Þjóðfélaginu blæðir linnulaust vegna innlánsstofnana í slitameðferð
14.12.2011 | 11:56
Hvað gerir einstaklingur sem á í vandræðum þegar afborganir og vextir vegna eru orðnar hærri en svo að hann ráði við þær? Jú, hann reynir að semja við kröfuhafa, fá skuldirnar lækkaðar eða dreifa þeim á lengri tíma svo mánaðarlegar afborganir verði viðráðanlegri.
Ríkissjóður Íslands áætlar að greiða 78,4 milljarða króna á næsta ári í fjármagnskostnað, stærsti hlutinn er vegna afleiðinga efnahagshrunsins.
Skuldir ríkissjóð eru núna 1.406 milljarðar króna, 475 milljörðum hærri en árið 2008 og nærri 1.100 milljörðum hærri en 2007.
Semja um skuldir ríkissjóðs
Þór Saari, þingmaður, hefur hvatt til þess að semja eigi við eigendur þeirra skulda að fresta þeim vaxtagreiðslum, eða hluta þeirra, um einhvern tíma, á meðan við komumst upp úr hruninu. Þá sé hægt að sleppa niðurskurði í heilbrigðis- og menntamálum. Þetta er skynsamlega mælt hjá honum.
Losna við hrunbankanna
Marinó G. Njálsson bendir á í dag í pistli á bloggi sínu að þó vöruskiptajöfnuður hafi verið jákvæður um 427 milljarða króna frá hruni styrki það ekki krónuna. Ástæðan er einfaldlega sú að hann er aðeins hluti af viðskiptajöfnuði sem hefur á sama tíma verið neikvæður um 411 milljarða króna. Hann segir:
Þegar tölur Seðlabankans eru skoðaðar nánar, þá kemur í ljós að þjóðfélaginu blæðir linnulaust vegna innlánsstofnana í slitameðferð. Þannig hafa þáttatekjur vegna þeirra frá hruni verið neikvæðar um 434,8 ma.kr. á móti 409,3 ma.kr. vegna annarra þátta. Værum við laus við hrunbankana, þá væri viðskiptajöfnuður á þessu tímabili jákvæður um 24,1 ma.kr. Svo sem engin stór upphæð, en samt jákvæð tala.
[...] Vandinn er því tvíþættur. Annars vegar er það eyðsla um efni fram í gegn um tíðina og síðan er það lántökur og vaxtagreiðslur af þeim. Undanfarin fjögur ár hafa vaxtagreiðslurnar bitið harkalega og er lífsnauðsynlegt að losna við stærsta hlutann af þeim sem fyrst. Glíman við það er einfaldlega mikilvægasta viðfangsefni stjórnvalda og Seðlabanka um þessar mundir.
Auka innanlandsframleiðslu
Marinó heldur því fram að miðað við ofangreindar tölur þá sé eðlilegt að krónan styrkist ekki enda engin innistæða fyrir styrkingu. Hann fullyrðir að mikilvægast verkefni stjórnvalda og Seðlabanka sé að losna við stærsta hluta vaxtagreiðslna.
Lykillinn að endurreisninni, ekki bara hér á landi, heldur á Vesturlöndum líka, er að hvert land um sig auki innanlandsframleiðslu til að draga úr innflutningi eða svo útflutningur geti aukist til að vega upp á móti nauðsynlegum innflutningi.
Þetta er nú nákvæmlega það sem margir hafa sagt og því gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að stefnu hennar í skattamálum. Í stað þess að fjölga skattgreiðendum, fyrirtækjum og einstaklingum, með hvetjandi aðgerðum, eru þeir skattlagðir nær því í gröfina.
Réttur hrunbankanna
Marinó spyr mjög spurningar sem gerist mjög áleitin eftir því sem maður veltir henni meira fyrir sér. Og hann svarar um leið:
Er það rétt nýting á þeim gjaldeyri sem kemur inn í landið, að nota hluta hans til að greiða vexti vegna fjármálafyrirtækja í slitameðferð? Er bara yfirhöfuð rétt að nota eitt einasta sent eða penní vegna innlendra eigna erlendra aðila meðan staðan er svona erfið?
[...] Ennþá fáranlegri er sá hluti samnings Steingríms J. við kröfuhafa bankanna, að þeir eigi rétt á allt að 320 ma.kr. viðbótargreiðslu frá hrunbönkunum vegna betri innheimtu. Þetta er sáraeinfalt: Við höfum ekki efni á því að láta þann gjaldeyri af hendi. Mér er bara alveg sama hvað erlendir kröfuhafa hafa tapað miklu, meðan gjaldeyristekjur þjóðarbúsins standa ekki undir eftirspurn eftir gjaldeyri, þá er það hreint og beint brjálæði að auka við eftirspurnina á þennan hátt.
Semjum aða ákveðum einhliða
Staðan er sú að ríkissjóður á í stórkostlegum erfiðleikum. Við þær aðstæður er afskaplega ósanngjarnt að skattleggja og skera um leið niður ríkisútgjöld með öllum þeim vandræðum sem hvort tveggja hefur í för með sér.
Skynsamlegra er að semja um skuldir og vexti, niðurfellingu og frestun. Ef í hart fer taka einhliða ákvarðanir. Við þurfum að tóra til að geta greitt. út á þetta gengur hin eiginlega pólitík. Það geta nær allir þóst vera að stjórna og gera svo ekkert annað en það sem virðist vera gáfulegt en er svo allri þjóðinni til óþurftar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.