Súmm inn og súmm út frá golfmótum
14.11.2011 | 09:56
Okkur áhugamönnum um fótbolta myndi örugglega ekki líka ef sjónvarpsútsendingar af knattspyrnuleikjum væru sýndir eingöngu frá endimörkum leikvangs. Hefðin er sú að upptökuvélar eru staðsettar við langhlið vallarins, nákvæmlega til móts við miðju.
Þannig er það ekki í golfi. Hefðin er þveröfug. Upptökuvélar eru staðsettar við teig og sýnir golfarann slá inn á brautina. Önnur vél er einhvers staðar við endimörk hennar. Stjórnendur hafa þá eitt markmið að sýna golfkúlu á flugi, helst að ná henni í fókus og nærmynd af lendingu hennar. Önnur hefð, og sýnu verri, er að brúka óhóflegan aðdrátt sem skekkir allt skyn áhorfenda fyrir vegalengdum á golfvellinum. Á þessu hef ég því miður lítinn áhuga en upptökumenn golfþátta og stjórnendur þeirra stunda líklega ekki sjálfir golf.
Sem golfari eru kröfur mínar einfaldar. Ég vil endilega fá að sjá upphafshögg kylfings á sjónvarpsskjánum. Ég vil líka vita og sjá hversu langt hann slær, ekki í jördum heldur í metrum þó svo að ég viti að fyrrnefnda mælieiningin sé 0,91 af þeirri síðarnefndu. Þetta síðarnefnda er bara varakrafa ...
Í útlandinu er oft trjágróður sem takmarka útsýni til golfbrautar af hlið. Svif kúlunnar má hins vegar sína grafískt. Það er sjaldan gert, en tæknin er fyrir hendi.
Nú, kröfurnar eru fleiri, en hver er sosum að telja. Ég geri þá bjargföstu kröfu að í sjónvarpi sjáist styttri leikur kylfings. Það ætti nú að vera hægt að sýna frá hlið, sérstaklega þegar vegalengd að holu er innan við t.d. fimmtíu metrar.
Þetta virðist engum detta í hug. Og myndavélamaðurinn á að standa kyrr, ekki sveifla vélinni eftir kúlunni. Þess í stað er sýnt þaðan sem kylfingurinn stendur og mundar kylfuna, dregið er að svo öll hlutföll skekkjast. Boltinn er sleginn og þá er skipt yfir á vélina við flötina og þar er súmmað inn og út rétt eins og sá sem upptökuvélinni stjórnar sé á lyfjum. Tíu metra vipp verður við þetta eins og eitt hundrað metra.
Útlendu þulirnir eru oft mistækir, ferlega slappir rétt eins og myndatökumennirnir. Þeir missi sig yfir nákvæmninni eða mistökum kylfingsins, en ég veit ekki neitt. Er fyrir löngu orðinn sjóveikur vegna súmm inn, súmm út, svifi og bakspuna kúlu sem sjaldnast sést í tengslum viðumhverfið. Ekki dettur svo þulinum í hug að segja manni frá því hvaða kylfa er notuð nema um sé að ræða dærver eða pútter. Fjandakornið, þær kylfur þekkja allir í sjón.
Mikil kvöl er það og pína að hafa ánetjast þessari vitleysu sem golfið er. Vest er þó að vera orðinn svo mikill kverúlant að finna sig nauðbeygðan til að skrifa umkvaranir til þeirra sem aldrei lesa neitt á þessari síðu, vita ekki af henni og skilja í þokkabót ekkert í íslensku. Áður en golfið tók mig heljartökum rámar mig í að hafa gengið á fjöll. Einhvern tímann bariðst ég við óblíð náttúruöflin, lét fyrirberast í skafli í hríðarveðri, stóð í morgunsól á hæsta jökultindi, kleif upp hamrabjörgin, féll í jökulsprungu, synti yfir árósa og gekk matarlaus og votur um Hornstrandir. Nú sit ég í hægindastól og tala við sjónvarpsþulinn sem heyrir ekki einu sinni í mér. Svo hleyp ég út á golfvöll og þykist ætla að endurtaka það sem Tægervúdds gerði svo vel, en ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Facebook
Athugasemdir
Flottur :-)
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 14.11.2011 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.