Skilningur og skilningsleysi á vanda almennings

Innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins vex nú þeirri skoðun ásmegin að taka þurfi á vanda vegna skuldastöðu íbúðareigenda. Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður lagði þetta til í góðri grein í síðustu viku. Vitað er að Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, og fleiri þingmenn eru sama sinnis. Þetta er einnig skoðun þingmanna Hreyfingarinnar, Framsóknarflokksins og stórs hluta Samfylkingar og Vinstri grænna. Eftir hverju er þá beðið? Er ekkert gert út af tillitssemi við formenn stjórnarflokkanna sem ekkert vilja gera?

Guðlaugur ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann gagnrýnir réttilega forseta ASÍ fyrir að skilja ekki hversu vandinn er alvarlegur og djúpstæður. Hann segir í niðurlagi greinar sinnar:

Það er algjör samhljómur á milli hans og Samfylkingarinnar þar sem þessi stjórnmálaöfl segja í fullri alvöru að ekkert sé hægt að gera í verðtryggingarmálum þjóðarinnar nema taka upp evru! Þetta er fullkominn fyrirsláttur. Ef formaður ASÍ og forsætisráðherra eru svona mikið á móti verðtryggingunni, af hverju lögðu þessir aðilar ekki til að kippa henni tímabundið úr sambandi á þeim tímapunkti sem það hefði skilað launþegum þessa lands raunverulegum kjarabótum?

Undir þessi orð má taka. Hins vegar er ekki úr vegi að skoða þá sem leggjast gegn aðgerðum til stuðnings heimilunum í landinu. Einn slíkra er Helgi Magnússon, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Samtaka iðnaðarins. Annar er Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur

Báðir rita líka grein í Morgunblaðið í morgun. Þetta eru skynsamir en ættu að reyna að kynna sér stöðu fólks sem á í erfiðleikum vegna húsnæðislána sinna. Ekki væri nú úr vegi að þeir ræddu við þá sem hafa tapað íbúðum sínum í kjölfar hrunsins. Nei, í stað þess grípa þeir til bjúrókratískra málalenginga, ræða um tæknilega útfærslur og skilgreiningar á verðtryggingu sem hvorugt skiptir nokkru máli í þessu samhengi. Helgi Magnússon segir. segir:

Þegar horft er á tilfinnanlegt tjón íslensku lífeyrissjóðanna af hruninu, sem nam rúmum 20% af eignum þeirra, er óhjákvæmilegt að setja þessar tölur í alþjóðlegt samhengi. Við megum ekki láta eins og áföllin hafi einungis orðið á Íslandi – alþjóðleg kreppa gekk yfir og afleið- ingar hennar bitnuðu á Íslandi af enn meiri þunga vegna bankahrunsins sem átti sér margháttaðar orsakir, m.a. í kerfi sem hafði vaxið samfélagi okkar yfir höfuð. 

Helgi Magnússon og Ragnar Önundarson eiga einbýlishús sín skuldlaust og skilja ekki þann nagandi kvíða og vanda sem heltekið hefur nær helming þeirra sem skráðir eru fyrir eigin íbúð. Raunar hefði ekki verið úr vegi fyrir Helga og Ragnar að bregða sér á fundi hjá Hagsmunasamtökum heimilanna og hlusta á raunarsögur fólks. Þær eru ekkert skemmtiefni en þeir sem taka til máls gegn hagsmunum almennings verða að minnsta kosti að kunna að hlusta. Margir hafa tapað miklu meira en 20% af eigin fé í íbúðum sínum vegna hrunsins. Skyldi Helgi og Ragnar vita það? Er þeim ljóst að sá sem tapar öllu eigin fé í íbúð sinni missir hana væntanlega? Er hægt að jafna sama slíkum skaða við svo og svo mikið tap eins lífeyrissjóðs? Nei ...

Staðreynin er einfaldlega sú að þjóðfélagið hefur ekki efni á að halda fólki í klemmu vegna skulda sinna. Þjóðfélagið hefur ekki efni á því að íbúðir fólks séu annað hvort í stórum stíl fluttar undir eignarhald fjármálastofnanna eða almenningur verði leigutaki þeirra sem tekst að hrifsa þær til sín á nauðungaruppboðum. Það er ekki þannig sem við eigum að reka íslenskt samfélag. Heimilið hvers og eins er grundvöllur þjóðfélagsins.

Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn á að gott fólk komi saman, þvert á pólitískar línur, og leysi húsnæðisvanda almennings, leggi slíkar tillögur fyrir Alþingi og þar verði þær samþykktar. Menn eins og Helgi Magnússon og Ragnar Önundarson eru ekki hagsmunaaðilar og eiga því ekki að standa í vegi fyrir þjóðfélagslegum endurbótum. Það er ljós að svona leiðréttingar munu aldrei verða án þess að einhver skaðist. Mestu skiptir að allir fái aftur tækifæri til að leggja sitt til þjóðfélagsins, þá verður endurnýjunin hröð og góð.


mbl.is Guðlaugur Þór: Gylfi og skýrslan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

"Það er ljóst að svona leiðréttingar munu aldrei verða án þess að einhver skaðist".

Sammála.

Það er kjarni málsins og einmitt þar stendur hnífurinn í kúnni.

Formenn stjórnarflokkanna þora ekki að styggja fjármagnseigendur.

Marta B Helgadóttir, 8.2.2012 kl. 13:36

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Velti fyrir mér vægi kjósenda gegn fjármagnseigendum. Lestu blogg Marinós Njálssonar þar sem hann leggur fram fimmtán áleitnar spurningar sem hvorki höfundar skýrslu Hagfræðistofnunar né Samtök fjármálafyrirtækja treysta sér ekki til að svara.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.2.2012 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband