Tími kominn til að biðja guð að hjálpa sér
11.2.2012 | 11:28
Ég las með athygli og einnig vaxandi undrun grein Þjóðverjans Joschka Fischers, fyrrverandi þingmanns og ráðherra. Hún er holl lesning jafnt fyrir okkur sem leggjumst eindregið gegn aðild Íslands að ESB sem og þeirra sem styðja hana. Þarna talar maður sem hefur glögga yfirsýn og reynir að átta sig á pólitísku landslagi í Evrópu.
Fischer gerir að umtalsefni ólguna innan sambandsins og ástæður hennar. Hann er ekki alltof stoltur af framgöngu þýskra stjórnvalda, ræðst raunar harkalega á þau. Forusta Evrópusambandið sé komið úr tengslum við almenning og hann hefur litla trú á að evrunni verði bjargað. Hann segir varar við því hættu á pólitísku ójafnvægi:
Efnahagur ríkja Evrópusambandsins er að öllum líkindum á leið inn í langvarandi samdráttarskeið, að miklu leyti fyrir eigin tilverknað ríkjanna. Þýskaland reynir enn að berjast gegn vofu ofurverðbólgunnar með harkalegu aðhaldi á evrusvæðinu en ESB-lönd í kreppu horfa fram á raunverulega hættu á verðhjöðnun sem gæti hugsanlega haft skelfilegar afleiðingar. Það er aðeins spurning um tíma og ekki lengur langan tíma hvenær efnahagslegt ójafnvægi fer að valda pólitísku ójafnvægi.
Sé langvarandi kreppa í aðsigi í Evrópu er ástæða fyrir Íslendinga að staldra við svo háðir erum við útflutningi til Evrópu að við gætum lent í verulegum vandræðum.
Eftir því sem Fischer segir er sambandið að vanmeta almenning, þjóðirnar, og kröfu þeirra um fullveldi.
Ólgan vex stöðugt í Miðjarðarhafslöndum ESB og í Írlandi, ekki einvörðungu vegna þess að aðhaldsaðgerðir eru farnar að bíta heldur líka og kannski enn frekar vegna þess að ekki er boðið upp á neina stefnu sem veitir almenningi von um betri framtíð. Ráðamenn í Berlín vanmeta gróflega sprengikraftinn í þróun mála sem stendur, þróun sem hnígur í átt að því að fullveldi aðildarríkjanna verði smám saman endurheimt fyrir tilstuðlan almennings.
Og Fischer rekur stöðu mála í einstökum löndum. Hann varar við því að ítalska ríkisstjórnin gæti fallið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Frakkar gætu fengið það á tilfinninguna ... að verið sé að þröngva upp á þá stefnu sem komi að utan og frá Þýskalandi af öllum löndum! munu þeir svara með hefðbundinni þrjósku Gallanna.
Niðurstaða Fischer er einfaldlega sú að enginn stjórnmálaflokkur mun leggja neitt það til sem ógnar kosningaárangri hans:
Upplausn Evrópu er þegar komin mun lengra á veg en hún lítur út fyrir að vera. Tortryggni og eiginhagsmunasýki einstakra þjóða breiðast hratt út og brýtur niður evrópska samstöðu og sameiginleg markmið. Hvað snertir stofnanir sambandsins hafa þær verið á réttri braut frá síðasta leiðtogafundi en hættan er að sambandið gliðni í sundur, fyrst að neðan og síðan upp á við.
Eiginlega fær maður það á tilfinninguna að þau vandamál sem Fischer nefnir séu svo hrikaleg og erfið að vonlaust sé að Evrópusambandið nái því gengi sem ætlað er. Og hver skyldi ástæðan vera? Jú, almenningur samsamar sig sem þegna ákveðinna ríkja, ekki ríkjabandalags, og ríkin eru öll svo óskaplega ólík.
Og nú mættu margir ESB sinnar að dæmi séra Sigvalda í Manni og konu sem sagði þegar undirferli hans var endalega komið í ljós: Það held ég að sé nú kominn tími til að biðja guð að hjálpa sér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Jú, almenningur samsamar sig sem þegna ákveðinna ríkja, ekki ríkjabandalags, og ríkin eru öll svo óskaplega ólík."
Þetta er mergur málsins og ástæðan fyrir því að ákveðin hópur málsmetandi manna hefur lagst í herferð hér á landi við að afþjóðernissera Íslendinga og síðan Evrópusera þá jafn harðan svo að þeir verði auðmeltir í Brussel vömbinni.
Evrópa gæti sameinast en það gerist bara í mjög litlum skrefum á mjög mörgum öldum. Þótt öll sýnileg landamæri sjáist ekki lengur og allir tala sama máli í æðstu stjórn stórfyrirtækja, bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum þá er Evrópa þakin himinháum múrum máls og menningar sem verða ekki yfirstignir í hendingskasti hvað þá á 60 - 70árum eins og reynt hefur verið.
Eggert Sigurbergsson, 11.2.2012 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.