Gýs vestan við Kötluöskjuna, ofan Þórsmerkur?
23.11.2011 | 12:04
Líklegasta skýringin á þessu er að Katla sé í raun og veru alltaf alveg á nipppinu að gjósa. þetta kom fram 1999, þá virðist hafa orðið smá gos af svipuðu tagi og þetta. Því fylgdi órói, líka breyting á skjálftavirkni og aukning á jarðhita næstu árin á eftir, segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Orð Páls vöktu athygli enda sjaldgæft að jarðfræðingar taki svo sterkt til orða að Katla sé eiginlega alltaf við það að gjósa ...
En það hefur gleymst að spyrja Pál um hvar gjósi í Mýrdalsjökli. Líklega er það mikið álitamál. Kötluaskjan er líkleg en þeir vita sem vilja að víða hefur gosið í jöklinum. Verði gos á næstunni er engin vissa fyrir því að það eigi upptök sín þar.
Myndin hér fyrir ofan er af skjálftakorti Veðrustofunnar fyrir Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökli og það sýnir upptök alla jarðskjálfta á þessu ári. Á miðjum Mýrdalsjökli eru dregnar útlínur Kötluöskjunnar. Innan hennar hafa orðið gríðarlega margir skjálftar. Athygli vekur þó að skjálftar utan hennar eru mjög margir og þá sérstaklega vestan hennar, á því svæði sem jarðfræðingar telja til Goðabungu. Það er mjó ræma á milli jöklanna og tekur yfir Mýrdalsjökul þar sem hann tekur að halla til vesturs.
Þarna sperrir maður augun. Jarðskjálftarsvermurinn nær að mestu leyti yfir Goðalandsjökul, þar með talinn Tungnakvíslajökul, Krossárjökul og Merkurjökul.
Verði eldgos á þessu svæði er allt önnur hlið uppi á tengingnum en gjósi í Kötluöskjunni. Þarna verður flóð niður Krossárdal og því munu fylgja gríðarlega skemmdir á Þórsmörk og Goðalandi og án efa gera það ónothæft til sem útivistarparadís næsta áratuginn.
Hvaða líkindi eru á að það gjósi á þessu svæði? Ég hef ekki grænan grun. Með því að skoða skjálftakort undanfarinna tuttugu ára, setja sér forsendur má hugsanlega draga líklegar ályktanir.
Gerum til dæmis ráð fyrir því að jarðskjálftar bendi til kvikuhreyfingar, því fleiri jarðskjálftar þeim mun meiri kvika sé á leið upp að yfirborði og fjöldi jarðskjálfta bendi til eldgoss ...
Séu þessar forsendur færðar yfir á Kötluöskjunnar eru allir sammála um að þar muni fara að gjósa.
Hitt fær minni athygli að eldgos gæti allt eins orðið vestan við öskjuna með jökulflóði niður Krossárdal og síðan í farveg flóðsins úr Eyjafjallajökli í fyrra, það er Markarfljótið.
Já, hvaða líkindi eru á gosi vestan við Kötluöskjuna? Hérna eru nokkur skjálftakort síðustu ára. Greinilegt aðSkjálftakort síðustu ára eiga aðeins eitt sameiginlegt og það er þéttur jarðskjálftasvermur vestan við Kötluöskjuna.
Skjálftakortin eru til frá árinu 1992 og ég skoðaði þau öll. Vissulega er það rétt sem fram kemur í viðtalinu við Pál Einarsson, jarðeðlisfræðing í Ríkissjónvarpinu, að skjálftavirknin í Mýrdalsjökli komi í hviðum. Hins vegar virðast hviðurnar vera svo til eingöngu í Kötluöskjunni. Vestan við hana er varla neitt lát á jarðskjálftum þó Katla sé róleg.
Síðasta kortið sem ég birti hér er frá árinu 1992. Þá voru ferleg læti undir Goðalandsjökli, fleiri jarðskjálftar þar en innan Kötluöskjunnar.
Aðdragandi eldgossins í Eyjafjallajökli var langur og merkilegur. Lengi vel virtust jarðskjálftar eiga uppruna sinn ofan við Steinsholtsjökul en skyndilega gaus á Fimmvörðuhálsi. Jarðfræðingar urðu jafn forviða og hagfræðingar yfir bankahruninu 2008. Ekki dró úr undrun jarðfræðinga er gosið á Hálsinu snérist í gos í toppgíg jökulsins.
Ljóst má því vera að enginn getur sagt fyrir um hvar gjósi í Mýrdalsjökli. Jökullinn er líklega ólíkindatól og sé við það að gjósa en ekkert gerist, rétt eins og Páll Einarsson segir.
Skjálftakortin er að finna á þessari slóð: http://hraun.vedur.is/ja/myr/myr_map.html#img.
Hér er mynd sem tekin er Morinsheiði og sýnir vesturhluta Mýrdalsjökuls.
Athugasemdir
Sigurður, ef þú skoðar fjölda skjálfta á mánuði, þá hefur Katla umtalsverða yfirburði. Mér sýnist kortin sem þú birtir gefa jafn rauða fleti hvort sem skjálftarnir eru taldir í tugum, hundruðum eða þúsundum.
Marinó G. Njálsson, 23.11.2011 kl. 14:34
Jú, Katla hefur mikla yfirburði. Ég hef nú ekki leitað eftir tölulegum staðreyndum, t.d. um fjölda skjálfta, styrkleika eða annað. Hins vegar verður að taka það með í reikninginn að þarna er safnað sama skjálftum sem verða á 365 dögum. Það segir ekkert um lotur eða hviður. Allt hlýtur smat að skipta máli. Hitt er þó borðliggjandi að skjálftavirknin vestan við Kötluöskjuna er mjög mikil. Einföld rökleiðsla leikmanns segir að þar geti allt eins orðið eldgos.
Skoðum til dæmis skjálftavirknina árið 2010 og þá á Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi annars vegar og þeirri á vesturhluta Mýrdalsjökuls, sjá kortið fyrir árið 2010. Ekki er langt á milli og því auðséð að tengslin hljóta að vera einhver.
En allt er þetta nú bara vangaveltur og sett fram til að reyna að skapa einhverja umræðu. Kannski hefur enginn áhuga á þessu nema „kverúlantar“ eins og við tveir.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.11.2011 kl. 14:46
Ef gosið kemur upp vestan við Kötluöskjuna og hlaup fer niður Krosárdalinn, má væntanlega afskrifa Landeyjahöfn.
Slíkt hlaup mun einnig hafa mikil áhrif á byggðina frá Fljótshílð og niður á Landeyjar.
Við sulum vona að gosið verðu frekar í öskjunni sjálfri, af tveim slæmium kostum er það öllu skárra.
Gunnar Heiðarsson, 23.11.2011 kl. 15:03
Sælir eins og ég hef sagt þá er það borðliggjandi að framundan á þessu svæði eru miklar hamfarir sama hvað við segjum.
Sigurður Haraldsson, 24.11.2011 kl. 00:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.