Ekki krónunni að kenna þó gengið breytist
3.2.2012 | 14:00
Stundum hafa félagar, vinir og jafnvel ókunnugt fólk bent mér á að síðan íslenska krónan var tekin upp hafi hún fallið um mörg þúsund prósent miðað við þá dönsku. Þetta séu rök fyrir því að við ættum að taka upp t.d. Evruna.
Ég hef bent á að atvinnulíf þjóðarinnar hafi verið mjög einhæft allt fram á tíunda áratug síðustu aldar. Fyrir vikið sveiflaðist gengi krónunnar eftir verðlagi fiskafurða á erlendum mörkuðum. Mörgum finnst þessi skýring léleg. Engu að síður segir hún stóra hluta sögunnar. Staðreyndin er einfaldlega sú að gjaldmiðill endurspeglar þau verðmæti sem hann stendur fyrir. Þeim mun fleiri stoðir sem eru undir útflutningi ríkis þeim mun minni verða áhrif verðsveiflna á einstökum vörutegundum.
Stefán Jóhann Stefánsson, hagfræðingur, ræddi nokkuð um krónuna okkar á fundi Heimssýnar á Húsavík um miðjan janúar síðast liðinn. Hann sagði meðal annars (hef bætt við feitletrun og greinaskilum):
Förum við hins vegar ekki þessa leið þá held ég að það sé vert fyrir okkur að hafa í huga að þrátt fyrir allt er Ísland með best settu velferðarríkjum í veröldinni. Það er margt sem er betra einhvers staðar annars staðar en í heildina tekið höfum við það hvað best. Þannig hafa tekjur á mann að meðaltali verið lengst af síðustu áratugi með því mesta sem gerist.
Við höfum stundum verið í einu af efstu fimm sætum á tekjulista þjóða heims og það þrátt fyrir þessa blessaða krónu. Það er ekki til marks um galla eða gagnsleysi krónunnar að gengi hennar hafi fallið svo og svo mikið gagnvart dönsku krónunni frá því sjálfstæð myntskráning hófst fyrir um 90 árum. Það er á vissan hátt þvert á móti kostur að gengi gjaldmiðla breytist miðað við aðstæður.
Það er ekki gjaldmiðlunum að kenna að gengi breytist heldur eru það yfirleitt aðrir þættir í efnahagslífinu sem því ráða. Það er eðli gjaldmiðla að gengi þeirra breytist og þeir væru gagnsminni ef svo gerðist ekki. Gengisbreytingar jafna hagsveiflur gengisfall hjálpar ríkjum að komast út úr vandræðum og gengishækkun getur kælt hagkerfið þegar hitinn er orðinn of mikill. Þetta er grunnstefið þótt þessu geti fylgt flöktandi hljóð og einhver óþægindi um stund.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.