu leyti myndi fjármagnsveltan í þjóðfélaginu aukast að mun og smám sama losa það úr þeirri kreppu sem ekki síst er Gylfa Magnússyni og vinstri stjórnarliðum hans í núverandi ríkisstjórn að kenna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Facebook
Athugasemdir
Í mínum augum er þessi maður ómarktækur þegar hann sagði okkar að ef við samþykktum ekki Icesave yrðum við Kúpa norðursins. Þessi maður á helst að láta sem minnst fyrir sér fara hvað þá að vera að grínast með fólk sem er á annari skoðun en hann.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.2.2012 kl. 13:30
Það er umhugsunar efni hvað framleiðsla Háskólans er illa stöðluð.
Í gamladaga var sveinspróf dauðans alvara. En útúr háskólanum kemur fólk með sömu gráðu en tveir úr þeim hópi fá aldrei það sama út úr dæmunum.
Hurð er í dyragati og það þarf að ver hægt að opna hanna og loka henni. Í háskólanum eru sjálfsagt hurðir og þær opnast og lokast svo sem ætlast er til.
Háskólamenn hafa þó væntanlega ekki áhuga á að veltavöngum yfir hurðum. En þeir þarna í háskólanum smíða rökfræðinga sem geta rifið niður staðreyndir og eru stoltir af.
Hrólfur Þ Hraundal, 26.2.2012 kl. 14:49
Þetta var maðurinn sem stóð niður á austurvelli og fékk fók til að trúa því sem hann var að segja um skuldir heimilanna. Þetta er líka sami maður sem eins og allir í þessari helv. ríkistjórn sneri baki í almenning og öll loforðin sem gefin voru, voru bar til þess að komast á jötuna og ná sér í tryggan lífeyri og að sjálfsögðu biðlaun. Það má ekkert meira eða minna vera fyrir allt þetta svikula pakk.
Meðan ég man, var það ekki eitt af loforðum hennar Ingibjargar Sólrúnar að taka á þessum eftirlaunum....???? Enn ein lýgin og hræsnin hjá þessu hyski.
Og nafni, þú þarft ekkert að biðjast afsökunar á lýsingarorðum á þessu fólki. Það sem fram er komið hér í þessum skrifum á þinni síðu er bara kurteist miðað það sem margir hugsa.
Sigurður Kristján Hjaltested, 26.2.2012 kl. 21:22
Ekki ég.
Marteinn Sigurþór Arilíusson, 26.2.2012 kl. 21:26
Gylfi segir að verðtryggingin sem slík skapi hvorki gróða né tap hjá lánveitendum eða lántakendum. Ef menn eru ósammála þessu væri áhugavert að sjá rök gegn því. Og ég minni á að það að kalla menn fífl og asna eru ekki rök.
Við værum kannski komin aðeins lengra á veg í uppgjörinu ef menn hefðu vit til að ræða málefni og svara rökum með rökum en ekki bara alltaf skítkasti.
Þorsteinn Siglaugsson, 27.2.2012 kl. 09:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.