Er Katla í austurhlíðum Mýrdalsjökuls?

aa kötlumyndavél

Ríkisútvarpið segir frá því að stofnunin hafi fengið tölvupóst utan úr heimi vegna ljósagangs „undir rótum Mýrdalsjökuls“. Spurst var „hvort hraun væri byrjað að renna niður hlíðarnar og að Katla væri byrjuð að gjósa.“

Ástæðan fyrir ljósaganginum var þó aðeins sú að þar voru kvikmyndagerðarmenn að vinna við tökur á sjónvarpsröðinni „Games of Thrones“.

Mér þykir nú frekar undarlegt að orða fréttina svo að ljósagangurinn væri „undir rótum Mýrdalsjökuls“.

Matthías Jochumsson spurði einhvern tímann Árna Pálsson í hálkæringi hvort hann vissi hversu þung Esjan væri. Árni svaraði snubbótt að Matthías ætti nú að vita það, hann byggi undir henni! Matthías var þá prestur á Kjalarnesi.

Líklega hefði ástandið á Matthíasi verið verra hefði hann búið undir rótum fjallsins.

Menn geta vissulega búið undir fjalli en varla undir rótum fjalls. Þó hafa flestir komið að rótum Esjunnar og fjölmargir gengið upp.

Auðvitað kíkti ég á vefmyndavél Ríkisútvarpsins sem er uppi á Háfelli, fjalli skammt norðan við brúna yfir Höfðabrekkukvísl. Þar mátti greinilega sjá ljósglampa á Höfðabrekkuheiði og raunar allt upp að jökli.

Undir myndinni er hrúga af texta sem saminn er af greinilegum ókunnugleika. Þar er ein landfræðileg villa sem gengur ekki upp og kemur eins og þruma úr heiðskírum læk, ef svo má að orði komast:

Fyrir nokkrum árum var þar komið fyrir myndavél til að vakta eldfjallið Kötlu sem er í austurhlíðum Mýrdalsjökuls í um 23 km fjarlægð og sést afar vel frá Háfelli. [...] en jökulhlaup sem fylgja Kötlugosum geta fallið hvort heldur niður á Mýrdalssand, Sólheimasand, eða í Emstrur og niður á Markarfljótsaurar.

Hvernig skyldi nú allt þetta geta komið heim og saman, svona landfræðilega séð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband