Meiri kallinn, þessi Skapti blaðamaður
16.2.2012 | 09:00
Einn af ritfærustu blaðamönnum Morgunblaðsins er hinn hnytttni Skapti Hallgrímsson á Akureyri. Stundum ritar hann meinlega pistla og af öllum hæðist hann mest af sjálfum sér svo bros og hlátra vekur. Skapti skrifar í morgun fróðlegar fréttir frá Akureyri. Í upphafi segir hann:
Stór veggur við skíðageymsluna á jarðhæð nýja Icelandair-hótelsins í höfuðstað Norðurlands var á dögunum skreyttur með einstaklega skemmtilegri ljósmynd. Á henni er keppnislið Menntaskólans á Akureyri á Skíðamóti Íslands á Siglufirði 1942.
Þessi tilvitnun ruglaði mig dálítið í ríminu. Hann talar um Icelandair-hótelið í höfuðstað Norðurlands. Mér vitanlega er ekkert slíkt hótel á Siglufirði, ekkert á Hvammtanga, ekkert á Húsavík, ekkert á Blönduósi, ekkert á Kópaskeri.
Niðurstaðan hlýtur að vera sú að hann eigi við Icelandair-hótelið á Akureyri. Það er nú bara gott og blessað en síðan hvenær hefur Akureyri verið höfuðstaður Norðurlands og með hvaða rökum? Á Akureyri eitthvað meira tilkall til þessa tignartitils en þeir sem hér voru á undan nefndir? Hefur hann nokkuð til þess unnið ...?
Væri ég spurður myndi ég hiklaust benda á Hóla í Hjaltadal sem höfuðstað Norðurlands. Sögulega séð eiga þeir tvímælalaust einir rétt á þessum titli. Ég gæti líka nefnt Þingeyrar, þann fornfræga stað við í Húnaþingi. En í ljósi alls var Skapti kannski að spauga, gera grín af sér og öðrum bæjarbúum. Hann er nú meiri kallinn, hann Skapti ... sem heldur svo áfram spaugi sínu í lok pistilsins:
Svo mætti kannski nefna að fólk (líklega utanbæjarmenn ...) sem gengur með hundana sína upp með Glerá mætti fylgjast betur með því hvar þessu fallegu og góðu dýr skíta! Fulloft finnst mér ég rekast á slíkan úrgang án þess að ég hafi nokkuð til þess unnið ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Það er þá fyrst að taka það fram, að Akureyri hefir mjög svo vaxið fiskur um hrygg um þessi 16 ár síðan að kirkja var reist og prestur átti að setjast hér að. Hér í bænum mun nú vera um 400 manns, að staðaldri. Handiðnir og verzlun hefir aukizt hér stórum á seinni árum, einkum síðan hin innlenda verzlun tók að blómgast; einnig er hér mikið sjávarúthald og aðalhöfn og byrgðastaður hinna mörgu þilskipa; hér er fyrir nokkru komin á bæjarstjórn, og með henni reglulegur staðarbragur á bæinn; hér eru 4 stórar verzlanir, tvær prentsmiðjur, aðallæknir Norðlendinga og Austfirðingafjórðungs, annar spítali landsins og lyfjabúð, hér er fjölsóttur barnaskóli, og hér situr hin æðsta valdstjórn hálfs landsins, amtmaðurinn yfir Norðlendinga og Austfirðinga fjórðungi. Hér er því réttnefndur höfuðstaður Norðurlands."
Norðlingur - 5. desember 1877
Árni Matthíasson , 16.2.2012 kl. 21:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.