Úrskurðarvaldið um eignir þúsunda

Í mínum huga er þetta ekki ólíkt því að þjófagengi hafi brotist inn á heimili landsmanna og stolið þaðan öllu steini léttara. Það sem þau hirtu ekki tóku minni gengi. Nú þegar lögreglan nappaði gengin, stór og smá, þá fá þau að velja hverju er skilað og hverju þau eða þýfiskaupendur þeirra fá að halda eftir. Síðan þurfa heimilin að greiða fyrir allar viðgerðir að auki.  

Staðan í skuldamálum heimilanna er hrikalega erfið. Nær helmingur landsmanna á í erfiðleikum eða getur ekki staðið undir húsnæðislánum sínum. Á sama tíma segir forsætisráðherra að fjölmargt hafi verið gert til aðstoðar heimilunum. Þetta er auðvitað rangt hjá forsætisráðherra og er í átt við annað sem hún hefur sagt, til dæmis um atvinnumál og að svo „ótalmargt sé í pípunum“. Það hefur nú reynst vera ... tja píp, ekkert annað.

Ég tek mikið mark á Marinó Njálssyni, ráðgjafa, þegar kemur að fjármálum heimilanna. Hann hefur ritað marga góða og skynsama pistla um þau mál á bloggið sitt og tekið þátt í stefnumótun fyrir Hagsmunasamtök heimilanna. Ofangreind tilvísun er úr síðasta bloggi Marinós og ég leyfi mér að birta fleira úr sama pistli (hef leyft mér að breyta aðeins uppsetningu tilvitnaðra orða):

Meðan ekki er búið að lagfæra afleiðingarnar á efnahagshruninu, sem átti sér stað frá áramótum 2008 fram að því þegar neyðarlögin voru sett, þá er ekki búið að koma hlutunum í samt lag. Að fjármálafyrirtæki (þó þau séu ný) fái að stinga í vasann bara einhverri af þeirri hækkun skulda sem varð á þessu tímabili er staðfesting á því, að fjármálafyrirtæki eru hafin yfir lög.

 

  • Þau mega setja heilt hagkerfi á hausinn og stinga afrakstrinum í eigin vasa!
  • Þau mega stunda vafasöm viðskipti, sem líklegast stangast á við lög, en samt stinga hagnaðinum í vasann. 
  • Þau mega fella krónuna og skapa verðbólgu til að hækka kröfur sínar á saklausa lántaka og þannig stefna öllu í voða, en samt stinga hagnaðinum í vasann. 
  • Þau mega hunsa alla varúð, sýna gróft vanhæfi, svíkja, svindla, beita blekkingum og bjóða ólöglega þjónustu, en samt stinga hagnaðinum í vasann.

 

Meðan stjórnvöld líta svo á, að fjármálafyrirtækin séu löglegir eigendur þess fjár sem haft var af viðskiptavinum með þeim aðferðum sem lýst er að ofan, þá verður ekki friður í þjóðfélaginu. Traustið er farið og það mun taka mörg ár að byggja það upp aftur.

Eitt skref í þá átt, er að unnið verði út frá skuldastöðu í upphafi árs 2008 og fundin út aðferð til að leiðrétta skuldir einstaklinga, heimila og fyrirtækja í samræmi við það. Hvort að lagt er 2,5% eða 4,0% árlega ofan á skuldastöðuna þá eða einhver önnur aðferð notuð, skiptir kannski ekki megin máli. Hins vegar er út í hött að fara í leiðréttingar sem miða við að tjónið frá áramótum fram að hruni verið ekki bætt.

Það er út í hött að fjármálafyrirtæki sem voru þátttakendur í ruglinu (hvort heldur beint eða bara þáðu tekjurnar) eða voru stofnuð á rústum þeirra sem voru stærstu gerendurnir, fái að ráða hvernig leiðréttingin fari fram, hafi úrskurðarvald um líf og dauða fyrirtækja eða hvort fólk tapi eigum sínum, að ég tali nú ekki um, fái að hagnast um geðveikislegar háar upphæðir. 

Eftir að hafa lesið þessi harkalegu skoðanir Marinós undrast maður að ekkert skuli vera gert. Hversu illa stendur ekki þjóðfélagið af því að það er búið að hafa af tuguþúsundum manna eignir þeirra. Þetta fólk er margt hvert í þokkabót atvinnulaust. Fyrir vikið erum við að reka ríki þar sem stór hluti borgaranna eru tekjulausir, greiða enga skatta, hafa ekki efni á að taka þátt í innri gerð þjóðfélagsins, fjöldi fyrirtækja eru í eigu fjármálastofnana, önnur hafa fari á hausinn og víxlverkun þessa alls veldur enn frekara atvinnuleysi eða landflótta.

Þetta gengur ekki mikið lengur. Verið er að slátra borgurunum og forsætisráðherra fullyrðir að markmið ríkisstjórnarinnar sé allt annað en að lagfæra skuldastöðu heimilanna, heldur að koma þjóðinni i ESB. Þar sé henni borgið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband