Enginn sækir orðstí sinn til dómstóla
22.12.2011 | 13:00
Ég vil reyndar beina þessu til allra þeirra sem nú um stundir sveifla um sig ryðguðum atgeirum meiðyrðalöggjafarinnar.
Þá atgeira á aðeins að brúka þegar allt um þrýtur, ef menn kunna ENGIN önnur ráð sér til varnar.
En alls ekki annars.
Hvað oft á ég að segja það: Það sækir enginn orðstír sinn til dómstólanna!
Ég les oft pistla sem gamall skólabróðir minn úr MR skrifar á Eyjunni. Illuga Jökulssyni mælist oft skynsamlega. Þess á milli er ég ekki alltaf sammála honum en það gerir ekkert til, þannig er lífið.
Ýmsir þekktir menn geta verið umtalaðir og stundum ekki alltaf á þann hátt sem þeim líkar. Þá er hætt við að stutt sé í móðgunartaugina. Stirðleikinn kann svo oft að vera slíkur að lögfræðingi er sigað á einhvern lausmálgann og hann krafinn um fébætur til að milda sárasta sviðann. Og fyrir kemur að umkomulausir blaðamenn, bloggarar eða aðrir tölugir skrattar þurfa að punga út offjá fyrir tungutak sitt.
Við slíkar aðstæður vakna tvær spurningar. Sú fyrri varðar það sem sumir kalla sjálfsagðan rétt, það er að tjá sig á þann þátt sem hverjum og einum hentar. Hitt varðar þann sem finnur til sviðans og getur vart á sér heilum tekið fyrr en einhverjir aurar eru komnir í budduna. Hvað hið fyrrnefnda varðar er réttur oft tvíeggja sverð, ógætileg ummæli hitta gjarnan þann sem sem viðhefur þau ekki síður en þann sem fyrir þeim lendir. Og þá sannast sem forðum var sagt að sjaldan verður hönd höggi fegin.
Um leið og fullyrt að að meðalhófið sé oft vandfundið fyrir þann sem þarf að tjá sig svo eftir sé tekið skal hitt líka staðhæft að enginns sækir orðstír sinn til dómstóla. Orðstír verður til á allt öðrum vettvangi.
Oft er betra að þola sviðann og um leið ættu menn að reyna að rata skynsamlega um meðalhóf tjáningarinnar. Á svipaðan hátt og Illugi Jökulsson gerir vil ég benda á að alltof oft er látið vaða á súðum í bloggi, viðtölum og greinaskrifum. Engum er sæmd af því að vera kallaður strigakjaftur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.