Þrotabúið borgar, ekki þjóðin!
7.12.2011 | 17:17
Við erum ekki að borga! Íslenska þjóðin greiðir ekki krónu! Enda skuldar hún engum fyrir hrakleg ævintýri íslenskra bankamanna.
Ríkisstjórn vildi hins vegar borga og þar með talinn Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. Staðreyndin er einfaldlega sú að þjóðin hafnaði því í tvígang að ábyrgjast eða greiða skuldir óreiðumanna hinna hrundu íslensku banka.
Nú greiðir þrotabú Landsbankans gamla fjögur hundruð þrjátíu og tvo milljarða króna. Munum að peningarnir koma ekki úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Þetta eru restirnar af eignum gamla Landsbankans.
Og svo leyfir Árni Páll sér að skríða upp á dekk og persónugera ríkisstjórnina fyrir þessum viðburði, rétt eins og hún hafi skrifað út tékkann. Það eru slík endaskipti á sannleikanum að engu tali tekur.
Ég skora á lesendur þessara orða að muna eftir því er þjóðin rasskellti ríkisstjórnina og gerði að engu fyrirætlanir hennar um að láta alla Íslendinga ábyrgjast Icesave. Árna Pál ætti að logsvíða enn í afturendann en hann ber sig karlmannlega, þykist ekkert muna og vonar að þjóðin hafi fyrirgefið sér.
Og munum einnig, að þó nú sé verið að greiða forgangskröfuhöfum gamla Landsbankans verða aðrar hrikalegar skuldir sama banka aldrei greiddar. Fyrir því virðist ekki vera til nokkur króna, nema því aðeins að Árni Páll telji að við eigum að borga þá skuld líka ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:21 | Facebook
Athugasemdir
Aðalatriðið var að festa ekki það fordæmi að ríkið bæri ótakmarkaða ábyrgð á einkarekstri og glæpastarfsemi.
Það var prinsipp sem varð að verja og við áttum heimtingu á að fá réttarúrskurð um. Það átti ekki að leyfa það, svo þar var enn eitt prinsipp, sem engin leið var að fallast á að brotið yrði.
Þó svo að Ladsbankinn ætti ekki krónu upp í kröfurnar, þá vorum við ekki abyrg fyrir þeim. Engin þjóð hefði látið sér detta í hug að festa slíkt fordæmi. Það er bara hundaheppni fyrir kröfuhafa að þrotabúið hefur getað nurlað saman fyrir þessu.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.12.2011 kl. 18:33
Ástæðan fyrir að bretar og hollendingar vildu kúga út greiðslurnar var að þeir vildu ekki dómsúrskurð, sem þeir hefðu þá sjálfir þurft að hlýta. Ábyrgð á bönkum er eitthvað sem engin þjóð ræður við. Bretr gátu ekki ábyrgst meira en einn meðalstóran banka sjálfir. Stærð bankakerfisins er stærra en nokkur þjóð ræður við. Kúgunartilburðir ESB og AGS snerust um það að hrella okkur til að samþykkja ólöglega ábyrgð svo komist yrði hjá því að taka áhættu á því að dómurinn festi slíkt í sessi. Ef svo hefði orðið væri Evrópa nu þegar rjúkandi rúst.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.12.2011 kl. 18:38
Auðvitað var það bara tilviljun að gamli Landsbankinn átt allan þennan pening upp í forgangskröfurnar. Þó var gerð sú krafa til hans að hann væri „solvent“ en því var ekki sinnt.
Sú hugsun læðist að manni að Bretum og Hollendingum hefði ekki þótt sú niðurstaða góð að ríkissjóður væri ábyrgur fyrir innistæðum. Það myndi án efa leiða til mikilla hörmunga fyrir ríkissjóði margra landa enda þýðir það að óreiðumenn geti komist upp með verklag sitt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.12.2011 kl. 18:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.