Stjórnmálafræðingar bulla bara
27.11.2011 | 20:50
Það veltur svolítið á honum sjálfum, sagði Gunnar Helgi þegar hann var spurður um stöðu Jóns Bjarnasonar. Hann er augljóslega í svolitlum vanda.
Hvað hafa stjórnmálafræðingar fram að færa sem öðru fólki er hulið? Mér er það að minnsta kosti hulin ráðgáta. Lögfræðingar túlka lögin, guðfræðingar trúmál, veðurfræðingar rannsaka veðurfar og svo má lengi telja. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði veit ekkert meira en við hin, segir veit bara svolítið. Og við það er látið sitja.
Stjórnmálafræðingar segja svo sem ekki neitt, veltast svona frá einu í annað án þess að leggja nokkuð fram - nema auðvitað að þér séu þátttakendur í henni. Þá vantar nú ekki skoðanirnar, sleggjudómanna og jafnvel rökin - og þá hallar jafnan á þá með andstæða skoðun.
Eru þeir yfirnáttúrlegir?
Stjórnmálafræðingar eru fráleitt yfirnáttúrulegir. Þeir hafa ekki neina yfirskilvitlega hæfileika frekar en við hin enda spegla þeir ábyggilega þversnið þjóðfélagsins. Engu að síður virðast stjórnmálafræðingar eiga að vera spámenn samtímans, að minnsta kosti ef trúa má fjölmiðlum.
Til eru þeir sem spá í stjörnumerki fólks rétt eins og það séu í þau ritað hver framtíðin sé. Þeir finnast einnig sem spá í spil, rýna í kindagarnir. Svo eru það einsetumennina sem sagðir voru sitja á fjallstoppum eða á öðrum afskekktum stöðum og mæla fram vísdómsorð. Þegar nánar er athugað hafa stjórnmálafræðinarnir engu betri sýn á framtíðina en aðrir, hvorki langt né skammt. Fátt er um vísdóminn en meira um almennt tal rétt eins og hjá okkur hinum.
Auðvitað hafa stjórnmálafræðingar þekkingu á sögunni og þróun stjórnmála til lengri eða skemmri tíma. Hins vegar eru þeir ekkert skyndamari eða betri í að ráða í samtímann heldur en hver sá sem hefur snefil af heilbrigðri skynsemi. Og ekki eru allir skynsamir eða draga rökréttar ályktanir af því sem fyrir þeim liggur. Það á ekki síður við um stjórnmálafræðinganna.
Ekkert bitastætt
Verra er þegar hafa álitsgjafar fjölmiðla hafa ekki neitt bitastætt fram að færa. Sýnu verst er þó að sumir þeirra eru vilhallir ákveðnum stjórnmálaflokkum í útskýringum sínum og níðast á öðrum. Og þetta geta oft verið stjórnmálafræðingar sem reyna að dylja skoðanir sínar á bak við fræðihjalið.
Þetta hefur gengisfellt álitsgjafanna en engu að síður sækja fjölmiðlarnir í þá. Margir þeirra teljast vissulega fræðimenn en eru bullandi vanhæfir til að veita hlutlaust álit vegna tengsla við stjórnmálaflokka. Breytir þá engu hversu fróðir þeir eru.
Þvílíkir fræðimenn eða ..
Hvers vegna leita þá fjölmiðlar í stjórnmálafræðinga til að fá skýringu á niðurstöðum kosninga til sveitarstjórnar á síðasta ári? Er eitthvað í menntun þeirra sem gerir þá betur færa um að skilja aðstæður? Það getur meira en vel verið en lítum á umsagnir nokkurra stjórnmálafræðinga um nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar.
Stefánía Óskarsdóttir í Morgunblaðinu 31. maí 2010:
... að ágreiningurinn innan VG sé það alvarlegur að það sé raunveruleg hætta á að flokkurinn klofni. ... Hún vill þó ekki spá því að þetta gerist, en segir að hættan á klofningi VG sé fyrir hendi. ... Nú sjá menn hversu fylgið geti verið hverfult og það sé spurning hversu mikinn tíma ríkisstsjórnin hafi til að koma stefnumálum sínum í framkvæmd.
Birgir Guðmundsson, dósent, í Morgunblaðinu 31. maí 2010:
... telur líklegt að úrslitin muni styrkja þau öfl innan VG sem gagnrýnt hafa stefnu ríkisstjórnarinnar. ... Frá því að kreppan reið yfir hafa stjórnmálin einkennst af viðbragðapólitík og hefðbundnu pólitísku þrasi. Þessu eru kjósendur að mótmæla. Enginn vafi er á að kosningaúrsliti eru mikið áfall fyrir fjórflokkinn, en það væri mikill barnaskapur að afskrifa hann. ... Haustið gæti orðið heitt.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í Rúv. 30. maí 2010:
... segir djarft að spá því að dagar fjórflokksins séu taldir. Fátítt sé að flokkar deyi, ... framtíð flokkanna og flokkakerfisins ráðist að miklu leyti af viðbrögðum þeirra við úrslitum kosninganna. Við höfum aldrei séð svona úrslit áður á Íslandi í nokkrum kosningum. Hann segir það vera náttúru stjórnmálaflokka að laga sig að breyttum aðstæðum.
Eiríkur Bergmann, doktor, dósent og forstöðumaður, í Pressupistli 2. júní 2010:
Fjórflokkurinn hagar sér eins og hrunið hafi aldrei átt sér stað. Hanna Birna heldur að hún sé drottning Reykjavíkur, Dagur brosir breitt og dreifir rósum, Sóley Tómasdóttir er upptekin við að endurskapa sjálfa sig og Einar Skúlason syndir yfir Nauthólsvíkina á meðan félagarnir góla; þú meinar Einar!
Hvar eru fræðin? Hvað leggja þeir til úr menntun sinni sem við hin höfum ekki þekkingu eða kunnáttu á? Í sannleika sagt eru þetta afar flatar skýringa ... BORING eins og krakkarnir eiga til að segja. Ekkert nýtt kemur fram í þeim umfram það sem þeir sem fylgjast með stjórnmálum vita nú þegar.
Svo hefur allt þetta sem þessir fjórfræðingar sögðu reynst vera hjal eitt. Stefanía getur sosum enn haldið því fram með réttu að VG sé að klofna. Birgir er ekki meiri fræðimaður en það að hann setur fjóra stjórnmálaflokka undir einn hatt og kallar fjórflokk. Ólafur segir að stjórnmálaflokkar lagi sig að breyttum aðstæðum - nema hvað. Og Eiríkur reynir að gera lítið úr fólki.
Þvílíkir fræðingar sem þetta fólk er eða hitt þó heldur.
Verið að sýna Jóni vantraust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í nær öllum tilvikum hafa mannvísindi miklu minni getu til að spá fyrir framgang atburða en raunvísindi. Sagnfræðingar eru fróðir um sögu, hagfræðingar um efnahagsmál og stjórnmálafræðingar um stjórnmál en engin af þessum greinum ræður yfir kenningum sem gera almennilega grein fyrir gangverkinu. Það lengsta sem þessar greinar komast í spádómum er að geta stundum gert tæmandi lista yfir mögulegar útkomur úr einhverri stöðu.
Er það ekki megin vitleysan að ætlast til þess að mannvísindamenn geti útskýrt sitt viðfangsefni með jafn snyrtilegum hætti og eðlisfræðingar geta oft? Athugaðu að atóm og fiseindir lesa ekki eðlisfræði.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 27.11.2011 kl. 21:15
Að öllum líkindum er þetta rétt hjá þér Hansi. Við það bætist að þessir stjórnmálafræðingar reyna og reyna og koma ekkert með betri tilgátur en venjulegt upplýst fólk. Væri ekki jafngott eða betra að kalla á menn eins og þig eða mig og láta okkur skýra út gangverkið? Við erum þó aðeins leikmenn og ekki úr háum söðli að detta. Hinir þykjast vera fræðimenn og engu virðist skipta hversu oft og mikið þeir bulla.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.11.2011 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.