Moggabloggið þarf að breytast
6.12.2011 | 16:54
Í nákvæmlega fimm ár hef ég nýtt mér bloggþjónustu Morgunblaðsins og kann þokkalega við mig. Miklu skiptir að vefútgáfa blaðsins er yfirleitt ágætlega skrifuð, þar koma að verki margir afbragðsgóðir blaðamenn og útlit og hönnunin tekur reglulega jákvæðum breytingum.
Eitt er þó það sem ekkert hefur breytst frá því 2006 og það er format bloggsins. Þá þegar var það stirt og óþægilegt í notkun og enn hefur ekkert breytst þrátt fyrir stórstígar, tæknilegar framfarir í tölvum og forritun. Því gerist ég afar þreyttur. Sérstaklega vegna þess hve þunglamalegt er að nota þetta kerfi, verst er þó hvað það er leiðinlegt.
Og hvað er svo sem að? Jú nefna má þetta:
- Grafískur hamur er ekki default, ekki það fyrsta sem upp kemur.Hef enga trú á því að margir noti HTML-ham. Ástæðan er fyrst og fremst sú að fólk vill sjá það sem það fær (What You See is What You Get).
- Ljósmyndir takmarkast við .jpg format. Ekkert val, engir kostir. Vinnslutíminn mynda er fáránlega langur.
- Meðhöndlun texta hefur ekki tekið neinum breytingum. Textastærð er ekki sjáanleg, nauðsynlegt er að prófa sig áfram til að finna þá réttu. Einungis er boðið upp á eina leturtegund.
- Drag and drop er ekki til, þ.e. ekki er hægt að draga texta eða myndir yfir í bloggið.
- Stjórnborðið er leiðinlega flókið, síst af öllu neytendavænt.
- Upplýsingar eru allar frekar faldar eða vantar.
- Og fleira má áreiðanlega draga upp.
Ég hef ekki hugmynd um hvernig staðan er hjá öðrum fjölmiðlum eða hjá öðrum aðilum sem bjóða bloggvistun. Það breytir því ekki að bloggformatið hjá Mogganum virðist vera frekar frumstætt. Af hverju er til dæmis ekki unnið að því að búa til hjálplegar tengingar? Nefna má tengingu við kort eða loftmyndir eins og Samsýn gerir fyrir ýmsa aðila, t.d. ja.is.
Sumir halda því fram að Mogginn hafi engan áhuga á blogginu, sé eiginlega að reyna að losa sig út úr því. Ég vona að það sé ekki rétt.
Staðreyndin er nefnilega sú að bloggpistlar geta verið gríðarlega upplýsandi. Í þjóðféalginu er fjöldi fólks sem hefur góða þekkingu á fjölmörgum málum og geta í bloggi sínu eflt fjölmiðlanna og styrkt. Þetta er að minnsta kosti ástæða til að uppfæra bloggformatið hjá Mogganum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alveg hjartanlega sammála þér. Þetta er mjög staðnað kerfi og hefur í raun lítið sem ekkert breyst. Að því sem ég best veit stendur ekki til að breyta þessu neitt.
En í raun fylgir þetta þeirri þróun sem átt hefur sér stað um allan heim - fólk er að fara af bloggsíðum yfir á samskiptasíður eins og Facebook, Twitter og Google+
Þannig kannski eru það bara við sem erum gamaldags og uppfærum okkur ekki :)
Eyjólfur Sturlaugsson, 6.12.2011 kl. 20:20
Gott að vita að ég er ekki einn um þessa skoðun, Eyjólfur. Má vera að ég sé gamaldags, en mér finnst þessar samskiptasíður ekki henta mér.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.12.2011 kl. 20:53
Ég veit ekki hvort þetta er því að kenna að þú notir Mac, sem þú dásamaðir hér fyrir stuttu.
Það er merkileg fullyrðing að fólk vilji ekki Html og vilja sjá allan texta i upprunalegu formati. Hef ekki orðið var við þetta.
Drag and drop virkar. Þú getur dregið myndir og texta af vefsíðum inn á bloggið. Ég dreg oft tilvitnanir af því bloggi sem ég er að gera athugasemdir við og set þær niður í athugasemdargluggann. Þú getur prófað þetta sjalfur.
Það er skiljanlegt að ekki sé hægt að draga af skjáborði yfir á athugasemdadálka myndir eða texta úr öðrum forritum. Þú getur þó gert það þegar þú ert að búa til færslur, án vandkvæða. Ég hef ekki orðið var við að það taki nema sekúndubrot að hlaða þessu inn.
Það getur tekið tíma að hlaða inn myndböndum beint, en það tekur alltaf tíma. T.d. tekur 2-3 tíma að hlaða inn 10 mín myndbandi á youtube. Til þess að komast hjá því að greiða fyrir myndbönd semhlaðast beint inn ráðlegg ég fólki að hlaða þeim fyrst inn á youtube og embedda þau svo inn á bloggið.
Restina skil ég ekki alveg. Hvaða tengingar við kort eða loftmyndir ertu að tala um og hvernig hugsar þú þér þann fídus?
Ég er ekki frá því að MBL bloggið hafi hvað opnasta og sveigjanlegasta umhverfið, sem er í boði hér á landi og get ekki kvartað. Má vel fera að mér skjöplist þar, en mér þætti gaman að heyra nánar hvaða takmarknir þú telur svona óviðunandi.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.12.2011 kl. 02:15
Mér finnst það svo undarlegur samanburður hjá eyjólfi að bera saman bloggumhverfi, Facebook og Twitter sem eitthvað sem á í samkeppni. Fecebook og Twitter eru gerólík consept og koma þessu máli lítið við.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.12.2011 kl. 02:18
Bestu þakkir fyrir innlitið, Jón Steinar.
Fyrir það fyrsta held ég að það sem Eyjólfur eigi við sé fyrst og fremst sú staðreynd að sumir nota ekki samskiptasíður, óháð því hvort viðkomandi bloggi, sé hugsanlega gamaldags viðhorf. Fjölmargir hafa horfið úr bloggi og nota Facebook eða Twitter, aðrir nota annað hvort þeirra eða hvort tveggja samhliða. Kannski það sé nútímalegt.
Já, ég er Makkamaður. Það kann að vera ástæðan fyrir því að sumt í Moggablogginu virkar ekki. Oft kemur fyrir að vefforrit eru þannig skrifuð að Makkinn á í erfiðleikum með að nota þau. Þekki það með vefi sem ég hef haft umsjón með. Í vissum tilvikum þurfti maður PC aðstoð til að framkvæma einfaldar aðgerðir. Þú fyrirgefur, en þannig vefforrit tel ég einfaldlega gölluð.
Ég þykist greina það stundum er fólk notar html formið í Moggablogginu. Merki það á því að þá kemur textinn hjá því í belg og biðu. Þetta gerist til dæmis oft hjá Haraldi Sigurðssyni, jarðeðlisfræðingi, og er lýti á annars frábæru bloggi hans. Held að hann afriti inn í bloggið sitt úr ritvinnsluforriti og við það hverfi til dæmis greinaskil. Persónulega finnst mér betra að nota grafíska og það segja mér margir. Hef ekki orðið var við hitt. Oft hef ég líka séð feitletrun í athugasemdum en það er ekki hægt á Makka.
Það sem virkar ekki hjá mér, og þá líklega á Makka, er eftirfarandi (hefði helst vilja telja þetta upp í tölusettri röð en það er ekki hægt í athugasemdum): Hlekkurinn, púkinn, afturkalla og endurkalla (undo og restore), skeyta úr Word er gallað (Word skipanir fylgja t.d. ekki, veit ekki hvort svo eigi að vera) og drag og drop virkar ekki. Held að þetta sé nú nóg til að geta fullyrt að Moggabloggið sé ekki næginlega opið eða sveigjanlegt. Síðan er það allt annað mál hvort það sé einungis fyrir PC tölvur og það sé óvart að Makkinn geti ekki notað það að öllu leyti. Þá erum við komin að spurningunni um þá þjónustu sem fyrirtækið býður notendum bloggsins og væntanlega má fullyrða í ljósi ofangreinds að hún sé ekki fullnægjandi.
Ítreka að sé allt þetta staðreynd hjá öðrum Makka notendum þá er bloggform Moggans einfaldlega gallað nema því aðeins að staðan sé sú að ekki sé ætlast til þess Makki sé notaður. Þá vantar einfaldlega leiðbeiningar um slíkt. Slík tel ég að muni frekar vera letjandi en hvetjandi fyrir fólk að nýta sér Moggabloggið.
Þetta er nú að verða heldur langt mál sem svar við athugasemd, raunar orðið að pistli. Gæti kannski reynt síðar að skýra út það sem upp á vantar.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.12.2011 kl. 10:02
þAð er vafalaust eitthvað til í þessu hjá þér. Það hafa þó verið tekin stór stökk í því að samhæfa þessar tvær gerðir stýrikerfa. Stundum þarf viðbætur til þess. Ég get opnað og unnið með flest makkatengt efni og skrár.
Ég hef þó tekið eftir einu sem þú nefnir, en það er að ritvinnslumöguleikar hverfi, eins og bold, italian letur tenglahnapur og broskallakerfi. Það er aftur á móti háð þeim vafrara sem notaður er. Ég nota mest firefox en ef ég nota Google Chrome, þá rekst ég á svipaðar takmarkanir og þú talar um.
Kannski er þetta bara vafraranum að kenna. Skelli því svona fram sem hugmynd. Þú notar væntanlega Safari eða GC.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.12.2011 kl. 11:51
Þú hefur val á milli html hams og grafísks hams í færsludálki. Ég nota html haminn þegar ég peista inn embed kóða af youtube en skipti svo yfir í grafískan þegar ég vista videóið. (annars birtist bara kóðinn.)
Jón Steinar Ragnarsson, 7.12.2011 kl. 11:59
Ef menn vista í Html ham, þá birtast allar skipanir um greinarmerki, bil og slíkt á forritunarmálinu og textinn verður bara ein kös. Það er sennilega dellan sem Jarðfræðinguinn gerir. Hann gleymir að skipta yfir í grafískan áður en hann vistar. Svona pæling.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.12.2011 kl. 12:05
Ég nota fyrst og fremst Safari. Það helgast af því að ég nota mikið „bookmarks“, safna ótrúlegum fjölda vefsíðna sem ég þarf á að halda eða mér finnst áhugaverðir. Best að hafa þá alla á einum stað. Safari er að auki ansi góður vafri. Stundum nota ég Firefox en sjaldan GC, hvort tveggja er þó mjög góðir vafrar. Minnir að sama sagan sé með þessa tvo vafra á Makkanum eins og Safari.
Skil þetta sem þú nefnir í næst síðustu athugasemd. Hvað varðar síðustu athugasemdina þá verður að taka þetta fram. Þegar þú skiptir úr html yfir í grafískt falla t.d. öll greinaskil niður og textinn verður allur samhangandi. Þá þarf notandinn að endurgera þau. Þetta er ástæðan fyrir því að mér finnst að grafískt eigi að vera „default“, fjölmargir skilja ekki html og kannski engin ástæða til.
Markmiðið með er að skrifa hugsun sína og tjá hana að auki með myndum og öðrum skreytingum sem hverjum og einum þykja nauðsynlegar. Þar af leiðandi er WYSIWYG afskaplega nauðsynlegt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.12.2011 kl. 12:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.