Ályktun Sjálfstæðisflokksins um skuldir heimilanna

Ég hef sótt marga landsfundi Sjálfstæðisflokksins, varla misst fleiri en tvo eða þrjá úr frá því ég fékk aldur til að taka átt í starfi flokksins.

Þessi síðasti fundur er án ef með þeim bestu. Hann var að mestu vel skipulagður, málefnalegur, mikið bar á ungu fólki, stjórnmálamenn reyndu ekki að taka fundinn yfir og síðst en ekki síst var andrúmsloft fundarins reglulega skemmtilegt.

Fjármál heimilanna 

Persónulega var ég mjög ánægður með niðurstöðu nefndar um fjármál heimilanna. Ég bjóst þar við mjög erfiðum fundi. Makmið mitt var að fundurinn fordæmdi verðtryggingu húsnæðislána og legði áherslu á að leiðrétta upptöku á eigin fé íbúðareigenda í kjölfar hrunsins.

Ég var ekki ánægður drög að ályktun fundarins. Í henni var þessi ómögulega 110% regla sem fyrir löngu hefur reynst gagnslaus. Verðtryggingin var ekki nefnd og fleira má nefna. Hins vegar voru nokkur góð atriði inni í drögunum og sérstaklur kafli sem nefndist „úrvinnsla skulda heimilanna eftir hrun“.

Ég ræddi við fjölda fólks fyrir fundinn og fékk margvíslegar útleggingar á því hvað ætti að gera. Það endaði svo með því að góður maður aðstoðaði mig við að gera ítarlega rökstudda ályktanir um afnám verðtryggingar og skuldamál heimilanna. Ég mun birta þessar tvær ályktanir í öðrum pistli á þessum vettvangi. 

Öflugir baráttumenn gegn verðtryggingunni

Mér kom mikið á óvart að í nefndarstarfinu komu margir öflugir baráttumenn fyrir afnámi verðtryggingarinnar. Þeir sem þar fóru fremstir voru Jón Magnússon, Ólafur Arnarson og ekki síst séra Halldór Gunnarsson í Holti, hjartahlýr og heiðarlegur baráttumaður fyrir réttlæti. Fundinum stjórnaði Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður. Hann þekkti ég lítið fyrir en ég vil hrósa honum fyrir afskaplega góða og málefnalega fundrastjórn. Átti hann þó við mikla nagla að etja á báða bóga.

Fylgismenn verðtryggingarinnar 

Auðvitað voru margir á móti afnámi verðtryggingarinnar og sumir færðu góð rök gegn henni. Þarna stóðu líka upp alþingismennirnir Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur Blöndal og vöruðu eindregið við afnámi hennar sem og flestum aðgerðum til að lagfæra skuldastöðu heimilanna. Hvaðan á að taka peninganna? spurðu þeir eðlilega. Þetta bitnar allt á lífeyrissjóðunum og endanlega á ríkissjóði og almenningi.

Pétur sagði að vandinn væri ekki verðtryggingin heldur hagstjórnin í landinu. Tryggvi fullyrti að væri verðtryggingin afnumin myndi það kosta í kringum 300 milljarða króna og að stærstum hluta yrði það högg á Íbúðalánasjóð. Þeir voru báðir á þeirri skoðun að ekki væri lengur mögulegt að láta þann afslátt sem nýju bankarnir fengu ganga til lækkunar á íbúðarlánum. 

Þeir gátu þó ekki svarað þeirri spurningu hverjir hefðu hagnast á verðtryggingunni frá hruni. Við viljum þó hjálpa „þessu fólki“ sögðu fylgismenn verðtryggingarinnar af og til. Ég fékk það á tilfinninguna að þeir sem þetta segðu væru með allt sitt á þurru og skildu ekki stöðu almennings. Hafði greinilega ekkert samband haft við „þetta fólk“. 

Skilaboð landsfundarins 

Ég spurði fundinn hvort hann ætlaði virkilega að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki með skoðun á verðtryggingunni. Eiga að gilda hér tvær krónur, önnur verðtryggð til notkunar fyrir fjármálastofnanir og hin óverðtryggð fyrir almenning.

Ólafur Arnarson fullyrti að verðtrygging lána væru eiginlega ekkert annað en útfærsla á afleiðusamninginum, sumir hafa allt sitt á hreinu vegna verðtrygginarinnar, þar með taldir lífeyrissjóðirnir. Jón Magnússon skóf ekki af því heldur krafðist afnáms verðtryggingar og algjörrar niðurfæslu stökkbreyttra höfuðstóla eins og þeir voru 1. október 2008.

Ég fullyrði að 60 til 70% 200 fundarmanna voru á móti verðtryggingu og fylgjandi ofangreindum viðhorfum.

Niðurstaða fundar þar sem er fólk með ólíkar skoðanir verður þó alltaf málamiðlun. Ég er tiltölulega sáttur við niðurstöðuna. Held að þarna sé komið vopn sem nýst getur almenningi svo fremi sem stjórnmálamennirnir noti það á Alþingi.

Ályktun landsfundarins um fjármál heimilanna hefst á kafla um skuldir heimilanna. Í því felst mjög ákveðin yfirlýsing og krafa um að lögð verði megináhersla á að leiðrétta þann vanda sem stærstur hluti heimila í landinu á í vegna eignaupptöku, þessu fé verði skilað aftur. 

Úrvinnsla skulda heimilanna eftir hrun

Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða lög nr. 151/2010 sem ríkisstjórnin setti í kjölfar ólöglegu gengislánanna. Lagasetningin hefur aukið á óvissu, kallað á málaferli og skaðað stöðu lánþega.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að dómsmálum er varða lánasamninga verði hraðað eins og kostur er. Sjálfstæðisflokkurinn vill að lánþegum verði veitt skjól gegn vörslusviptingum á meðan dómsmál um lánasamninga eru ekki til lykta leidd. Óþolandi er að gengið sé að eigum fólks meðan að jafn mikil lagaleg óvissa er uppi og raun ber vitni.

Sjálfstæðisflokkurinn vill færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána. Þessi aðgerð og önnur endurskipulagning skulda heimilanna er forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags.

Aðgerðir til lausnar skulda einstaklinga eiga að vera almennar en ekki það sértækar að leiði til mismununar borgaranna og brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að upplýsa um efni samninga sem ríkisstjórnin gerði við yfirfærslu á eignum á milli gömlu og nýju bankanna. Án þeirra upplýsinga er erfitt að fjalla um skuldamál heimilanna með málefnalegum hætti.

Sjálfstæðisflokkurinn vill auka möguleika skuldara til þess að vinna sig út úr fjárhagserfiðleikum án þess að til gjaldþrots komi, m.a. með því að heimilt verði að afsala fasteign til lánveitanda svo forðast megi gjaldþrot. Úrræðið gildi tímabundið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá er nauðsynlegt að löggjöfin torveldi ekki þeim sem verða gjaldþrota að hefja aftur eignamyndun. Tryggja þarf að afskrifaðar skuldir einstaklinga myndi ekki stofn til álagningar tekjuskatts. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

þá vitum við það að landsfundurinn var ekki á því að afnema verðtrygginguna þrátt fyrir að 80 % landsmanna vilji hana af skv skoðannakönnun.Stöðug umhyggja fyrir lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum. Og alltaf vísað í það sama; Það er ekki verðtryggingin sem er vandamálið heldur verðbólgan.Þetta er tóm vitleysa. Verðbólgan er öryggisventill fyrir óráðsíu og agavöntun í hagstjórn. Hún bitnar á almenningi  í formi okurlána en fjármagnseigendur halda sínu. En bestu þakkir til ykkar í nefndinni sem urðu þó undir.

Sigurður Ingólfsson, 21.11.2011 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband