Heilbrigt hreyfingarleysi gegn útivistarslysum,

DSC_0283

Alveg er það ótrúlegt hversu margir finna hjá sér þörf til að vera útivið, erindið er ekki aðeins að ganga á milli húsa heldur dvelja undir beru lofti í langan tíma. Til hvers í ósköpunum stundar fólk þessa vitleysu? Vita menn ekki að því fleiri sem fara út í gönguferðir, fjallgöngur, skíðaferðir, hestaferðir, köfun, vélsleðaferðir, hlaup og þess háttar rugl, þeim mun fleiri meiða sig.

Skoðum efstu myndina. Hún er tekin við Dyrfjöll. Þarna er göngufólk á ferð í glæfralegum aðstæðum. Takið eftir snjónum sem er hrottalega ógnandi sem og gatið í fjallinu.

DSC_0108, Gengi› á H#58A695

Næsta mynd er tekin á Hvalfelli. Þar er stelpuskjáta á leið upp fjallið. Botnsvogur, Þyrilsnes, Hvalfjörður og Akrafjall í baksýn. Á þessum slóðum leynast hættur við hvert fótmál og undarlegt til þess að hugsa að einhver fari þarna um á stuttbuxum.

Sjórinn er kaldur, brekkur brattar, úr hömrum hrynur og úr skýjum rignir gjarnan. Alls staðar þarna hefur fólk meitt sig og stundum glatast líf vegna hræðilegra útivistarslysa.

Af hinum tíðu útivistarslysum sem Mogginn greinir frá er ekki stafkrók að finna um hælsæri. Erlendar kannanir hafa sýnt fram á að fá slys valda eins miklum sársauka og einmitt blöðrur á fótum. Ekki skiptir máli þó svona sársauki gleymist hratt, aðalatriðið er að ganga ekki neitt. Aðeins labbakútar fá hælsæri.

DSC_0928

Í fjarlægð virðast jöklar vera fallegir og elskulegir. Staðreyndin er þó allt önnur. Þeir eru skaðræðis land ef land má kalla. Banna á skilyrðislaust allar ferði um jökla. Snjórinn er því miður kaldur og veður eru þar alltaf vond. Drangajökull er sem betur fer langt í burtu frá þægindum höfuðborgarsvæðisins.

Þriðja myndin er einmitt tekin þar. Hún hefur ekkert sönnunargildi um að á jöklum geti verið gott veður. Hún sýnir aðeins aðstæður eitt augnablik og þess vegna gætu þeir sem á myndinni eru verið steindauðir oní einhverri sprungunni. Nei, góðir lesendur. Útivistarslysin eru verst slysa.

DSC_0271

Háir hamrar virðast tilsýndar lofa góðu útsýni en hvaða máli skiptir það fyrir fótbrotinn mann sem liggur ósjálfbjarga í gamalli kindagötu? Af útivistarslysastað er útsýni oft af skornum skammti.

Á neðstu myndinni má greina nokkra vitleysinga sem hafa álpast upp á klett við Hesagötur í Goðalandi. Vissulega er fallegt útsýni þarna uppi en hvað veit lesandinn um kvalir göngumannanna; hælsæri þeirra, höfuðverk vegna hæðarinnar, mæði, blóðþrýsting eða sífellda þörf að éta eitthvað til að koma til móts við orkuþörf líkamans.

Af þessu má sjá að best er að halda sig heima. Þó ber að varast rúmið þar enda flestir líf sitt; stórhættulegur staður. Útivistarslysin eru mörg eins og fram kemur í Mogganum og valda lögreglunni bölvuðum vandræðum og töfum frá heilbrigði kaffidrykkju og spjalli við kaffiborð eða rúnti í hlýjum löggubílum..

Stöðugt heilbrigt hreyfingarleysi er án efa besta lífsreglan.


mbl.is Tíð útivistarslys í síðustu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Hvað með rasssæri af því að sitja heima hjá sér allan daginn og legusár af því að liggja alla nóttina uppi í rúmi? Svo ég tali nú ekki um hættuna af eldhúshnífum. Fólk verður að flýja heimili sín til að forðast hætturnar þar. Og fyrir utan heimilin tekur ekki betra við: Stórhættuleg, vélknúin farartæki á götunum í stað hestvagna.

Life's a bitch.

Vendetta, 14.11.2011 kl. 13:44

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Mundu þetta; stöðugt en heilbrigt hreyfingarleysi. Þá færðu aldrei aftur rass- eða legusár.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.11.2011 kl. 13:46

3 identicon

Ég verð stundum sár á botninum þegar ég hef hjólað mikið.

Kunningi minn einn er með eitt af þessum rafmagnshjólum, en hann heldur því fram að það sé besti fararkosturinn. Þú færð einhverja hreyfingu vegna þess að fæturnir fái að dangla með petölunum þó svo þú þurfir ekki að beita afli til að knýja hjólið. Einnig bendir hann á það að það sé ódýrara en venjulegt reiðhjól vegna þess að þegar maður er búinn að hjóla mikið þá verður maður svo svangur og þurfi að fara í bónus, og kaupa svo og svo mikið   til að kíla út vömbina,  en með rafmagnshjólið þarf eingöngu að stinga í samband við tengilinn og að kw stundin  fyrir rafmagnshjólið sé ódýrari en það magn sem líkaminn þarf af orku úr Bónus.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.11.2011 kl. 17:02

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Svo kemur fyrir að maður svitnar á hjólinu, púlsinn fer upp úr öllu valdi og svo er alltaf mótvindur.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.11.2011 kl. 17:19

5 Smámynd: Hafþór Rósmundsson

Stöðugt heilbrigt útivistarleysi blaðamanna moggans birtist best í því hvað þeir eru duglegir að afrita dagbækur löggunnar á landsbyggðinni svo þeir þurfi ekki að hreyfa á sér rassgatið til að bera sig eftir fréttaefni utan 101.

Hafþór Rósmundsson, 14.11.2011 kl. 18:52

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, nú ertu kominn út fyrir efnið, Hafþór. Hins vegar er Mogginn í póstnúmeri 110, minnir mig, og alveg skrambi nálægt landsbyggðinni.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.11.2011 kl. 19:57

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Hárfín ádeila og flottar myndir! 

Umræðan á það til að fara út í 'svart eða hvítt' eins og ekkert annað rúmist í litrófinu.

Hlustaði á umræðuþátt í vikulokin þar sem 'náttúruverndarsinni' skildi ekki að golfvellir séu yfirleitt leyfðir í heiminum, vegna mengunar!

Þetta er náskylt forræðishyggju og er jafnslæmt og allt með viðskeytið "ismi".    

Við erum ...... það sem við erum!

Jenný Stefanía Jensdóttir, 15.11.2011 kl. 03:03

8 Smámynd: Vendetta

Forræðishyggjan er slæm, þegar reynt er að hafa vit fyrir fullorðnu fólki. Alltaf reynt annað hvort að pakka öllum inn í sótthreinsaða bómull, eða þá að fara út í algerar öfgar eins og þessir grímuklæddu öfgafemínistar. 

Ég tel, að Ísland sé með alverstu forræðishyggjuþjóðfélögum í heimi og í harðri samkeppni við Svíþjóð og Norður-Kóreu.

Vendetta, 15.11.2011 kl. 03:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband