Ólafur Oddsson, eftirminnilegur kennari
10.11.2011 | 09:57
Ákvarðanataka er orð sem ekki er til, sagði Ólafur Oddsson, íslenskukennarinn minn í MR. Þú ákveður, tekur ákvörðun. Þetta er svo einfalt.
Ólafur Oddsson er mér tvímælalaust eftirminnilegastur kennara í MR, en þaðan varð ég stúdent 1977. Hann var hægur og alltaf rólegur. Hafði með sér bláan ópal sem lá opinn á kennaraborðinu meðan á tímanum stóð. Honum tókst að vekja áhuga minn á íslensku máli, fornbókmenntum og skriftum. Þetta rennur nú upp fyrir mér þegar ég horfi á bókahillurnar sem þekja enn langvegginn í stofunni.
Nú er hann dáinn, borinn til grafar í dag. Það finnst mér alveg ótrúlegt. Í minningunni er hann alltaf svo unglegur og frískur. Af lestri minningargreina í Morgunblaðinu sé ég að hann var fæddur 1943, aðeins sextíu og átta ára gamall, hafði verið hjartveikur síðustu árin.
Ólafur skrifaði oft greinar í Moggann, sérstaklega um skólamál. Var rökfastur en aldrei fannst mér hann skrifa þannig að hann einn hefði rétt fyrir sér. Þetta fannst mér alltaf einkenni á kennaranum, hann var alltaf tilbúinn til að ræða málin, hlusta á skoðanir annarra.
Auvitað lét ég segjast eftir skýringar Óla Odds. Hef ekki síðan notað orðskrípið ákvarðanataka. Sú ákvörðun var létt enda rökin fyrir henni góð. Hins vegar verður að segjast eins og er að orðskrípið lifir góðu lífi og er kannski búið að vinna sér þegnrétt í íslensku, en það er nú allt annað mál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.