Þolinmæði og umburðarlyndi
10.2.2012 | 14:37
Sú þrönga sýn sem Snorri Óskarsson virðist hafa á samkynhneigð er síður en svo óalgeng. Hún finnst til dæmis víða í Bandaríkjunum og er raunar auðveldast að benda á frambjóðendur í forvali Republikanaflokksins sem margir hverjir hafa nákvæmlega sömu skoðun og Snorri og taka jafnvel enn dýpra í árinni.
Ekki þekki ég Snorra og er ekki sammála honum. En viðtalið leiðir hugann að skoðunum fólks. Þetta er nú bara mín skoðun, segir fólk um ólíklegustu mál og það þykir gott og gilt, allir hvattir til að tjá skoðun sína. En hvað gerist svo þegar einhver virðist ganga gegn meginstraumnum?
Maður sem trúar sinnar vegna getur ekki samþykkt samkynhneygð er úthrópaður. Sá sem er á móti náttúruvernd og fylgjandi óheftri virkjanastefnu verður fyrir aðkasti. Brosað er meðumkunarlega við gamla Stalínistanum en við fyllumst vanþóknun á fasistanum. Og svona má lengi telja.
Mér finnst ósköp eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir en hef jafnframt þá djúpu sannfæringu að skynsamar rökræður séu betri en að vega að persónum, svipta það starfi sínu eða útiloka á einhvern hátt. Svo er það auðvitað líka svo að málefnin eru mismunandi og þolinmæði og umburðarlyndi fólks er mikil takmörk sett. Í mörgum tilvikum er það slæmt.
Hvorki fordómar né hatursáróður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Jú, vissulega má fólk hafa sína skoðun. En stundum er betra að maður haldi henni bara fyrir sjálfan sig. Snorri þarf ekkert að gera það, en hann getur örugglega valið hentugt orðalag, sem ekki hræðir unga óörugga fólkið sem er að uppgötva samkynhneigð sína, með þeim afleiðingum að það heldur sig inni í skáp, þó það viti að þar á það ekki að vera. Slíkt líf eyðileggur sálina og Snorri hefur engan rétt til að ýja að því að þessu fólki sé vís vist í Helvíti.
Meðal trúaðra eru líka samkynhneigðir. Séu þeir meðlimir í Hvítasunnukirkjunni eða Betel, sem ég held að sé angi af hinni, mætti þá halda að það trúfélag sé markvisst að leggja líf meðlima sinna í rúst.
Nei, snúum ekki baki við samkynhneigðu fólki fyrir það eitt að vilja eiga líf í faðmi fjölskyldu, bara af því að það hugnast ekki nokkrum forpokuðum trúarleiðtogum.
Anna Dóra Gunnarsdóttir, 10.2.2012 kl. 15:07
Þetta er hárrétt hjá þér, Anna. Fólk þarf að gæta að því sem það segir og ég dreg stórlega í efa að einhver hafi höndlað stórasannleik heilan og óskiptan, hvorki Snorri né aðrir. Þess vegna þurfum við á þolinmæði og umburðarlyndi að halda. Annars farnast okkur ekki vel sem þjóð.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.2.2012 kl. 15:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.