Má taka í notkun ný örnefni?

DSC_0177 - Version 2

Í nokkur misseri höfum tveir félagar, Óli Þór Hilmarsson og ég, unnið að gerð göngukorts sem tekur yfir svæðið í kringum Strút, skála Útivistar skammt norðan við Mælifellssand, norðan Mýrdalsjökuls. Þar er ægifagur svæði eins og meðflylgjandi myndir gefa vísbendingar um.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er að menn eru ekki á eitt sáttir um þá hugmynd okkar að kalla svæðið Strútsland til að marka það á einhvern hátt í huga göngufólks.

Í texta kortsins segjum við eftirfarandi:

Mælifell stendur fyrir miðjum sandinum sem hann er kenndur við. Þau eru mörg fjöllin sem bera þetta nafn. Flest eru auðþekkjanleg, keilulöguð og sjást langt að. Nafnið hafa þau að öllum líkindum fengið vegna þess að þau auðvelduðu hér áður fyrr ferðalög, voru nokkurs konar mælieining á vegferð gangandi eða ríðandi fólks. 

DSC_0293 - Version 2

Enn stendur fjallið á Mælifellssandi fyrir sínu því skammt fyrir norðan það opnast stór dalur sem markast í norðri af Torfajökli og að austan því tignarlega fjalli sem nefnist Strútur. 

Dalurinn er nafnlaus en mætti allt eins heita Strútsdalur enda hjálpa örnefni til, með þeim er auðveldara sé að átta sig á staðsetningu og umhverfi. 

Strútsland mætti nefna það land sem afmarkast í norðri af Torfajökli, í vestri Kaldaklofi, í austri Svartahnúksfjöllum og í suðri af Mælifellssandi. Hér á eftir verður lýst nokkrum gönguleiðum á þessu svæði og nafngiftin er til hægðarauka, göngufólki til skýringar og aðstoðar. Varla er það nein goðgá þó gripið sé til Bessaleyfis enda bendir allt á þessum slóðum til Strúts.

DSC_0031 - Version 2 (2)

Næstum innst inni í Strútsdal er skáli Útivistar sem í daglegu tali er nefndur Strútsskáli ... 

Þarna höfum við tvö tilbúin nöfn, Strútsland og Strútsdalur. Ekki er verið að reyna að útrýma neinum öfnefnum aðeins að gera landlýsinguna fylltri og auðveldari.

Nú væri gaman að fá viðbrögð frá lesendum þessara lína, hvort þeim huggnist svona tilraun eða leggist algjörlega gegn þeim.

DSC_0361 - Version 2

Flestir vita að örnefni tapast eftir því sem kynslóðir hverfa og þannig hefur það áreiðanlega verið frá upphafi. Menn hafa nefnt staði, kynslóðir geymt örnefnin, gleymt sumum, búið til önnur. Skaðinn er hins vegar ekki mikill fyrr en með breyttri landnotkun. Þar af leiðandi hefur gildi örnefna aukist, ekkert mun koma í stað þeirra sem tapast vegna þess að notkun landis er að breytast hröðum skrefum.

Eigendur hafa ekki nú sömu þörf fyrir örnefni, landslagið liggur ljóst fyrir á kortum og punktum og svo hroðalega framtíðarsýn gæti blasað við að staðir beri einungis tölur en ekki nöfn. 

DSC_0140

Má nefna staði sem ekkert nafn bera? Hin breytta landnotkun felur t.d. í sér að ferðamönnum fjölgar og þeir hafa annan skilning og aðra þörf fyrir örnefni en fjárbændur og hestamenn liðins tíma.

Ekkert er þó til um ný örnefni, leyfi fyrir þeim eða viðurkenningu. En það má þó alltaf leggja hluti til þó svo að ný örnefni fari ekki á opinber kort Landmælinga Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Hefurðu spurt bændurna í Álftaveri út í örnefnin þarna?

Þórir Kjartansson, 12.2.2012 kl. 20:32

2 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Arrrgh...!

Ég hef einmitt verið að pæla svipað...

Ég er frá Selfossi... Og lenti í rifrildi, nýlega, við fólk um hvar "Flóinn" er á Suðurlandi...

Flóinn heitir þar sem mýrarflóinn var... Sem var síðan framræstur af bændunum þarna í kring... Og er í raun suður og suðaustur af Selfossi... Það var mér kennt bæði í skóla á Þingborg, sem var/er í Hraungerðishreppi og af Kjartani Runólfssyni, Ölvisholti þar sem nú er brugghús... Þar sem ég var í sveit. En reglan var að það landssvæði, Hraungerðishreppur, væri ekki í flóanum... Þ.e allt fyrir norðan þjóðveg #1 fyrir austan Selfoss væri ekki í flóanum...

Semog það svæði þar sem holtin byrjuðu fyrir sunnan þjóðveg... Einsog Villingaholtshreppur sem er/var fyrir sunnan veg... Þar eru sko ekki miklar mýrar...

En þetta fólk bennti á einhver kort og núverandi sveitarfélagsnöfn, sagðist vera upp alið á svæðinu (sem ég trúi nú ekki alveg) og ég veit ekki hvað...

Allavega virðist flóinn hafa stækkað allverulega síðan ég var peð og er í huga fólks, þá væntanlega frá Skeiðum, allt það landsvæði sem er á milli Ölfussáar/Hvítáar og Þjórsáar...

Sævar Óli Helgason, 12.2.2012 kl. 21:32

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, Þórir, ég hef ekki talað við bændur í Skaftártungu, sem er nær en Álftaver. Hins vegar hef ég aflað víða heimilda og ekki fundið nein örnefni.

Vandi þinn, er keimlíkur annarra, Sævar. Stundum er erfitt að ákveða stærð svæðis með örnefnið eitt til stuðnings. Sjáðu bara hvað Þórsmörk er orðin stór í hugum margra. Nær jafnvel frá Emstrum og suður á Fimmvörðuháls ...

Eitt er þó að deila um mörk örnefna og annað að hafa engin.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.2.2012 kl. 22:08

4 Smámynd: Þórir Kjartansson

Sæll aftur Sigurður.  Já, Skaftártungumenn eru nær og vita vafalaust eitt og annað um þetta svæði. En þetta er afréttur Álftveringa og þeir sem smala landið þekkja best til örnefna.

Þórir Kjartansson, 12.2.2012 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband