Verðtryggingin og skuldastaða heimila

Á nýafstöðum landfundi Sjálfstæðisflokksins lagði ég fram tvær ályktanir eða viðaukatillögur við drög að ályktun um fjármál heimilanna.

Tillögurnar eru ítarlega rökstuddar og í sannleika sagt ótrúlegt að þær skyldu ekki hafa fengist umsvifalaust samþykktar. Ekki voru þó allir á einu máli, alltaf þörf á málamiðlun þegar margar skoðanir koma fram. Við því er ekkert að segja, þannig er lífið.

Hér eru þær tvær áyktanir sem ég lagði fram og rökstuðningur þeirra:

Afnám verðtryggingar í áföngum

Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema verðtryggingu á húsnæðislánum heimilanna. Það skal gert í áföngum með því að setja þak á árlegar verðbætur sem miðast við 4% fyrir 2012 og 2013, 2% fyrir 2014 og 2015, en verðtrygging verði að fullu afnuminn frá og með 1. janúar 2016. 

Samhliða þessu verði sett hámark á vexti, þannig að samtala verðtryggingar og vaxta á lánum ætluðum til húsnæðiskaupa geti ekki verið hærri en 6%.

Rökstuðningur

Markmið með verðtrygginu Ólafslaga, nr. 13/1979, var að verja verðmæti sem fælust í launum, sparnaði og lánum. Með því var gætt að jafnvægi milli tekna fólks og fjárskuldbindinga, þ.e. að þeir sem væru með verðtryggðar fjárskuldbindingar væru jafnframt með verðtryggðar tekjur. 

Þetta eru sömu rök og notuð voru þegar gengistrygging var bönnuð að lögum með lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Þau rök voru, að eingöngu þeir sem hefðu tekjur í erlendri mynt ættu að geta tekið lán í erlendri mynt. Mikilvægt væri að tekjumynt væri sú sama og mynt fjárskuldbindingarinnar.

Verðtryggða krónan er í raun ígildi sérstakrar myntar. Síðan Ólafslögin tóku gildi hefur hún haldið fullu verðgildi sínu gagnvart flestum viðmiðunargjaldmiðlum og raunar gott betur. 

Af öllum helstu viðskiptagjaldmiðlum þjóðarinnar (þróun evrunnar er tengd við þróun vestur-þýska marksins) er eingöngu svissneski frankinn og japanska jenið eru sterkari í dag gagnvart verðtryggðu íslensku krónunni, en þessi gjaldmiðlar voru árið 1979. Hafi 10.000 gamlar krónur verið hafðar á vaxtalausum verðtryggðum reikning frá 1. janúar 1980, væri verðmæti þeirra núna 5.446 nýjar krónur, þ.e. hefðu margfaldast 54,46 falt. Vissulega hafa laun haldið að mestu í við þessa þróun, en launabreytingar hafa alltaf komið talsvert á eftir.

Verðtrygging fjárskuldbindinga hefur haft veruleg hamlandi áhrif á þau tæki sem Seðlabanki Íslands hefur til peningastjórnar. Raunar má segja að þau hafi verið gerð ónýt. Erfitt hefur verið fyrir Seðlabanka og stjórnvöld að grípa til efnahagsaðgerða án þess að þær leituðu út í verðlag og þar með inn í verðbætur lána. Aðgerð sem átti að draga úr peningamagni í umferð endaði því óvart í því að þetta peningamagn jókst, þar sem hækkun höfuðstóls lána heimila og fyrirtækja leiddi beint af sér meira peningamagn í umferð.

Ekki er hægt að sjá annað af greinargerð með Ólafslögum en að menn hafi hugsað verðtrygginguna sem tímabundið úrræði meðan óstöðugleiki varði. 

Undanfarin 20 ár hefur efnahagsástandið verið allt annað en á árunum fyrir setningu Ólafslaga. Á árunum 1970 til 1980 var algengt að ársverðbólga væri um og yfir 50%. Síðustu 20 ár hefur ársverðbólga aðeins einu sinni farið yfir 10% og það var árið 2008. Á móti koma 11 ár þar sem verðbólga er um og undir 4%. Meðalverðbólga síðustu 20 ára er 4,61%, en sé árinu 2008 sleppt úr, þá reynist hún 3,87%. Engin rök eru fyrir því að halda í verðtryggingu við slíkar aðstæður, þó svo að eitt ár skeri sig úr.

Sigurður Sigurðarson


Skuldamál heimilanna

Sjálfstæðisflokkurinn vill að strax skuli gripið til róttækra aðgerða til að létta á skuldabyrði einstaklinga og heimilanna. Það verði gert með því að framfylgja ákvæðum laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrisshrunsins. 

Í lögunum er lögð áhersla á að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu og hámarka gagnkvæman ávinning beggja samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur. 

Einnig skuli tryggt með lögum að nýju bankarnir láti heimilin njóta að fullu þess afsláttar sem þeir fengu við yfirfærslu lánasafna heimilanna frá gömlu bönkunum.

Rökstuðningur

Markmið laga nr. 107/2009, sem Alþingi samþykkti í október 2009, var eftirfarandi:

 „... að hraða endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins haustið 2008 og að jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar.“  

Til að ná þessum markmiðum segir í lögunum: 

„Í samningi milli kröfuhafa og skuldara um eftirgjöf skulda eða breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga skal fyrst og fremst horft til þess að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis. Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.“  

Hvorki hefur tekist að ná markmiðum laganna né að laga skuldir að greiðslugetu. Þess í stað hafa var heimilunum ætlað að bera skuldir sem þau stofnuðu að stórum hluta ekki til.

Skuldastaðan heimilanna versnaði vegna kerfisbundinna verðbreytinga lána þar sem fjármálastofnanna hirtu beinlínis það eigið fé sem bundið var í íbúðarhúsnæði og rúmlega það. Stjórnvöld stóðu aldrei aðgerðarlaus hjá því þau studdu beint og óbeint eigendur lána á kostnað skuldara.

Úrræði sem bankarnir hafa boðið upp á hafa yfirleitt miðað að því að hámarka endurheimtur bankanna á skuldum sem stökkbreyttust vegna athafna gömlu bankanna í aðdraganda hrunsins. Það kemur hins vegar ekki á óvart því ljóst er hverjir eru eigendur þeirra.

Sigurður Sigurðarson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, ótrúlegt að þær hafi ekki verið samþykktar.  Takk fyrir viðleitnina.

Marinó G. Njálsson, 21.11.2011 kl. 13:13

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir viðleitnina.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.11.2011 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband