Lélegur texti í auglýsingum Arion banka
7.12.2011 | 18:23
Arion banki eyðir peningum í ímyndar- og vöruauglýsingar rétt eins og önnur fyrirtæki. Þó er eins og enginn innan bankans hafi vit á auglýsingum eða auglýsingagerð og láti allt vaða sem lookar þokkalega - og svo er offjár pungað út fyrir lélega vöru.
Rakst í dag á auglýsingar bankans á blaðsíðum fimm og sex í Fréttablaðinu í dag. Með þeim reynir auglýsingastofan að fleyta bankanum áfram með fallegum landslagsmyndum. Ekki tekst betur til en svo að þokkalegar myndir eru eyðilagðar með ljótu skilti sem tekur yfir nær helming plássins.
Textinn er er hins vegar afspyrnu illa skrifaður og af nær engri þekkingu. Höfundurinn veit ekkert um nástöðu orða. Hann hefur engan skilning á upplýsingagjöf. Hvort tveggja eyðileggur eiginlega öll áhrif auglýsingarinnar, hún snýst í andhverfu sína. Í auglýsingunni blaðsíðu fimm stendur eftirfarandi:
Veiðivötn eru vatnaklasi á Landmannaafrétti, sem samanstendur af allt að fimmtíu vötnum, bæði smáum og stórum. Vötnin eru mörg sprengigígar sem mynduðust í Veiðivatnagosinu árið 1477. Mikil urriðaveiði er í vötnunum en einnig hefur bleikju fjölgað síðustu árin, sérstaklega í þeim vötnum sem eiga samgang við Tungnaá.
Ég leyfði mér að lita nokkur orð. Held að flestir átti sig á því að rauðu orðin eiga við nástöðu en þau blálituðu eru annað hvort barnaleg samsuða eða bull. ... vatnaklasi ... sem samanstendur af ..., Vötnin eru mörg sprengigígar .... Þvílíkt rugl.
Önnur auglýsing eftir sama aðila birtist á blaðsíðu sex og í henni er þessi texti:
Þingvallavatn er stærsta náttúrulega stöðuvatn Íslands og er 83,7 km2 að flatarmáli. Þar sem Þingvallavatn er dýpst er það 114 m og er dýpsti punkturinn u.þ.b. 13m undir sjávarmáli.Vatnið er hið fjórða dýpsta á landinu. Mest af vatninu kemur beint úr uppsprettum og því er aðeins lítill hluti þess úr ám. Þó renna árnar Villingavatnsá, Ölfusvatnsá og Öxará í Þingvallavatn. Úr vatninu rennur Sogið en það er stærsta lindá á Íslandi.
Höfundurinn heldur sig enn við sama heygarðshornið og tönglast á sömu orðunum sí og æ rétt eins og ekki sé neinum ljóst að verið er að fjalla um Þingvallavatn, lesandinn geri sér ekki grein fyrir því að Villingavatnsá er á og Þingvallavatn er vatn.
Það er hins vegar rangt að Þingvallavatn sé náttúrlegt stöðuvatn. Árið 1959 var útfallið stíflað og við það hækkaði vatnsborðið og nú hæð þess stjórnað með hliðsjón af þörfum virkjunar við Úlfljótsvatn.
Og þó Þingvallavatn sé djúpt og nái ef til vill þrettán metra undir sjávarmál er að öllum líkindum ekki rétt að tala um að það eigi dýpstan punkt.
Ég ætla ekki að gagnrýna skiltið í auglýsingunum væri þó ef til vill ærin ástæða til. Arion banki ætti þó að skoða auglýsingamál sín, sérstaklega textagerðina. Hún er alltof mikið vandamál í íslenskum auglýsingum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:42 | Facebook
Athugasemdir
Sigurður, fyrri textinn virðist að mestu fenginn frá Wikipediu og er því hroðvirknislega unninn. Þar er vísað í Veiðivatnasíða Arnar Óskarssonar án þess að vinna efnið beint upp úr henni.
Raunar er hinn textinn líka fenginn af Wikipedia sem aftur hefur verið afritaður af nat.is með einhverjum breytingum. Finnst mér út í hött að menn séu svo latir við textagerð, að þeir geti ekki notað vandaðar íslenskar heimildir, en noti í staðinn stuttan vefsíðutexta. Ég er að vísu aðdáandi nat.is og nota þá síðu mikið til að ná í stutta lýsingu af stöðum á Íslandi, en fyrir nákvæmari lýsingar fer ég í betri rit.
Marinó G. Njálsson, 7.12.2011 kl. 19:16
Sæll Marinó og takk fyrir innlitið.
Veiðivatnasíða Arnars er ágæt ef ég man rétt. Hins vegar er ég enginn aðdáandi nat.is. Finnst hún frekar yfirborðskennd.
Hitt er þó aðalatriðið að stór banki láti svona texta leka út. Er virkilega enginn sem tekur ákvarðanir eða les yfir það sem kemur frá auglýsingastofunni? Þetta er hrikalegt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.12.2011 kl. 19:21
Ég tek undir margt af þessu hjá þér. Við í auglýsingabransanum athugum gjarnan hvort auglýsingar séu „stofumerktar“ og eftir að hafa rýnt í Fréttablaðið sé ég enga þannig merkingu á þeim sem þýðir að þetta gæti verið innanhússframleiðsla bankans. Það þarf þó ekki að vera. Hinsvegar held ég að fáir lesi náttúruskýringatextann nema þeir gallhörðustu, enda er hann mjög smár og illlæsilegur þarna ofaná myndunum. En það breytir þó ekki því að hann þarf að vera á góðu máli.
Emil Hannes Valgeirsson, 7.12.2011 kl. 20:44
Verð að bæta við: Ertu að fá góða ávöxtun?
Einhverntíma hefði dugað að spyrja: Færðu góða ávöxtun?
Emil Hannes Valgeirsson, 7.12.2011 kl. 20:49
Ég hafði ekki geð í mér til að brjóta auglýsinguna meira í frumeindirnar. Tek hins vegar undir þetta síðasta hjá þér Emil.
Svo er það hitt að ég hnýt alltaf um það þegar lesandi er ávarpaður í annarri persónu, tek það sjaldnast til mín. Fékk bágt fyrir svona hjá Ólafi Oddssyni í MR í gamla daga. Veit að þetta er orðið mjög algengt en finnst það svona heldur ódýr leið til að koma boðskap áleiðis.
Sumir hefðu bara haft uppsláttinn stuðlaðan: Góð ávöxtun í Arion ...
En þegar nánar er að gáð eru auglýsingarnar mjög illa upp settar. Ekkert jafnvægi í þeim og skiltið skyggir á myndirnar sem ef til vill var ætlað að grípa athyglina.
Les daglöðin oftast í pdf og kannski þess vegna var greip augað fljótt textann þarna vinstra megin. Hvað sem öllu líður held ég að þessar auglýsingar hafi verið tóm vitleysa hjá Arion.
Skarplega athugað hjá Marinó að átta sig á að textinn var úr Wikipediu.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.12.2011 kl. 21:03
Mín tillaga fyrir neðan litríku textana:
Veiðivötn eru fimmtíuvatnaklasi á Landmannaafrétti. Mörg eru í sprengigígum sem mynduðust í Veiðivatnagosi árið 1477. Urriðaveiði er góð ásamt stækkandi blekjustofni í vötnum sem tengjast Tungnaá.
Benedikt Halldórsson, 8.12.2011 kl. 02:34
Takk fyrir innlitið, Benedikt. Snyrtilega gert.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.12.2011 kl. 08:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.